Fundargerð - 21. nóvember 2012
Miðvikudaginn 21. nóvember 2012 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Jón Þór Benediktsson.
Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.
Þetta gerðist:
1. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 12. september 2012
Fundargerðin er í fimm liðum, auk afgreiðslu á 22 umsóknum um starfsleyfi og þremur öðrum málum. Ekkert þessara atriða varða Hörgársveit með beinum hætti. Fundargerðinni fylgdi fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra fyrir árið 2013.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
2. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 23. október 2012
Fundargerðin er í sex liðum. Þar eru gerðar tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu á styrkbeiðnum frá Verksmiðjunni á Hjalteyri og frá Heimaslóð. Aðrir liðir hennar eru um vatnsskemmdir í íþróttasal Íþróttamiðstöðvarinnar, um íbúafund um menningar- og tómstundamál og um fjárhagsramma 2013.
Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um afgreiðslu á styrkbeiðnum frá Verksmiðjunni á Hjalteyri og frá Heimaslóð. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
3. Fundargerð fræðslunefndar, 25. október 2012
Fundargerðin er í fjórum liðum. Þar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um að óskað verði eftir viðræðum við Akureyrarbæ um lóð fyrir skólabyggingu í landi Blómsturvalla. Aðrir liðir hennar varða skýrslur um veitingu tímabundinnar leikskólavistar og veitingu námsvistar á síðasta skólaári og um fjárhagsramma 2013.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um viðræður við Akureyrarbæ um lóð fyrir skólabyggingu undir þeim formerkjum hvort til greina komi að setja slíka lóð á aðalskipulag sveitarfélagsins sem er vinnslu. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
4. Skútar/Moldhaugar, deiliskipulag
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði og efnistökusvæði í landi Skúta og Moldhauga, sjá 5. lið þessarar fundargerðar. Tillagan skiptist í skipulags-uppdrátt, greinargerð og umhverfisskýrslu. Lýsing á skipulagsverkefninu var afgreidd til kynningar af skipulags- og umhverfisnefnd 11. apríl 2012 og sú afgreiðsla síðan staðfest af sveitarstjórn 18. apríl 2012. Um er að ræða sama deiliskipulag og var til umfjöllunar hjá nefndinni 13. desember 2010 og 6. apríl 2011, en vegna ábendinga frá Skipulagsstofnun, m.a. um formgalla, var skipulagsferlið hafið að nýju. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði og efnistökusvæði í landi Skúta og Moldhauga verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 6. nóvember 2012
Fundargerðin er í tólf liðum. Einn liður hennar, um tillögu að deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði og efnistökusvæði í landi Skúta og Moldhauga, var til afgreiðslu í dagskrárliðnum hér að framan. Þar eru ennfremur gerðar tillögur til sveitarstjórnar um tillögu um breytingu á aðalskipulagi Akureyrarkaupstaðar, um beiðni um að breyta skilgreindri landnotkun lóðarinnar sem Kaffi Lísa stendur á og um minkaveiðar. Aðrir liðir fundargerðarinnar varða fundargerð samráðshóps um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrar, um tillögu um breytta legu reiðleiða á Akureyri, um lýsingu á skipulagsverkefninu Lónsbakki, um aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, um fund um sorphirðumál, um umsögn um tillögu að landskipulagsstefnu, um ársfund Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og um fjárhagsramma 2013.
Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrarkaupstaðar og um landnotkun lóðarinnar sem Kaffi Lísa stendur á. Sveitarstjórnin samþykkti að fresta afgreiðslu tillögu nefndarinnar um fyrirkomulag minkaveiða. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
6. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar, 8. nóvember 2012
Fundargerðin er í þremur liðum, um tillögur til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum og um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun og um fjárhagsramma 2013.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
7. Fundargerð atvinnumálanefndar, 14. nóvember 2012
Fundargerðin er í þremur liðum. Þar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um endurnýjun gildandi samstarfssamnings sveitarfélagsins við Markaðsstofu Norðurlands. Aðrir liðir hennar eru um styrkveitingar og fjárhagsramma 2013.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu atvinnumálanefndar um endurnýjun gildandi samstarfssamnings sveitarfélagsins við Markaðsstofu Norðurlands. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
8. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2013
Fram kom að álagningarhlutfall útsvars 2012 er 14,48%, sem er lögbundið hámark.
Sveitarstjórn samþykkti að álagningarhlutfall útsvar á árinu 2013 verði 14,48%.
9. Álagningarreglur fasteignagjalda 2013
Lögð fram drög að álagningarreglum fasteignagjalda fyrir árið 2013 svo og drög að reglum um afslátt af fasteignaskatti fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.
