Fundargerð - 21. nóvember 2007
Miðvikudaginn 21. nóvember 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 20. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Lækjarvellir, deiliskipulagsbreyting
Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Lækjarvalla, ásamt yfirlýsingu þeirra sem hafa fengið úthlutun lóðar á svæðinu um að þeir hafi kynnt sér tillöguna og geri ekki athugasemd við hana. Tillagan hefur verið afgreidd af skipulags- og umhverfisnefnd. Skv. gr. 7.2.3. í skipulagsreglugerð þarf ekki að auglýsa tillöguna þar sem grenndarkynning hefur farið fram og fyrir liggur yfirlýsing allra hlutaðeigandi um að ekki er gerð athugasemd við hana.
Sveitarstjórn samþykkti tillöguna eins og hún er lögð fram.
2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 12. nóv. 2007
Fundargerðin er í þremur liðum. Fyrsti liður hennar er til umræðu og afgreiðslu undir næsta dagskrárlið hér á undan. Lagt fram bréf sem tekið var fyrir í 2. lið, um teikni- og framkvæmdafrest í Skógarhlíð 14.
Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
3. Fundargerð fjallskilanefndar, 8. nóv. 2007
Fundargerðin er í sex liðum. Undir lið 4 kemur fram að ráða þurfti í 4 dagsverk vegna gangnarofs í Hörgárbyggð. Ákveðið var að Hraun ehf. verði veittur styrkur sem nemur einu gangnadagsverki. Lagt fram bréf sem tekið var fyrir í 6. lið, frá Landbúnaðarstofnun og drög að svarbréfi þess. Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög að svarbréfi til Landbúnaðarstofnunar.
4. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 15. nóv. 2007
Fundargerðin er í sex liðum. Lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun ÞMS fyrir árið 2007 og útreikningur sem sýnir skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaganna miðað við gefnar forsendur.
Fundargerðin og endurskoðuð fjárhagsáætlun rædd og afgreidd án athugasemda.
5. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 15. nóv. 2007
Fundargerðin er í fjórum liðum. Lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun ÍMÞ fyrir árið 2007 og tillaga að fjárhagsáætlun ÍMÞ fyrir árið 2008.
Fundargerðin og endurskoðuð fjárhagsáætlun rædd og afgreidd án athugasemda. Einnig var samþykkt tillaga að fjárhagsáætlun ÍMÞ fyrir árið 2008.
6. Fundargerð leikskólanefndar, 19. nóv. 2007
Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
7. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, 6. nóv. 2007
Fundargerðin er í átta liðum. Síðasti liður hennar varðar breytingu á geldneytahúsi í Þríhyrningi.
Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda
8. Fundargerðir heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, 3. okt. og 8. nóv. 2007
Fyrri fundargerðin er í sex liðum, enginn þeirra varðar Hörgárbyggð. Afgreidd án athugasemda.
Seinni fundargerðin er í ellefu liðum. Í þriðja lið hennar veitir heilbrigðisnefnd leyfi fyrir hjólhýsum, verkfæraskúr og sólpalli á fjórum skógræktarlóðum í landi Steðja. Í lið 9d í fundargerðinni er veitt starfsleyfi fyrir nuddstofu á Lónsbakka. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
9. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2008
Samþykkt að álagningaprósenta útsvars verði óbreytt frá árinu 2007 þ.e. 13,03%.
10. Álagningarhlutföll fasteignagjalda fyrir árið 2008
Lögð fram drög að tillögu að álagningarhlutföllum fasteignagjalda fyrir árið 2008 og drög að reglum um afslátt á fasteignaskatti fyrir elli- og örorkulífeyrisþega fyrir sama ár.
Sveitarstjórn ákvað að álagningahlutfall fasteignaskatts skv. a-lið og c-lið á árinu 2008 verði þau sömu og á árinu 2007, þ.e. a-gjald 0,40% og c-gjald 1,40% af fasteignamati. Skv. lögum verður fasteignaskattur skv. b-lið 1,32% af fasteignamati. Ákveðið var að álagningahlutfall holræsagjalda á árinu 2008 verði það sama og á árinu 2007, þ.e. 0,18% af fasteignamati. Afsláttur elli- og örorkuþega af fasteignaskatti verði að hámarki kr. 33.000 vegna eigin íbúðar, auk þess allt að kr. 11.000 tekjutengds viðbótarafsláttar, sbr, sérreglur þar um. Vatnsgjald verður áfram innheimt fyrir Norðurorku hf. eins og á árinu 2007.
