Fundargerð - 20. ágúst 2008
Mætt voru: Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson,
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Fundargerðir fjallskilanefndar, 13. og 22. júní 2008
Fundargerðin frá 13. júní er í fimm liðum og fundargerðin frá 22. júní er í einum lið.
Fundargerðirnar ræddar og afgreiddar.
2. Fundargerð húsnefndar félagsheimilanna, 6. júlí 2008
Fundargerðin er í einum lið. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
3. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 11. júní 2008
Fundargerðin er í ellefu liðum. Í 10. lið hennar kemur fram að endurnýjað hefur verið starfsleyfi fyrir einkavatnsveituna á Neðri-Vindheimum. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
4. Skólaakstur 2008-2010, Gásir-Dagverðareyri-Eyrarvík
Nemendum á leiðinni Gásir-Dagverðareyri-Eyrarvík hefur fjölgað frá því að fyrirkomulag á skólaakstri á leiðinni var rædd á fundi sveitarstjórnar 14. maí 2008. Samið hefur verið við Kristjönu Erlingsdóttur á Gásum um að annast skólaaksturinn.
5. Álfasteinn, starfsmannahald
Lagt fram minnisblað um þörf á hækkun á heimiluðum stöðugildum á Álfasteini vegna fjölgunar barna, ásamt greinargerð frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um starfsmannamál leikskóla í júlí 2008, vegna nýrra laga um leikskóla o.fl. sem tóku gildi 1. júlí 2008. Einnig var lögð fram greinargerð um hlutfall stjórnunar í starfi leikskólastjóra, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 12. júní 2008. Samþykkt að hækka hlutfall stjórnunar í starfi leikskólastjóra í 70% frá 1. september 2008. Einnig er ákveðið að heildarstarfshlutfall í leikskólanum verði 7,625 frá sama tíma.
6. Álfasteinn, utanhúsklæðning
Lagt fram tölvubréf, dags. 13. júní 2008, frá Ólafi R. Ólafssyni, hdl., um hugsanlegan bótarétt vegna skemmda á utanhúsklæðningu nýbyggingar Álfasteins. Þetta mál var áður á dagskrá sveitarstjórnar 15. ágúst 2007 og 21. nóv. 2007, þegar fyrir lá greinargerð hönnuðar hússins um málið.
Sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.
7. Lánasjóður sveitarfélaga, lántaka
Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna endurbóta sundlaugar var samþykkt á fundum sveitarstjórnar 20. febr. (4. liður) og 12. júní 2008 (2. liður). Lögð fram drög að lánssamningi vegna lántökunnar.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 55.000.000 til 10 ára, í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Lánið er tekið til að standa straum af kostnaði við hlut Hörgárbyggðar í endurbótum á sundlaug við Þelamerkurskóla, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er sveitarstjóra, Guðmundi Sigvaldasyni kt. 140454-4869, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hörgárbyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita, og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.
8. Hallfríðarstaðakot, sumarhús
Bréf, dags. 19. júní 2008, frá Kristjáni Hermannssyni, ásamt bréfi frá Vegagerðinni og Skipulagsstofnun vegna sama máls, þar sem óskað er eftir leyfi til að reisa sumarhús á jörðinni Hallfríðarstaðakoti.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir erindið fyrir sitt leyti.
9. Skógarhlíð 12, byggingarframkvæmdir
Lagt fram minnisblað um óviðunnandi stöðu á byggingarframkvæmdum í Skógarhlíð 12. Mál þetta var áður á dagskrá sveitarstjórnarfundar 20. júní 2007 (20. mál).
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn samþykkir að beitt verði ákvæði 3. töluliðar 14. gr. byggingarreglugerðar, sbr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um þvingunarúrræði, vegna óviðunandi stöðu á byggingarframkvæmdum í Skógarhlíð 12, og felur byggingarnefnd að gera tillögu að dagsektum og/eða öðrum ráðstöfunum til að knýja á um að útlit byggingarinnar og frágangur verði viðunandi hið fyrsta.
10. Hringvegur, breikkun vegar á Þelamörk, mat á umhverfisáhrifum
Bréf, dags. 30. júlí 2008, frá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er eftir umsögn um skyldu til mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við fyrirhugaða breikkun Hringvegar frá Krossastöðum suður fyrir Bægisá. Sveitarstjórn, fyrir sitt leyti, telur að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar.
11. Eingreiðsla til starfsmanna
Bréf Einingar-Iðju, dags. 7. júlí 2008, um eingreiðslu til starfsmanna.
Erindinu hafnað.
12. Meðhöndlun óendurvinnanlegs úrgangs
Bréf, dags. 24. júlí 2008, frá Flokkun Eyjafjörður ehf., þar sem óskað er eftir fundi um framtíðarlausnir varðandi meðhöndlun óendurvinnanlegs úrgangs og hugmyndir um staðsetningu urðunarstaðar fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Sveitarstjóra og oddvita falið að hitta viðkomandi aðila.
13. Lónsbakki, snjómokstur
Í ljósi reynslu síðasta vetrar var samþykkt að endurnýja samning um snjómokstur við sömu aðila á grunni síðasta samning, veturinn 2008-2009.
14. Bakkasel, háspennulína
Bréf, dags. 9. júlí 2008, frá Landsneti hf., þar sem Hörgárbyggð, sem eiganda Bakkasels, er gerð grein fyrir fyrirætlunum um lagningu 220 kV háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Áætlað er að hún muni liggja um land Bakkasels. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við lagningu línunnar um land Bakkasels.
