Fundargerð - 21. janúar 2009
Miðvikudaginn 21. janúar 2009 kl. 21:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 36. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Fundargerð aukafundar sveitarstjórnar, 5. jan. 2009
Fundargerðin er í einum lið, sem varðar frágang á efnistökusvæðinu við Hörgá í landi Steðja, Skóga og Skriðu en lokafrestur á frágangi er 23. janúar 2009.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
2. Fundargerð byggingarnefndar, 18. des. 2008
Fundargerðin er í tíu liðum. Níundi liður hennar varðar Hörgárbyggð, þ.e. breytingar á Hlíðarbæ.
Fundargerðin rædd og afgreidd.
3. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 3. des. 2008
Fundargerðin er í fjórtán liðum. Í þrettánda lið hennar kemur m.a. fram að vatnsveitan í Lönguhlíð í Hörgárbyggð hefur fengið endurnýjun á starfsleyfi.
Fundargerðin rædd og afgreidd.
4. Fundargerð húsnefndar, 21. jan. 2009
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin rædd og afgreidd.
5. Þriggja ára áætlun 2010-2012, fyrri umræða
Lögð fram drög að þriggja ára áætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og fráveitu Hörgárbyggðar fyrir árin 2010-2012. Drögin gera ráð fyrir að rekstrarafgangur samstæðunnar árið 2010 verði neikvæður upp á kr. 285 þús., árið 2011 jákvæður upp á kr. 835 þús. og árið 2012 jákvæður upp á kr. 2.600 þús. og að handbært fé í lok ársins 2012 verði kr. 33 millj.
Samþykkt var að vísa framkomnum drögum til síðari umræðu.
6. Menntasmiðja kvenna, kostnaðarþátttaka
Bréf, dags. 17. desember 2008, frá Menntasmiðjunni á Akureyri, þar sem óskað er eftir framlagi vegna náms konu úr Hörgárbyggð á haustönn 2008.
Samþykkt að leggja fram umbeðið framlag þ.e. kr. 50.000.
7. Umsókn um tímabundna leikskóladvöl utan sveitarfélags
Lögð fram umsókn, ódags., um tímabundna leikskóladvöl utan sveitarfélagsins fyrir barn sem er flutt í sveitarfélagið. Erindið var samþykkt.
8. Daggæsla barns í heimahúsi
Tölvubréf, dags. 15. janúar 2009, með umsókn um niðurgreiðslu á kostnaði við daggæslu tveggja barna (tvíburar) í heimahúsi. Sveitarstjórn samþykkir að greiða niður allt að kr. 32.000 pr. mán. pr. barn til dagmóður með starfsleyfi miðað við 8 tíma dagvistun og hlutfallslega fyrir styttri dvöl til þess tíma þar til börnin fái leikskólapláss á Álfasteini.
9. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags
Lögð fram umsókn, dags. 16. janúar 2009, um námsvist fyrir nemanda í sérdeild Giljaskóla næsta skólaár. Erindið er samþykkt.
10. Afsláttur af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega
Bréf, dags. 7. janúar 2009, frá samgönguráðuneytinu um heimildir til að veita elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fasteignaskatti. Í bréfinu kemur fram að óheimilt er að veita flatan afslátt af fasteignaskatti, eins og víða hefur verið gert, þ.á.m. í Hörgárbyggð.
Lögð fram drög að nýjum reglum um afslátt af fasteignaskatti í Hörgárbyggð vegna 2009. Framkomin drög um afslátt af fasteignaskatti voru samþykkt og munu reglurnar verða birtar á heimasíðu Hörgárbyggðar.
11. Vegaskrá
Minnisblað, dags. 8. janúar 2009, frá Guðjóni Bragasyni, sviðsstjóra lögfræðisviðs Sambands ísl. sveitarfélaga, um fund sem haldinn var 8. janúar 2009 um nýja vegaskrá fyrir landið. Í samræmi við nýleg vegalög gerir vegaskráin ráð fyrir verulegu tilfærslu á ábyrgð í vegamálum frá Vegagerðinni til sveitarfélaganna.
Lagt fram til kynningar.
12. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting
Bréf, dags. 14. janúar 2009, frá skipulagsdeild Akureyrarbæjar, þar sem kynnt er tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyri 2005-2018. Breytingin gengur út að afmarka iðnaðarsvæði þar sem núverandi malbikunarstöð bæjarins er.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við framkomna tillögu.
13. Staða tónlistarskólanna í landinu
Bréf, dags. 6. janúar 2009, frá Félagi tónlistarskólakennara, þar sem hvatt er til þess að ekki verði vegið að tónlistarskólanum og því þýðingarmikla starfi sem hann stendur fyrir.
Lagt fram til kynningar.
14. Áform um sameiningu heilbrigðistofnana
Bréf, dags. 7. janúar 2009, frá heilbrigðisráðuneytinu, þar sem kynnt eru áform um sameiningu heilbrigðisstofnana í landinu. Lagt fram til kynningar.
15. Bótaréttur vegna framkvæmda í almannaþágu
Lagt fram afrit af bréfi, dags. 16. janúar 2009, til Sambands ísl. sveitarfélaga frá Bændasamtökum Íslands, þar sem gerð er grein fyrir kröfum samtakanna um hvernig staðið er að undirbúningi framkvæmda í almannaþágu.
Lagt fram til kynningar
16. Kosning skoðunarmanns
Ásbjörn Valgeirsson er fyrsti varamaður og var hann kosinn skoðunarmaður sveitarsjóðsreikninga í stað Odds Gunnarssonar.
17. Kosning í skipulags- og umhverfisnefnd
Guðmundur Víkingsson var kosinn aðalmaður í skipulags- og umhverfisnefnd í stað Odds Gunnarssonar.
Birna Jóhannesdóttir var kosin formaður nefndarinnar.
18. Fundargerð stjórnar Eyþings, 8. des. 2008
Fundargerðin er í tíu liðum.
Lögð fram til kynningar.
19. Aflið, umsókn um styrk
Bréf, dags. 20. janúar 2009, frá Aflinu, systursamtökum Stígamóta á Norðurlandi, þar sem óskað er eftir styrk til starfseminnar.
Sveitarstjórn samþykkti að veita Aflinu kr. 10.000 í styrk
20. Lífshlaupið, fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ
Bréf, dags. 16. janúar 2009, frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, þar sem óskað er eftir liðsinni við að hvetja vinnustaði, grunnskóla og einstaklinga til þátttöku í fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, sem heitir Lífshlaupið.
Lagt fram til kynningar.
21. Trúnaðarmál