Sorphirðugjald heimila kr. 14.000. Sorphirðugjald á lögbýli þar sem búskapur er stundaður kr. 21.000.
Gjöld fyrir förgun úrgangs frá fyrirtækjum:
Blandaður úrgangur kr. 5,30 pr. kg.
Kjöt og sláturúrgangur kr. 7,20 pr. kg.
Fiskúrgangur kr. 7,20 pr. kg.
Matarleifar kr. 7,20 pr. kg.
Timbur óflokkað kr. 3,50 pr. kg.
Timbur flokkað kr. 2,60 pr. kg.
Garðaúrgangur kr. 3,50 pr. kg.
Gras án aðskotahluta kr. 1,00 pr. kg.
Dagblöð, tímar. og pappír kr. 5,00 pr. kg.
11. Skólaakstur, fjölgun nemenda á Hörgárdalsleið
Bregðast verður við fjölgun nemenda í skólaakstri úr Hörgárdal í næsta mánuði, þar sem skólabifreið er fullsetin. Ákveðið er að semja við Sigurð Gíslason að sækja börnin að Barká.
12. Gásir, íbúðabyggð
Lögð fram drög að samningi milli Hörgárbyggðar og Lífsvals ehf./Gása ehf., um uppbyggingu og rekstur íbúðabyggðar á Gásum. Á fundi sveitarstjórnar 20. júní 2007 (3. liður) var sveitarstjóra falið að eiga viðræður við landeigendur Gása um málið og eru drögin til komin í framhaldi af þeim.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að í tillögu að aðalskipulagi Hörgárbyggðar verði um 67 ha af jörðinni Gásum skilgreint sem íbúðabyggð í dreifbýli, þar sem gert verði ráð fyrir 40-50 íbúðarhúsum. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að undirbúa samningsgerð við landeiganda um aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu og rekstri íbúðabyggðarinnar á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga.
13. Gásakaupstaður, stofnun sjálfseignarstofnunar
Lagt fram afrit af bréfi, dags. 16. okt. 2007, frá Gásanefnd til sveitarfélaga í Eyjafirði um fyrirhugaða stofnun sjálfseignarstofnunar um Gásakaupstað þann 22. nóv. 2007.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að eiga aðild að sjálfseignarstofnun um Gásakaupstað og leggja stofnfé til hennar að fjárhæð allt að kr. 500.000.
14. Nýr framhaldsskóli í Eyjafirði
Lagt fram bréf dags. 26. okt. 2007, frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar, þar sem gerð er tillaga um að ábyrgð, forræði og kostnaðarskipting vegna nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð verði með sama hætti og á við Verkmenntaskólann á Akureyri. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur jákvætt í erindið.
15. Embætti byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsvæðis
Lagt fram minnisblað, dags. 30. okt. 2007, um breytingar á rekstrarformi byggingarfulltrúaembættis Eyjafjarðarsvæðis sem leiða af breytingum á samráðsvettvangi sveitarfélaga við Eyjafjörð. Sveitarstjórn samþykkti framkomnar tillögur á rekstrarformi byggingafulltrúaembættisins.
16. Álfasteinn, utanhúsklæðning
Lagt fram bréf, dags. 30. okt. 2007, frá Opus ehf. sem inniheldur greinargerð um skemmdir á nýrri utanhúsklæðningu á Álfasteini, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 15. ágúst og fundargerð leikskólanefndar 8. ágúst 2007. Málinu frestað að sinni.
17. Hörgá fyrir landi Grjótgarðs, efnistaka
Lagt fram bréf, dags. 9. nóv. 2007, frá GV Gröfum, þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 efnistöku úr Hörgá fyrir landi Grjótgarðs. Arnarneshreppur hefur einnig fengið erindi um málið, þar sem ósk fyrirtækisins varðar einnig Litla-Dunhaga I og II.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að veita umbeðið framkvæmdaleyfi fyrir sitt leiti og mun óska eftir samstarfi við Arnarneshrepp við útgáfu leyfisins.
