Fundargerð - 22. febrúar 2006
Mánudaginn 22. febrúar 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 79. fundar, sem haldinn var í Hlíðarbæ.
Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. Þrír áheyrnarfulltrúar komu á fundinn.
Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Áætlanir. Síðari umræða.
Áætlað er að tekjuafgangur 2007 verði kr. 6.829.000, 2008 kr. 13.057.000 og 2009 kr. 14.839.000, sbr. samantekið rekstraryfirlit A og B hlutar. Áætlanirnar voru síðan samþykktar samhljóða. Sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá áætlunum.
2. Breyting á samþykktum Hörgárbyggðar nr. 556/2001, síðari umræða.
Samþykkt var breyting á samþykktum um stjórn og fundarsköp Hörgárbyggðar nr. 556/2001, þ.e. í stað 7 í 1. gr. kemur 5. Það þýðir að eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2006 verði sveitarstjórn skipuð 5 mönnum í stað 7 manna áður. Fjórir sveitarstjórnarmenn samþykktu breytinguna, tveir sátu hjá og einn var á móti.
3. Afslættir fasteignagjalda.
Ákveðið var að breyta reglum um afslætti og taka upp fastan afslátt, þ.e. að elli og örorkuþegar geti fengið fastan afslátt. Fastur afsláttur verði kr. 30.000 pr. íbúð til eigin nota. Einnig að hægt er að fá allt að kr. 10.000 til viðbótar og væri sá afsláttur tekjutengdur.
4. Launamál tillögur LN
Launanefnd sveitarfélaga hefur heimilað sveitarfélögum að bæta við launaflokkum og eingreiðslum á tiltekin störf skv. meðfylgjandi fylgiskjali dags. 28. janúar 2006. Orlofslaun eru innifalin í eingreiðslum og greiðast þær í samræmi við starfshlutfall. Gildistímabilið er frá 1. janúar 2006 til 30. september 2006. Ákvarðanir um nýtingu þessarar heimildar skulu teknar af sveitarstjórnum eða stjórnum viðkomandi byggðarsamlaga.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir, fyrir sitt leyti, að nýta sér hámarkshækkun þá sem launanefnd sveitarfélaga hefur veitt heimild til. Lagt var til að fara leið 2 í 6. lið í fundargerð framkvæmdanefndar frá 16. febrúar 2006, vegna starfsfólks Þelamerkurskóla. Fundargerð framkvæmdanefndar tekin fyrir hér á eftir í lið 8.
5. Leikskólinn.
Ákveðið að fela sveitarstjóra, formanni leikskólanefndar og Guðnýju Fjólu að hitta hönnuði teikninga við leikskólann og fara betur yfir hönnun hússins með tilliti til betri nýtingar á rými.
Sveitarstjóra og oddvita falið, fyrir næsta sveitarstjórnarfund, að tala við þá þrjá aðila sem nefndir voru og athuga hvort þeir hafi áhuga á að koma að og/eða gera tilboð í byggingu við leikskólann. Ákveðið var að ráða eftirlitsaðila með framkvæmdum f.h. sveitarstjórnar.
6. Drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu.
Sveitarstjóra falið að fara yfir drögin og leggja fram athugasemdir ef þurfa þykir.
7. Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 2006 2009.
Sveitarstjóra falið að fara yfir ályktunina og leggja fram athugasemdir.
8. Fundargerðir.
a. Fundargerð bygginganefndar frá 7. febrúar 2006.
Í 6. lið fundargerðarinnar kemur fram að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála hefur óskað eftir að bygginganefnd lýsi viðhorfum sínum til kæru þeirrar er varðar umsókn um viðbyggingu við gamla íbúðarhúsið í Hraukbæ sem kærð var til nefndarinnar 9. nóvember 2005 og er lagt fyrir bygginganefnd að láta úrskurðarnefnd í té þau gögn er orðið gætu til að upplýsinga við úrlausn málsins. Meðfylgjandi fundargerðinni er umsögn Árna Ólafssonar arkitekts um aðalteikningar viðbyggingarinnarsem bygginganefnd lét vinna. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
b. Fundargerð skólanefndar frá 13. febrúar 2006.
Ákveðið var að akstursleiðir skólabarna í Hörgárbyggð verði boðnar út óbreyttar. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
c. Fundargerð staðardagskrár 21 frá 16. janúar 2006. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
d. Fundargerð leikskólanefndar frá 8. febrúar 2006.
Samþykkt var að greiða leikskólastjóra kr. 500 á mánuði upp í símakostnað. Borist hefur umsókn um leikskólapláss fyrir barn kennara við ÞMS búsett í Arnarneshreppi. Tekið var jákvætt í erindið þegar/ ef leikskólapláss er laust við leikskólann á Álfasteini og að því gefnu að Arnarneshreppur greiði mótframlagið. Sveitarstjóra falið að sjá um að umsækjandi fái skriflegt svar. Sveitarstjóra einnig falið að koma með tillögur um afslætti við leikskólann.
e. Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 6. febrúar 2006. Þar kemur fram, meðal annars, að samþykkt var umsókn um stækkun við Hlíðarskóla og nýrri viðbót við hann, Skjöld sem er sérdeild í Miðvík í Skjaldarvík. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd án athugasemda.
f. Fundargerð framkvæmdanefndar frá 16. febrúar 2006. Oddvita, sveitarstjóra og formanni skólanefndar falið að vinna útboðslýsingu fyrir skólaakstur í Hörgárbyggð og leggja fyrir næsta fund. Vegna ráðningu húsvarðar leggur sveitarstjórn Hörgárbyggðar áherslu á að hann verði ráðin í 100%. Fundargerðin rædd og afgreidd að öðru leyti án athugasemda.
