Fundargerð - 20. mars 2002

Miðvikudagskvöldið 20. mars 2002 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar að Melum Hörgárdal kl. 20:30. Mættir voru Oddur Gunnarsson, Ármann Búason, Helgi Steinsson, Klængur Stefánsson, Sturla Eiðsson, Aðalheiður Eiríksdóttir og Jóna Antonsdóttir. Enginn áheyrnarfulltrúi mætti.

 

Dagskrá:

1.   Fundargerð sveitarstjórnar frá 20.02.2002, framkvæmdanefndar og Heilbrigðiseftirlits

2.   Samþykkt um umgengni og þrifnað

3.   Endurbætur á félagsheimilinu Melum og samningur við meðeigendur

4.   Kjarnorkulaust sveitarfélag

5.   Alnæmissamtökin / styrkur

6.   Skólaakstur

7.   Lagafrumvarp um landbrot

8.   Önnur mál

 

  1. Fundargerð sveitarstjórnar frá 20.02.2002. Fundargerðin samþykkt. Fundargerð framkvæmdanefndar frá 13.03.2002 var kynnt. Í lið eitt er tekið fyrir bréf frá Minjasafni um aðalfund og skipun fulltrúa Hörgárbyggðar á aðalfund. Sveitarstjórn tilnefndi Odd Gunnarsson og Jónu Antonsdóttur. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 18.02.2002 var kynnt.

 

  2. Kynnt drög að samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Sveitarstjórn telur rétt að nefna líka baggaplast í 2. gr. Ekki aðrar athugasemdir.

 

   3. Oddviti kynnti stöðu mála varðandi endurbætur á félagsheimilinu Melum. Sveitarstjórn samþykkti að nýjar teikningar af félagsheimilinu Melum verði lagðar fyrir næsta bygginganefndarfund.

 

   4. Bréf frá samtökum herstöðvaandstæðinga. Erindi: Yfirlýsing kjarnorkulaust sveitarfélag. Sveitarstjórn samþykkir að taka ekki þátt í nefndu afvopnunarátaki.

 

  5.  Oddviti kynnti bréf frá Alnæmissamtökunum á Íslandi um fjárstyrk til starfsemi samtakanna. Sveitarstjórn samþykkir að styrkja Alnæmissamtökin um 10.000 kr.

 

  6a. Bréf frá Sigfríði Angantýsdóttur skólastjóra um akstur skólabarna. Sveitarstjórn hefur ákveðið að akstur sé ekki í hádegi á næsta skólaári. Akstursleiðir verði þær sömu. Reynt verði að sjá til þess að öryggisbelti verði í öllum skólabílum sem aka með börn í Þelamerkurskóla.

  6b. Sveitarstjórn tók fyrir bréf frá skólabílstjórum við Þelamerkurskóla. Skólabílstjórar óska eftir viðræðum við sveitarstjórn um framlengingu samnings til eins árs, eða ótímabundið með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Sveitarstjórn er hlynnt að samið verði við sömu bílstjóra til eins árs á sama grunni og verið hefur.

 

  7. Oddviti kynnti lagafrumvarp um landbrot. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við frumvarpið og telur það til bóta.

 

 

Fleira ekki bókað, fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 23:45.

 

Fundarritarar Helgi B. Steinsson og Ármann Þ. Búason