Fundargerð - 20. febrúar 2013

Miðvikudaginn 20. febrúar 2013 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2012-2024, afgreiðsla

Lagt fram bréf, dags. 23. janúar 2013, frá svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar, þar sem gerð er grein fyrir því að tillaga að „Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024“ sé send sveitarfélaginu til samþykktar. Með bréfinu var formleg tillaga að svæðisskipulaginu lögð fram, ásamt umhverfisskýrslu þess og helstu forsendum. Tillagan hefur fengið afgreiðslu hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sjá 4. lið þessarar fundargerðar.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að fyrirliggjandi tillaga að „Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024“ verði samþykkt af hálfu Hörgársveitar.

 

2. Skútar/Moldhaugar, tillaga að deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og spildu úr landi Moldhauga, sem var auglýst 20. desember 2012 skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 6. nóvember 2012 og ákvörðun sveitarstjórnar 21. nóvember 2012. Athugasemdafrestur rann út 25. janúar 2013. Athugasemdir/ ábendingar bárust frá Sigríði Þ. Mahon o.fl., Jóni Björgvinssyni og Þórði Þórðarsyni.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Skúta og spildu úr landi Moldhauga, að gerðum eftirfarandi breytingum á henni:

  · Fornleifunum Skútnastekkur og Skútnasel verði bætt í greinargerð og á uppdrátt.

 · Vegur að Skútum liggi þar sem gamli þjóðvegurinn er, í stað þeirra legu sem tillagan gerir ráð fyrir

 · Nýr vegur að fjárrétt verði færður nær austurmörkum lóðar fyrir réttina

 · Lóð fjárréttar verði stækkuð, þannig að lóðarmörk verði alls staðar a.m.k. 20 m frá núverandi réttarvegg og að lóðin nái lengra til suðurs en tillagan gerir ráð fyrir.

Ennfremur samþykkti sveitarstjórn tillögur skipulags- og umhverfisnefndar að afgreiðslu á framkomnum formlegum athugasemdum/ábendingum við deiliskipulagstillöguna, með þeirri viðbót að tilgreindar ábendingar um frágang og mótvægisaðgerðir verði teknar til athugunar við útgáfu viðkomandi framkvæmdaleyfa.

 

3. Hörgá á móts við Skriðu, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lögð fram umsókn frá Húsabrekku ehf. um framkvæmdaleyfi til að taka 10 til 12 þúsund m3 af möl úr áreyrum Hörgár á móts við Skriðu. Þá var lagt fram bréf Fiskistofu um málið, þar sem fram kemur að stofnunin getur fyrir sitt leyti fallist á að leyfið verði gefið út. Í bréfi Fiskistofu kemur fram umsögn veiðifélagsins til málsins, sem er jákvæð. Þá var lögð fram umsögn Veiðimálastofnunar um málið, þar sem koma fram ábendingar um hvernig staðið verði að efnistökunni, verði hún heimiluð.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr áreyrum Hörgár sbr. fyrirliggjandi umsókn Húsabrekku ehf., með þeim skilmálum sem koma fram í umsögn Veiðimálastofnunar um umsóknina. Framkvæmdaleyfið skal gefið út á nafn sameignarfélags um efnistöku úr Hörgá, sem verið að stofna, og að meðal skilyrða þess verði að efnið verði haugsett og magntekið áður en það verður flutt af staðnum. Framkvæmdaleyfisgjald kr. 49.000 greiðist, auk þess að magntaka greiðist skv. reikningi.

 

4. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 18. febrúar 2013

Fundargerðin er í fjórum liðum. Þrír þeirra, um svæðisskipulag Eyjafjarðar, deiliskipulag á Skútum/Moldhaugum og umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr Hörgá, voru til afgreiðslu í dagskrárliðunum hér að framan. Í fjórða lið fundargerðarinnar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um stöðvun þeirrar efnistöku í sveitarfélaginu sem ekki hefur framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að viðkomandi aðilum verði gerð grein fyrir því að eftir 1. júní 2013 verði efnistaka án framkvæmdaleyfis í sveitarfélaginu stöðvuð. Að öðru leyti gefur fundargerð ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Stofnun sameignarfélags um efnistöku í Hörgá

Lagt fram fundarboð stofnfundar sameignarfélags um efnistöku í Hörgá, sbr. fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 27. mars 2012 og fundargerð sveitarstjórnar 16. maí 2012. Eftirtaldar jarðir í eigu Hörgársveitar liggja að Hörgá: Ós, Bessahlaðir og Bakkasel. Boðað var til stofnfundarins 13. febrúar 2013 og fram kom á fundinum að honum verður framhaldið 6. mars 2013. Þangað til gefst kostur á að gerast aðili að félaginu.