9. Bréf og erindi.
a. Bréf frá Skipulagsstofnun frá 2. febrúar 05.
Þar sem fram kemur að eftir að ný gögn hafa verið lögð fram frá Hörgárbyggð og Vegagerðinni þá gerir Skipulagsstofnun ekki athugasemd við það að sveitarstjórn Hörgárbyggðar veiti leyfi fyrir byggingu 160 fm. íbúðarhúsi í landi Fornhaga II, sbr. fyrirliggjandi umsóknar þar um. Sveitarstjóra falið að afgreiða umbeðið leyfi til umsækenda.
b. Málstofa með rannsakendum á sviði skólamála. Lagt fram til kynningar.
c. Fjögur bréf frá Arnarneshreppi dags. 4.-6. febrúar.
Það skal fyrst telja að hreppsnefnd Arnarneshrepps er hlynnt því að ráðin verði nýr starfsmaður á skriðstofu byggingafulltrúa með vísan í fundargerð bygginganefndar frá 13. desember 2005.
Í öðru lagi samþykkir hreppsnefnd Arnarneshrepps að styrkja Miðaldadaga á Gásum með því að erlendi hópurinn nýti gistirýmið og eldhús í ÞMS sér að kostnaðarlausu með vísan í bréf Minjasafnsins á Akureyri ódagsett.
Einnig segir hreppsnefnd Arnarneshrepps upp samningi við skólastjóra varðandi önnur þau störf við ÞMS sem ekki er getið um í réttindum og skyldum kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur undir það að sérsamningnum verði sagt upp þar sem staða húsvarðar er laus til umsóknar og því þörf á að endurskoða þessi mál í heild sinni.
Í fjórða lagi lýsir hreppsnefnd Arnarneshrepps því yfir að hún hafi áhuga á að sparkvöllur í uppbyggingaátaki KSÍ verði settur upp við ÞMS og að allsherjarúttekt verði gerð á enduruppbyggingu á útileiksvæði skólans.
Áskorun hefur einnig borist frá Ungmennafélaginu Smáranum og forstöðumanni Íþróttamannvirkjanna á Þelamörk um að Hörgárbyggð sæki um til KSÍ að setja upp slíkan sparkvöll við ÞMS. Samþykkt var að sækja til KSÍ um gerð sparkvallar við ÞMS og að hann yrði settur upp árið 2007. Fram að þeim tíma væri unnið að fjármögnun vallarins.
Bréf hefur borist frá hreppsnefnd Arnarneshrepps dags. 20. febrúar 2006 og þar stendur: Hreppsnefnd Arnarneshrepps fjallaði um bréf ykkar dags. 23. jan. síðastliðinn á hreppsnefndarfundi sínum, dags. 8. febrúar sl. Meirihluti hreppsnefndar Arnarneshrepps er samþykk því fyrir sitt leyti að slík skoðanakönnun fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar fagnar viðbrögðum hreppsnefndar Arnarneshrepps og er sveitarstjóra Hörgárbyggðar falið að vinna að framgangi málsins, með fulltrúa Arnarneshrepps.
d. Erindi frá sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar þar sem hann óskar eftir fundi með fulltrúum þeirra sveitarfélögum sem aðild eiga að embætti byggingarfulltrúa og er meðfylgjandi minnisblað um málefnið, sem Bjarni Kristjánsson tók saman vegna starfsmannamála byggingafulltrúa-embættisins með vísan í fundargerð byggingarnefndar frá 13. desember 2005. Sveitarstjóra falið að fara á fund með aðildarsveitarfélögunum þar sem þessi mál verði rædd.
e. Frá Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 hefur borist fundarboð á landsráðstefnu um Staðardagskrá 21 á Íslandi og verður ráðstefnan haldin í Snorrastofu í Reykholti 3. og 4. mars nk. Þar mun umhverfisráðherra undirrita Ólafsvíkuryfirlýsinguna ásamt fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið upp Staðardagskrá 21 á árinu 2004 og 2005.
f. Endurgreiðslur VSK. Gögn frá KPMG um endurgreiðslur á virðisaukaskatti til sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar
g. Samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga
Nýr samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga var undirritaður nýlega. Lagður fram til kynningar.
10. Samningur milli sveitarfélaga um ÞMS.
Frestað til næsta fundar.
11. Ýmis mál.
a. Lóðir - trúnaðarmál.
b. Þjóðskrá. Frestað til næsta fundar
c. Önnur mál
Lögð voru fram til kynningar drög að uppbyggingu að Gásum í Hörgárbyggð dags. 12. febrúar 2006. Frestað til næsta fundar
Hlíðarbær var skoðaður, því brýnþörf er orðin á endurbótum. Búið er að kaupa 50 nýja stóla. Þörf er á að kaupa fleiri stóla því aðrir stólar eru orðnir slitnir. Ákveðið að kaupa 50 stól til viðbótar sem fyrst. Loftaklæðning er farin að gefa sig og þurft hefur að setja skrúfur upp í loftið til að koma í veg fyrir hrun á klæðningu. Ákveðið að fá Þröst Sigurðsson hjá Opus til að taka út það sem gera þarf við í Hlíðarbæ og leggja fram kostnaðaráætlun. Sveitarstjóra falið í samvinnu við húsvörð að tala við Þröst og koma með kostnaðaráætlun fyrir næsta fasta fundinn í mars.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:10.