Fundargerð - 20. apríl 2016
Sveitarstjórn Hörgársveitar
68. fundur
Fundargerð
Miðvikudaginn 20. apríl 2016 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir, Jón Þór Benediktsson og Ásrún Árnadóttir.
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Ársreikningur Hörgársveitar 2015, fyrri umræða
Lagður fram ársreikningur fyrir árið 2015. Samkvæmt ársreikningnum urðu rekstrartekjur alls 518,4 millj. kr. og rekstrargjöld 489,6 millj. kr. á árinu 2015. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 8,1 millj. kr. Heildarrekstrarniðurstaða á árinu varð því jákvæð upp á 20,7 millj. kr.
Eigið fé í árslok er 505,9 millj. kr. Veltufé frá rekstri á árinu var 53,4 millj. kr.
Nettó fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum var 20 millj. kr. og skuldir og skuldbindingar lækkuðu um kr. 19,3 millj á árinu og eru skuldir í árslok 35,7% af tekjum. Handbært fé í árslok var 10,9 millj. kr.
Aðalheiður Eiríksdóttir og Rúnar Bjarnason frá PriceWaterhouseCoopers komu á fundinn, fóru yfir ársreikninginn og svöruðu fyrirspurnum um hann.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi Hörgársveitar fyrir árið 2015 til síðari umræðu.
2. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar frá 11. fundi, 7. apríl 2016
Í fundargerðinni kemur fram að jafnréttisáætlun Hörgársveitar 2014-2018 hafi verið yfirfarin að nýju í kjölfar athugasemda Jafnréttisstofu og gerðar á henni breytingar.
Sveitarstjórn samþykkti jafnréttisáætlun Hörgársveitar 2014-2018 með áorðnum breytingum.
3. Fundargerð atvinnu- og menningarmálanefndar frá 6. fundi, 18. apríl 2016
Fundargerðin er í fimm liðum og þarfnast einn liður afgreiðslu sveitarstjórnar:
a) Í 2.lið, endurbætur á íþróttamiðstöð 2016
Sveitarstjórn samþykkti að í viðauka við fjárhagsáætlun eignasjóðs 2016 verði gert ráð fyrir 9,5 milljónum til viðhalds og endurbóta á íþróttamiðstöð í samræmi við framlagða áætlun og framkvæmdin fari fram í maí og byrjun júní n.k. og er áætlað að íþróttamiðstöðinni verði lokað í tvær til þrjár vikur á þeim tíma.
4. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, fundarg. frá 9. mars og 6. apríl 2016.
Fundargerðirnar lagðar fram ásamt fylgigögnum svo sem ársreikningi HNE 2015.
Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
5. Fundargerð Eyþings frá 9. mars 2016
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
6. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi hugsanlegar breytingar á heilbrigðiseftirliti.
Lagt fram erindi frá sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem kynntar eru hugsamlegar breytingar á skipulagi og framkvæmd heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
Sveitarstjórn leggur áherslu á að við hugsanlegar breytingar á heilbrigðiseftirliti verði þess gætt að nærþjónusta heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga verði tryggð og þau verði áfram sjálfstæðar stjórnsýslustofnanir heima í héraði með skýr verkefni og afdráttarlausar heimildir.
7. Efnistaka úr Hörgá
Lögð fram drög að leiðbeiningum um veitingu framkvæmdaleyfa fyrir efnistöku úr Hörgá og þverám hennar og drög að breytingum á gjaldskrá fyrir framkvæmdaleyfisgjald og gjald fyrir skipulagsvinnu í Hörgársveit.
Þá voru lögð fram drög að afsali vegna kaupa sveitarfélagsins á umhverfismati og matsáætlun um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar staðfestu af Skipulagsstofnun 4. júní 2015. Með í kaupunum eru öll gögn, upplýsingar, fundargerðir og annað, hverju nafni sem nefnist og tengist undirbúningi og vinnslu og afgreiðslu hins afsalaða.
Sveitarstjórn samþykkti kaupin og felur sveitarstjóra að undirrita afsalið fyrir hönd sveitarfélagsins. Einnig samþykkti sveitarstjórn leiðbeiningar um veitingu framkvæmdaleyfa fyrir efnistöku úr Hörgá og þverám hennar. Þá samþykkti sveitarstjórn gjaldskrá fyrir framkvæmdaleyfisgjald og gjald fyrir skipulagsvinnu í Hörgársveit og felur sveitarstjóra að auglýsa gildistöku hennar í B-deild stjórnartíðinda.
8. Fráveita Lónsbakka
Skýrt var frá viðræðum sem hafa átt sér stað við Norðurorku um hugsanlega samvinnu eða yfirtöku Norðurorku vegna fráveitu Lónsbakka.
Sveitarstjórn samþykkti að fara í frekari greiningarvinnu í samræmi við umræður á fundinum. Kostnaður yrði greiddur að jöfnu af Hörgársveit og Norðurorku.
9. Erindi varðandi brennsluofn sláturhús B. Jensen.
Lagt fram erindi frá Skipulagsstofnun vegna tilkynningar um uppsetningu á búnaði til brennslu úrgangs við sláturhús B. Jensen. Upplýst var að von er á frekari gögnum um málið og afgreiðslu því frestað.
10. Umsókn um skiptingu landspildu, Hólum í fjórar lóðir
Lagt fram erindi dags. 17. mars 2016 þar sem óskað er eftir heimild til að skipta landspildu að Hólum númer 211349 í fjórar lóðir. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Sveitarstjórn samþykkti að veita heimild til að stofna umbeðnar fjórar lóðir fyrir frístundahús úr landspildu að Hólum númer 211349 skv. framlögðum gögnum.
11. Breyting á nafni lands
Lagt fram erindi dags. 4. apríl 2016 þar sem óskað er eftir heimild til að breyta nafni lands nr. 222-642 (Neðri-Rauðilækur land) í Stekkjarhóll.
Sveitarstjórn samþykkti að heimila breytinguna.
12. Umsókn um landskipti og samþykki fyrir lóð undir íbúðarhús
Lögð fram umsókn þar sem óskað er eftir landskiptum úr landi Hraukbæjarkots og að breyta áður samþykktri lóð fyrir frístundahús í lóð fyrir íbúðarhús.
Sveitarstjórn samþykkti landskiptin fyrir sitt leiti og að lóðinni verði breytt í íbúðarhúsalóð sem fái nafnið Hraukbæjarkot 2.
13. Uppsögn á starfi skipulagsfulltrúa
Lagt fram bréf dags. 31. mars 2016 þar sem Ómar Ívarsson segir upp starfi sem skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins með þriggja mánaða fyrirvara.
14. Viðauki 01 við fjárhagsáætlun 2016
Lögð fram tillaga að viðauka 01 við fjárhagsáætlun 2016.
Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2016, sem hefur auðkennið 01/2016, og gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 16.254 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 12.419 þús. kr.
15. Trúnaðarmál
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:35