18. Skriða, umsókn um leyfi fyrir frístundahúsi
Lagt fram tölvubréf, dags. 18. nóv. 2007, frá Þórgunni Skúladóttur og Herði Halldórssyni þar sem sótt er um leyfi til að reisa frístundahús á lóð úr landspildu í Skriðu. Bréfinu fylgir uppdráttur sem sýnir fyrirhugaða afstöðu hússins. Erindið var samþykkt.
19. Sparisjóður Norðlendinga, fundarboðun 23. nóv. 2007
Lagt fram bréf, dags. 13. nóv. 2007, frá Sparisjóði Norðlendinga, þar sem boðað er til fundar með stofnfjáraðilum þann 23. nóv. 2007. Fundarefni er breyting á samþykktum sparisjóðsins til samræmis við samþykktir BYRS sparisjóðs, sem gefur stjórn aukna heimild til aukningar stofnfjár.
Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í útboðinu og felur sveitarstjóra fullt og ótakmarkað umboð til að fara með atkvæði Hörgárbyggðar.
20. Aðalskipulag Hörgárbyggðar, kostnaður
Lögð fram samantekt, dags. 19. nóv. 2007, frá Landmótun, sem vinnur að gerð aðalskipulags Hörgárbyggðar, þar sem fram kemur að umfang verksins hafi aukist frá því sem gert var ráð fyrir í tilboði. Um er að ræða vinnu við mótun hugmynda um útfærslu skipulags á mörkum Hörgárbyggðar og Akureyrarkaupstaðar o.fl. Kostnaðaraukinn er kr. 950.000 fyrir utan vsk. Sveitarstjórn samþykkti framkominn kostnaðarauka við gerð aðalskipulags Hörgárbyggðar.
21. Ungmennasamband Eyjafjarðar, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 8. nóv. 2007, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar, þar sem óskað er eftir styrk til starfseminnar. Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin styrkt sambandið í gegnum Héraðsnefnd, en því hefur nú verið hætt. Sveitarstjórn samþykkti að greiða kr. 510 pr. íbúa til UMSE vegna ársins 2008.
22. Eldvarnir á heimilum
Lagt fram tilboð frá Eldvarnamiðstöð Norðurlands ehf., á handslökkvitækjum fyrir heimili. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
23. Fundargerð héraðsráðs, 24. okt. 2007
Fundargerðin er í sjö liðum. Fjórði liður hennar er til umræðu og afgreiðslu í 14. lið þessarar fundargerðar. Að öðru leyti er fundargerðin lögð fram til kynningar.
24. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 5. og 12. okt. 2007
Fundargerðin frá 5. okt. er í fimm liðum og fundargerðin frá 12. okt. er í þremur liðum.
Lagðar fram til kynningar.
25. Landvernd, Skólar á grænni grein
Lagt fram bréf, ódagsett, frá Landvernd, um verkefnið Skólar á grænni grein
Lagt fram til kynningar.
26. Eyþing, samstarf í ferðamálum
Lagt fram bréf, dags. 24. okt. 2007, frá Eyþingi, þar sem sveitarfélögin eru hvött til að halda áfram samstarfi um Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi. Lagt fram til kynningar.
27. Eyþing, hjólreiða- og göngustígar
Lagt fram bréf, dags. 24. okt. 2007, frá Eyþingi, um gerð áætlunar um hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum. Lagt fram til kynningar.
28. Skráning örmerktra gæludýra
Lagt fram bréf, dags. 8. nóv. 2007, frá Önnu Jóhannesdóttur dýralækni, um stofnun örmerkjagagnagrunns gæludýra. Erindinu hafnað.
29. Snorraverkefnið, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 9. nóv. 2007, frá Snorraverkefninu, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi vegna ársins 2008. Erindinu hafnað.
30. Bréf frá Akureyrarbæ - sameiginleg mál og samstarf
Óskað er eftir að Hörgárbyggð tilnefni tvo fulltrúa í vinnuhóp til að fjalla um sameiginleg mál og samstarf milli Akureyrarbæjar og Hörgárbyggðar.
Ákveðið var að skipa sveitarstjóra og oddvita í umræddan vinnuhóp.