Sveitarstjórn samþykktiað álagningarhlutfall fasteignaskatts á árinu 2013 skv. a-lið verði 0,40%, skv. b-lið 1,32% og skv. c-lið 1,40% af fasteignamati. Þá samþykkti sveitarstjórnað vatnsgjald vatnsveitu Hjalteyrar verði kr. 10.000 á hverja íbúð og hvert frístundahús, að sorphirðugjald heimila verði kr. 40.000, að sorphirðugjald frístundahúsa verði kr. 8.000, enda sé þjónusta þar ekki veitt á vetrum, og að sorphirðugjald vegna búrekstrar verði 60 kr. fyrir hverja sauðkind, 120 kr. fyrir hvert hross, 240 kr. fyrir hvert svín og 360 kr. fyrir hvern nautgrip. Framlögð drög að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti voru samþykkt af sveitarstjórn. Þær gera ráð fyrir að efstu tekjumörk afsláttar fyrir einstaklinga verði kr. 3.600.000 og fyrir samskattaða kr. 4.800.000.
10. Þelamerkurskóli, tilboð í gerð úttektar/kostnaðaráætlunar fyrir viðhald
Lögð fram niðurstaða útboðs á gerð úttektar/kostnaðaráætlunar fyrir viðhald Þelamerkurskóla, sem fram fór skv. samþykkt sveitarstjórnar 19. september 2012. Tilboð bárust frá eftirtöldum verkfræðistofum: Mannvit ehf., Verkfræðistofa Norðurlands ehf. og Verkís ehf.
Sveitarstjórn samþykkti að tekið verði tilboði Verkfræðistofu Norðurlands ehf., sem bauð lægsta einingaverð í gerð úttektar/kostnaðaráætlunar fyrir viðhald Þelamerkurskóla. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að skipa eftirtalda í vinnuhóp til að ákvarða umfang úttektarinnar og hafa umsjón með henni: Axel Grettisson, Ingileif Ástvaldsdóttir og Jón Þór Brynjarsson.
11. Landssamband hestamanna, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 3. október 2012, frá Landssambandi hestamanna þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 100.000 á ári í 4 ár til að skrá reiðleiðir og gera kortasjá fyrir þær.
Sveitarstjórn samþykkti að verða ekki við erindinu að svo stöddu.
12. Neytendasamtökin, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 19. október 2012, frá Neytendasamtökunum þar sem óskað er eftir styrkveitingu vegna ársins 2013 að fjárhæð kr. 10.512.
Sveitarstjórn samþykkti að verða við erindinu.
13. Landsbyggðin lifi, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 2. nóvember 2012, frá samtökunum Landsbyggðin lifi, þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 50.000 til að sinna grunnstarfsemi samtakanna.
Sveitarstjórn samþykkti að verða ekki við erindinu.
14. Stígamót, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, ódags., frá Stígamótum, þar sem óskað er eftir fjárhagslegum styrk.
Sveitarstjórn samþykkti að verða ekki við erindinu.
15. Fjárhagsáætlun fyrir árin 2013-2016, fyrri umræða
Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árin 2013-2016. Skv. tillögunni er gert ráð fyrir að árinu 2013 verði rekstrarafgangur upp á 26,2 millj. kr. og að handbært fé á árinu hækki um 17,4 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa framlagðri tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árin 2013-2016 til síðari umræðu.
16. Dysnesspilda, leiga beitilands
Lagt fram bréf, dags. 17. október 2012, frá Brynjari Finnssyni með ósk um að fá á leigu beitiland á Dysnesspildu úr landi Syðri-Bakka.
Sveitarstjórn samþykkti að undirbúin verið auglýsing eftir tilboðum í leigu á Dysnesspildu og öðrum landspildum í eigu sveitarfélagsins til nota sumarið 2013.
17. Torfnes, landskipti
Lagður fram tölvupóstur, dags. 7. nóvember 2012, frá Haraldi Sveinbjörnssyni, þar sem þess er farið á leit að landskipti skv. framlögðum uppdrætti og skiptasamningi verði samþykkt af sveitarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti þau landskipti á Torfnesi sem lýst er í framlögðum gögnum.
18. Héraðsskjalasafnið á Akureyri, samþykkt
Lögð fram drög að samþykkt fyrir Héraðsskjalasafnið á Akureyri. Fram kom að ekki er um að ræða breytingu frá þeirri samþykkt sem nú er í gildi, þ.m.t. fyrirkomulagi fjármögnuna.
Sveitarstjórn samþykkti að staðfesta fyrir sitt leyti fyrirliggandi drög að samþykkt fyrir Héraðsskjalasafnið á Akureyri.
19. Innanríkisráðuneyti, málstefna sbr. 130. gr. sveitarstjórnarlaga
Lagt fram bréf, dags. 21. september 2012, frá innanríkisráðuneytinu þar sem óskað er eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu um hvort og þá með hvaða hætti það hefur uppfyllt ákvæði 130. gr. sveitarstjórnarlaga um málstefnu.
Sveitarstjórn samþykkti að veittar verði umbeðnar upplýsingar um málstefnu sveitarfélagsins.
20. SÁÁ, átakið Betra mannlíf! mannúð og réttlæti
Lagt fram til kynningar bréf, ódags., frá SÁÁ með ósk um stuðning við átakið Betra mannlíf! mannúð og réttlæti.
21. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 2., 5. og 22. október 2012
Fyrsta fundargerðin er í einum lið, önnur er í fimm liðum og sú síðasta er í ellefu liðum.
22. Trúnaðarmál
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:50.