Fundargerð - 21. nóvember 2005

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kom framkvæmdanefnd Þelamerkurskóla saman til fundar ásamt oddvitum sveitarfélaganna. Mættir voru Hjördís Sigursteinsdóttir, Hannes Valur Gunnlaugsson, Helgi Steinsson, Ármann Búason og Sigurbjörg Jóhannesdóttir.

 

Hjördís Sigursteins­dóttir ritaði fundargerð. 


Fundurinn hófst kl. 20:05

 

Fyrir var tekið:

 

1. Framúrkeyrsla vegna Þelamerkurskóla.

Rætt var um framúrkeyrslu Þelamerkurskóla, sérstaklega hvað varðar viðhaldsliði.  Mikil frávik voru í kostnaði við kennslueldhús.  Hluti af þessum kostnaði lá fyrir í sumar og þá hefði verið eðlilegt að gera grein fyrir málum.  Auk þess sem sérstaklega er bókað í fundargerð framkvæmdanefndar þann 26. janúar sl. að ítrekað væri að leggja bæri fram tilboð í viðhaldsverkefni og tækjakaup fyrir framkvæmdanefnd til staðfestingar og bókunar.  Þessu var ekki sinnt.

Nokkrar umræður áttu sér stað en niðurstaða fundarins var að Helgu var falið að hafa samband við endurskoðanda um hvað bæri að gera í svona stöðu og jafnfram að leita álits hjá Kristni Kristjánssyni hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

2. Fjárhagsáætlun Þelamerkurskóla 2006

Enn hefur endanleg fjárhagsáætlun vegna Þelamerkurskóla ekki borist sveitarfélögunum en bókað var í fundargerð framkvæmdanefndar þann 29. sept. sl. að framkvæmdanefndin árétti að fjárhagsáætlun ársins 2006 þurfi að liggja fyrir síðast í október.

Ákveðið var að oddvitar sendu bæði tölvupóst á skólastjóra þar sem farið væri fram á að áætlunin bærist sveitarfélögunum í síðasta lagi næst komandi fimmtudag um hádegisbil.

 

3. Leikskólamál

Oddviti Arnarneshrepps spurðist fyrir um leikskólamál og hvort vilji væri til að leysa málin til bráðabirgða með því að stofna skólahóp í leikskólanum (5 ára börn) með aðsetur í Þelamerkurskóla frá og með áramótum.  Þar með losnaði um nokkur pláss og gæfi okkur þar með meiri tíma til að vinna að framtíðarlausn.  Fyrirmyndin af slíkum skólahóp kemur frá Mosfellsbæ.

Fulltrúar Hörgárbyggðar ætla að leggja þetta fyrir sína sveitarstjórn á næsta fundi þann 28. nóvember.

 

Fleira ekkigert og fundi slitið kl. 23:55