Sveitarstjórn samþykkti að eiga ekki aðild að sameignarfélagi því um efnistöku úr Hörgá, sem verið er að stofna.

 

6. Minkaveiði

Tekið fyrir að nýju bréf, dags. 29. október 2012, frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) um fyrirkomulag minkaveiða í héraðinu. Á fundi sveitarstjórnar 21. nóvember 2012 var frestað afgreiðslu á tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um málið.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 6. nóvember 2012 um að sveitarfélagið haf umsjón með höndum með minkaveiðum í sveitarfélaginu.

 

7. Búfjáreftirlit

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 7. febrúar 2013, frá búfjáreftirlitsnefnd á svæði 18, þar sem gerð er grein fyrir því að sveitarfélagið muni bera kostnað af búfjáreftirliti á árinu 2013, eins og undanfarin ár, en ekki hefur tekið gildi fyrirhuguð breyting á því, sbr. fundargerð nefndarinnar 20. nóvember 2012, sjá fundargerð sveitarstjórnar 19. desember 2012.

 

8. Siðareglur fulltrúa í sveitarstjórn og fastanefndum, síðari umræða

Fram fór síðari umræða um tillögu að siðareglum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og fastanefndum, sbr. 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að siðareglum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og fastanefndum.

 

9. Hjalteyri ehf., aðalfundarboð

Lagt fram fundarboð aðalfundar Hjalteyrar ehf. Aðalfundurinn verður haldinn 5. mars 2013. Í fundarboðinu kemur m.a. fram að á fundinum verður lögð fram tillaga um hækkun hlutafjár í félaginu.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með atkvæði Hörgársveitar á aðalfundi Hjalteyrar ehf. þann 5. mars 2013.

 

10. Stokkur Software ehf., farsíma-forrit

Lagt fram tölvubréf, dags. 7. janúar 2013, frá Stokki Software ehf. þar sem gerð er grein fyrir farsímaforritinu „Be Iceland“. Það gerir ferðamönnum kleift að kynna sér sögu og menning svæðis, leita sér að gistingu og mat o.fl. Í tölvubréfinu er sveitarfélaginu boðin aðild að forritinu.

Sveitarstjórn samþykkti að sveitarfélagið eigi ekki aðild að farsímaforritinu „Be Iceland“ .

 

11. Forvarnabókin, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 8. febrúar 2013, frá „Fræðslu og forvörnum“ þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð 25.000 kr. til útgáfu á upplýsingariti fyrir foreldra o.fl. um forvarnir gegn vímuefnum.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.

 

12. Aflið, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 20. nóvember 2012, frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi, þar sem óskað er eftir styrk til að reka þjónustu samtakanna.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Aflinu styrk að fjárhæð kr. 50.000.

 

13. Þrastarhóll, landskipti

Lagt fram bréf, dags. 25. janúar 2013, frá Vilborgu Pedersen, þar sem óskað eftir umsögn/samþykki sveitarstjórnarinnar fyrir fyrirhuguðum landskiptum úr jörðinni Þrastarhóli og Þrastarhóli 1, sem ganga út á að 1.908 m2 verði teknir undan fyrrnefndu jörðinni og 1.066 m2 undan síðarnefndu jörðinni.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrir sitt leyti þau landskipti á Þrastarhóli og Þrastarhóli 1 sem lýst er í framlögðum gögnum.

Axel Grettisson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

 

14. Dagverðareyri, landskipti

Lagt fram bréf, dags. 19. febrúar 2013, frá Dagverðareyri ehf. þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar um fyrirhuguð landskipti á jörðinni Dagverðareyri, sem ganga út á að 11,85 ha landspilda verði tekin undan jörðinni.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrir sitt leyti þau landskipti á Dagverðareyri sem lýst er í framlögðum gögnum.

 

15. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:20