Fundargerð - 22. ágúst 2008
Föstudagskvöldið 22. ágúst 2008 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson. Auk þess sat Helgi Steinsson oddviti fundinn.
Eftirfarandi fært til bókar á fundinum:
1. Skrifað undir fundargerðir tveggja síðustu funda.
2. Rætt um fyrirhugaða veggirðingu í Öxnadal (samanber fundargerð fjallskilanefndar frá 13. júní 2008). Oddviti upplýsti að búið sé að ákveða fund með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar næstkomandi mánudag.
3. Þar sem ekki hefur tekist að breyta, Fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög á svæði Héraðsnefndar Eyjafjarðar,til að bregðast við dómi Héraðsdóms Norðurlands Eystra frá 19. mars 2008, varðandi álagningu fjallskila á landverð jarða. Ákvarðar fjallskilanefnd að ekki verði lögð gangnadagsverk á land í Hörgárbyggð haustið 2008.
4. Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti. Í Fjallskilasamþykkt Eyjafjarðar segir um réttahald í 28. gr. Úrtíningsfé úr aukaréttum skal rekið eða flutt til aðalréttar, af mönnum sem sveitarstjórn hefur til þess kvatt. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að draga upp í hverri rétt. Fjallskilanefnd samþykkir að dregið skuli upp á hverri auka- og heimarétt í sveitarfélaginu og ber réttarstjórum að tilkynna um aðkomufé til eiganda innan Hörgárbyggðar, sem ber þá að sækja sitt fé. Sé um utansveitarfé að ræða skal tilkynna það til eiganda eða fjallskilastjóra viðkomandi fjallskiladeildar í Hörgárbyggð. Sami háttur verður hafður á er varðar fé úr Hörgárbyggð, sem kemur fyrir í skilaréttum í nágrannasveitarfélögum og undanfarin ár, kostnaður við það verður greiddur úr sveitarsjóði.
5. Farið var yfir niðurröðun gangnadagsverka sem fjallskilastjóri var búinn að forvinna og gerðar smávægilegar breytingar.
6. Ákveðið að senda út með fjallskilaboði líkt og undanfarin ár aðvörun er varðar búfjársjúkdóma, sem hljóði svo: Fjallskilanefnd minnir á, að enn er full þörf fyrir að vera á varðbergi gagnvart riðusmiti svo og öðrum sauðfjársjúkdómum og hafa beri fulla aðgæslu með alla flutninga á búfé, heyi, landbúnaðartækjum og öðru því, sem smit gæti borist með. Leita ætti álits og samþykkis Héraðsdýralæknis, ef menn hafa hug á að kaupa sauðfé úr öðrum sveitarfélögum.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:50.
Guðmundur Skúlason
Aðalsteinn H Hreinsson
Stefán Lárus Karlsson