15. Birkihlíð 1, styrkbeiðni vegna lóðarfrágangs
Bréf, dags. 6. ágúst 2008, frá Birni Jóhannessyni, þar sem óskað er eftir styrk til frágangs lóðarinnar í Birkihlið 1. Bréfritari telur að hæðarkvóti götu við lóðina hafi breyst frá því sem fyrirhugað var skv. upphaflegri hönnun. Erindi bréfritara er hafnað.
16. Þjóðlendumál, vettvangsferð
Tölvubréf, dags. 6. ágúst 2008, frá Ólafi Björnssyni, hrl., um skipulag vettvangsferða Óbyggðanefndar um svæði 7. Tölvubréfinu fylgir tillaga nefndarinnar um vettvangsferðirnar. Stungið er upp á að tilnefndir verði 5 staðkunnugir menn úr sveitarfélaginu til að taka þátt í ferðinni. Áætlað er að þann 31. ágúst nk. verði farið um Hörgárbyggð. Ákveðið var að tilnefna eftirtalda menn: Gunnar Gunnarsson Bitru, Sverrir Brynjar Sverrisson Vindheimum, Helgi Steinsson Bægisá, Helgi Þór Helgason Bakka, Þorsteinn Rútsson Þverá og Guðmundur Víkingsson Garðshorni.
17. Hraun í Öxnadal ehf., verkefni 2008
Lagður fram listi yfir verkefni menningarfélagsins Hraun í Öxnadal ehf. á árinu 2008, dags. 25. jan. 2008. Gerðar hafa verið áætlanir um áningarstað við Hringveginn á móts við Hraun, sem væri mun veigameiri en sá sem þar er núna. Í tengslum við það hefur komið fram sú hugmynd að þar yrði Hlið Eyjafjarðar skilgreint, með stuðningi allra sveitarfélaga í héraðinu. Ákveðið var að Hörgárbyggð beiti sér í málinu á vettvangi Héraðsnefndar.
18. Skriða, skipting landspildu
Lagður fram uppdráttur, sem sýnir fyrirhugaða skiptingu á landspildu úr landi Skriðu í þrjár lóðir, sbr. umsókn um leyfi fyrir frístundahúsi á einni lóðinni, sem afgreidd var á fundi sveitarstjórnar 21. nóv. 2007. Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti umrædda skiptingu á nefndri landspildu.
19. Finna.is, skráning
Lagðar fram upplýsingar um Hörgárbyggð, sem eru á heimasíðunni www.finna.is. Farið er fram á Hörgárbyggð kaupi skráninguna, sem kostar kr. 37.226 (m.vsk.) á ári.
Erindinu er hafnað.
20. Byr sparisjóður, fundarboð
Lagt fram fundarboð, dags. 12. ágúst 2008, frá Byr sparisjóði. Þar er boðað til stofnfjáreigendafundar 27. ágúst 2008. Á þeim fundi verður tekin afstaða til þess að breyta Byr sparisjóði í hlutafélag.
21. Allsherjarþing Evrópusamtaka sveitarfélaga 2009
Bréf, dags. 11. ágúst 2008, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem gerð er grein fyrir allsherjarþingi Evrópusamtaka sveitarfélaga 2009, sem verður haldið í Málmey í Svíþjóð 22.-24. apríl 2009.
Lagt fram til kynningar.
22. Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda, styrkbeiðni
Bréf, ódags., frá Vitanum-verkefnastofu, þar sem óskað er eftir styrk til að halda nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Samþykkt að veita styrk kr. 10.000.
23. Ævintýraklúbburinn, styrkbeiðni
Bréf, dags. 12. ágúst 2008, frá Ævintýraklúbbnum, sem er afþreyingarklúbbur fyrir fjölfatlað, þroskahefta og einhverfa, þar sem óskað er eftir fjárframlagi.
Erindinu hafnað.
24. Fundargerðir framkvæmdastjórnar byggingafulltrúaembættis,
11. og 19. júní 2008.
Fundargerðin frá 11. júní er í þremur liðum og fundargerðin frá19. júní er í tveimur liðum.
Lagðar fram til kynningar
25. Fundargerð héraðsnefndar, 9. júní 2008
Fundargerðin er í tólf liðum.
Lögð fram til kynningar.
26. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 22. maí og 9. júlí 2008
Fundargerðin frá 22. maí er í níu liðum og fundargerðin frá 9. júlí er í tíu liðum.
Lagðar fram til kynningar
27. Framfari, styrkbeiðni
Bréf, dags. 18. ágúst 2008, frá hestamannafélaginu Framfara, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi. Erindið var rætt. Ákveðið var að styrkja bæjarkeppni Framfara á þessu ári um kr. 50.000.
28. Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, aðild Grímseyjarhrepps
Bréf, dags. 22. febrúar 2008, frá oddvita Grímseyjarhrepps, þar sem óskað er eftir aðild hreppsins að Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar. Sveitarstjórn Hörgárbyggð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.
29. Samþykkt var að greiða ráðstefnugjald og gistinu fyrir sveitarstjóra á Þriðju norrænu ráðstefnuna um sjálfbæra þróun sem haldin er í Óðinsvéum á Fjóni dagana 15. 17. september 2008.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 22:35.