Fundargerð - 20. nóvember 2003
Fimmtudaginn 20. nóvember 2003 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson.
Eftirfarandi bókað á fundinum:
1. Fundargerð síðasta fundar undirrituð.
2. Almennar umræður um framkvæmd fjallskila í haust, er ekki vitað annað en göngur hafi gengið þokkalega, þrátt fyrir mjög rysjótt veðurfar.
3. Stefán greindi frá, að Eiríkur á Sílastöðum óskaði eftir því í haust, að frá að borga sig frá sínu gangnadagsverki og var það samþykkt, því þarf sveitarsjóður að innheimta hjá honum kr. 9.000 og borga þeim sem gekk þetta dagsverk.
4. Aðalsteinn upplýsti að gangnadagsverkið sem lagt var á landeigendur Krossastaða og ½ Vaskárdals hafi ekki skilað sér. Hann sagðist hafa rætt við einn landeigandann og sá hafi tjáð sér að þeir ætluðu hvorki að senda mann í göngur eða greiða dagsverkið. Fjallskilanefnd leggur því til við sveitarstjórn, að þetta gangnadagsverk verði innheimt, samkvæmt a.m., 20 gr. fjallskilasamþykktar.
5. Fjallskilanefnd vill vekja athygli sveitarstjórnar á því að fyrstu göngur á Sörlatungudölum sem vera áttu 13. september voru ekki gengnar fyrr en 28. september. Ekki var haft samband við fjallskilanefndina út af þessari breytingu, þannig að henni er ekki kunnugt um rök fyrir henni. Nefndin telur ótækt að göngum sé breytt án nokkurs samráðs við hana nema fyrir því liggi gild rök, svo sem óveður eða aðrar óviðráðanlegar ytri aðstæður. Fjallskilanefnd leggur til að sveitarstjórn kynni sér þetta mál og taki til efnislegrar afgreiðslu.
6. Rætt var um þann fjárfjölda sem kom fyrir í Hörgárbyggð í haust úr Akrahreppi og Eyjafjarðarsveit. Úr Akrahreppi komu um 390 kindur í Öxnadal, þar af um 350 kindur í 1. réttum og í Hörgárdal 88 kindur, þar af 71 í 1. réttum. Úr Eyafjarðarsveit komu 15 kindur til rétta í Hörgárbyggð. Í þessum sveitum komu fyrir 2 kindur úr Hörgárbyggð. báðar í Silfrastaðarétt í 1. réttum, var það gemlingur með lamb frá Staðarbakka.
7. Stefán greindi frá tilhögun gangnaskila í haust milli Hörgárbyggðar og Akureyrar (samanber 3. lið 6. fundar 2003). Skipt var um Skíðahótelið, Hörgárbyggð smalaði frá skíðalyftunum og norður, en Akureyri neðan hótels og suður.