Fundargerð - 20. október 2014

Mánudaginn 20. október 2014 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerð framkvæmdastjórnar byggingafulltrúaembættis 23. september 2014

Fundargerðin er í fimm liðum, um kosningu formanns og ritara, um skýrslu byggingafulltrúa 2013, um ársreikning ársins 2013, um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og um drög að samþykktum fyrir byggðasamlag um embætti skipulags- og byggingafulltrúa Eyjafjarðar.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun byggingarfulltrúaembættisins og að áfram verði unnið að því að setja á fót embætti skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp á grundvelli fyrirliggjandi draga að samþykktum byggðasamlags um slíkt embætti. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fundargerð byggingarnefndar 7. október 2014

Fundargerðin er í sex liðum, fjórir þeirra varða Hörgársveit, þ.e. lóð nr. 9 við D-götu á Steðja, lóð nr. 9 við E-götu á Steðja, lóð úr Þrastarhóli og Búðagötu 13a á Hjalteyri.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Gjaldskrár fyrir árið 2015

Rætt um gjaldskrár sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2015.

Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir umsögn viðkomandi nefnda á gjaldskrám þeirra stofnana sem undir þær heyra og að gjaldskrárnar fylgi afgreiðslu á fjárhagsáætlun ársins 2015.

 

4. Fjárhagsáætlun fyrir árin 2015-2018, fyrri umræða

Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun ársins 2015 og rætt um fjárhagsáætlun fyrir árin 2016-2018. Tillagan gerir fyrir ráð fyrir að á árinu 2015 verði rekstrarafgangur kr. 27,4 og að veltufé frá rekstri á árinu verði 54,7 millj. kr.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun áranna 2016-2018 til síðari umræðu.

 

5. Heimavistarálma Þelamerkurskóla, ráðstöfun

Lagður fram tölvupóstur, dags. 14. okóber 2014, frá Bjálkanum og flísinni ehf., þar sem lýst yfir áhuga á samstarfi um breytta nýtingu á heimavistarálmu Þelamerkurskóla, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. september 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að fela oddvita og varaoddvita að ræða við bréfritara um erindið.

 

6. Laugaland, breyting á eignarhald

Rætt um atriði sem tengjast breyttu eignarhaldi á jörðinni Laugalandi, sbr. fundargerð fundar sveitarstjórnar 16. apríl 2014. Helstu atriðin eru lóðarmál bygginganna á Laugalandi og gjaldtaka hitaveituvatns fyrir þær.

Sveitarstjórn samþykkti að viðræður eigi sér stað við Norðurorku hf. um þau atriði sem tengjast breyttu eignarhaldi á Laugalandi. Til að annast þær viðræður af hálfu Hörgársveitar tilnefndi sveitarstjórnin oddvita og sveitarstjóra.

 

7. Ós, sala landspildu

Fram kom að seldar hafa verið tvær af þremur landspildum úr landi Óss og rætt var um hugsanlega sölu eða aðra ráðstöfun á þeirri landspildu sem óseld er.

Sveitarstjórn samþykkti að sú landspilda úr land i Óss, sem er óseld, verði auglýst til sölu.

 

8. Íslandsbanki, yfirdráttarheimild

Fram kom að handbært fé sveitarsjóðs er lítið, þannig að ekki sé hjá því komist að leita eftir tímabundinni heimild til yfirdráttar á veltureikningi þess.

Sveitarstjórn samþykkti að óskað verði eftir heimild til yfirdráttar á veltureikningi sveitarsjóðs að fjárhæð kr. 15 millj. kr. sem gildi til 15. apríl 2015.

 

9. Rjúpnaholt, nafnbreyting

Lagt fram bréf, ódags., frá Hermanni Óskarssyni um nafnbreytingu á frístundahúsinu Rjúpnaholti á Þelamörk. Í bréfinu er gert ráð fyrir að húsið fái nafnið Múmíndalur.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði gerð athugasemd af hálfu sveitarfélagsins við að heiti húseignarinnar Rjúpnaholt verði breytt í Múmíndalur.

 

10. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, auglýsing tillögu

Lagt fram bréf, dags. 16. okóber 2014, frá Brynjólfi Snorrasyni um flutningsleiðir raforku í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Einnig lagði Ásrún Árnadóttir fram tillögu að breyttum kafla nr. 3.4.8. um rafveitu í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa til skipulags- og umhverfisnefndar bréfi Brynjólfs Snorrasonar um flutningsleiðir raforku í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins og framkominni tillögu um breyttan kafla um rafveitu í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulaginu. Einnig var samþykkt að að svara fyrirspurn Brynjólfs um hvenær erindi Þorsteins Rútssonar, f.h. landeigenda á línuleið Blöndulínu 3, sem lagt var fram á síðasta fundi sveitarstjórnar verði tekin fyrir, með hætti að það hafi verið tekið fyrir á síðasta fundi og að það verði áfram til meðferðar. Þá var samþykkt að vísa bréfi landeigenda til skipulags- og umhverfisnefndar.

 

11. Menningarfélagið Hof ses., aðalfundarboð

Lagt fram bréf, dags. 1. október 2014, frá Menningarfélaginu Hofi ses. þar sem boðað er til aðalfundar félagsins þann 23. október 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Axel Grettisson fari með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Menningarfélagsins Hofs ses. 23. október 2014.

 

12. Norðurorka hf., hluthafafundarboð

Lagt fram til kynningar fundarboð hluthafafundar Norðurorku hf. Hluthafafundurinn verður 20. október 2014.

 

13. Félag tónlistarskólakennara, ályktanir um launasetningu

Lagðar fram til kynningar tvær ályktanir, dags. 9. okóber 2014, frá Félagi tónlistarskólakennara um launasetningu tónlistarskólakennara.

 

14. Flokkun Eyjafjörður ehf., skipan í starfshóp

Lagt fram tölvubréf, dags. 20. október 2014, frá Flokkun Eyjafjörður ehf. þar sem óskað eftir að skipaður verði fulltrúi sveitarfélagsins í starfshóp um starfsemi Flokkunar, sbr. samþykkt aðalfundar félagsins 6. október 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna Guðmund Sigvaldason sem fulltrúa sveitarfélagsins í starfshóp um starfsemi Flokkunar Eyjafjörður ehf.

 

15.        Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:05.