Fundargerð - 19. nóvember 2008
Miðvikudaginn 19. nóvember 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 32. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 6. nóv. 2008
Fundargerðin er í fjórum liðum. Í henni er m.a. afgreidd endurskoðuð fjárhagsáætlun Íþróttamiðstöðvarinnar fyrir árið 2008.
Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
2. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 10. nóv. 2008
Fundargerðin er í þremur liðum. Í henni er m.a. afgreidd endurskoðuð fjárhagsáætlun skólans fyrir árið 2008.
Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
3. Fjárhagsáætlun 2008, endurskoðun
Lögð fram drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun Hörgárbyggðar fyrir árið 2008.
Þar er gert ráð fyrir að á árinu 2008 verði halli á rekstri aðalsjóðs upp á 2.083 þús. kr., afgangur af rekstri eignasjóðs verði 7.762 þús. kr. og afgangur af rekstri fráveitu verði 90 þús. kr. og samtals verði því afgangur af rekstri samstæðunnar sem nemur 5.769 þús. kr. Lækkun handbært fjár á árinu er áætluð 47,6 millj. kr. og að í árslok verði það 8,9 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög eins og þau voru lögð fram.
4. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 5. nóv. 2008
Fundargerðin er í tíu liðum. Þar kemur m.a. fram að vatnsveiturnar á Öxnhóli og Steinsstöðum II hafa fengið endurnýjun á starfsleyfi.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
5. Flokkun Eyjafjörður ehf., hlutafjárloforð
Bréf dags. 20. okt. 2008, frá stjórn Flokkunar Eyjafjörður ehf. um hlutafjárloforð Flokkunar Eyjafjörður ehf. vegna Moltu ehf.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að auka hlutafé sitt í Flokkun Eyjafjörður ehf. um allt að kr. 930.000 til að gera félaginu kleift að hækka hlutafé sitt í Moltu ehf. vegna byggingar jarðagerðarstöðvar. Samþykktin er háð því skilyrði að stjórn Moltu leggi áfram áherslu á að fá aðila út atvinnulífinu til að leggja fram hlutafé til félagsins og minnka þannig nauðsyn á hlutafé frá Flokkun ehf.
6. Moldhaugar, skáli í fornum stíl
Bréf, dags. 17. okt. 2008, frá Skúla Bragasyni þar sem hann sækir um leyfi til að byggja víkingaskála í landi Moldhauga. Bréfinu fylgir afstöðumynd og samþykki landeiganda.
Þetta mál var áður á dagskrá sveitarstjórnar 20. febrúar 2008 (6. mál). Þá var samsvarandi erindi samþykkt með fyrirvara um að lögð yrði fram fyllri afstöðumynd, sem liggur nú fyrir.
Erindið var samþykkt.
7. Hafnasamlag Norðurlands bs., aðstaða fyrir hafntengda starfsemi
Bréf, dags. 9. okt. 2008, frá Hafnasamlagi Norðurlands bs. um hvort raunhæfur möguleiki er á að gera ráð fyrir uppbyggingu hafntengdrar starfsemi í Hörgárbyggð.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar leggst ekki gegn því að skoðaður verði sá möguleiki að byggja upp hafntengda starfsemi í Hörgárbyggð.
8. Heimaslóð, beiðni um fjárstuðning
Bréf, dags. 10. nóv. 2008, frá Bjarna E. Guðleifssyni um fjárstuðning til útgáfu á 9. hefti af Heimaslóð, árbók hreppanna í Möðruvallaklaustursprestakalli. Frá Hörgárbyggð er óskað eftir kr. 177.500.
Erindið samþykkt.
9. Daggæsla barns í heimahúsi, umsókn um niðurgreiðslu
Lagt fram tölvubréf, dags. 17. nóv. 2008, með umsókn um niðurgreiðslu á kostnaði við daggæslu barns í heimahúsi. Sveitarstjórn samþykkir að greiða niður allt að kr. 32.000 pr. mán. til dagmóður með starfsleyfi miðað við 8 tíma dagvistun og hlutfallslega fyrir styttri dvöl frá sex mánaða aldri barnsins til þess tíma þar til barnið fær leikskólapláss á Álfasteini.
10. Minjasafnið á Akureyri, þjónustusamningur
Bréf, dags. 7. nóv. 2008, frá stjórn Minjasafnsins á Akureyri, þar sem óskað er eftir viðræðum um drög að þjónustusamningi við safnið.
Sveitarstjóra og oddvita falið að hitta stjórn Minjasafnsins.
11. Vátryggingar, samkomulag
Lögð fram drög að samkomulagi um vátryggingar milli Hörgárbyggðar og Vátryggingafélags Íslands hf. fyrir tímabilið frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2013. Með þeim fylgir yfirlit yfir þær tryggingar sem eru innifaldar í samkomulaginu. Upphæðir eru á verðlagi í október 2008. Þær fela í sér nokkra lækkun á kostnaði við tryggingar sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn samþykkir framlagt samkomulag um tryggingar við VÍS eins og það er lagt fram.
12. Skógarhlíð 14, teikni- og framkvæmdafrestur
Bréf dags. 13. nóv. 2008, frá teikni- og verkfræðistofunni Opus ehf. um teikni- og framkvæmdafrest á lóðinni Skógarhlíð 14. Sótt er um 24 mánaða frest í ljósi aðstæðna á byggingamarkaði.
Erindið samþykkt.
13. Tillaga að aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020, samráð
Bréf, dags. 17. okt. 2008, frá Teiknistofu arkitekta, þar sem óskað er eftir samráði um tillögu að aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti við tillögu að aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020.
14. Óbyggðanefnd, þjóðlendukröfur á svæði 7b
Bréf, dags. 28. okt. 2008, frá Óbyggðanefnd um frest fjármálaráðherra til að lýsa hugsanlegum þjóðlendukröfum á vestanverðu Norðurlandi, nyrðri hluta (svæði 7b). Á því svæði er sá hluti Hörgárbyggðar sem er vestan Hörgár og Öxnadalsár.
Lagt fram til kynningar.
15. Neytendasamtökin, beiðni um styrk
Bréf, dags. 29. okt. 2008, frá Neytendasamtökunum með beiðni um styrkveitingu vegna ársins 2009 að fjárhæð kr. 7.488.
Erindið samþykkt.
16. Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra, ályktun
Bréf, dags. 29. okt. 2008, frá vinnumarksráði Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands eystra með tilmælum um að í ljósi stöðunnar á vinnumarkaðinum verði ekki dregið úr vinnuaflsfrekum framkvæmdum í sveitarfélögunum á svæðinu.
Lagt fram til kynningar.
17. Knattspyrnusamband Íslands, framlög til barna- og unglingastarfs
Bréf, dags. 24. okt. 2008, frá Knattspyrnusambandi Íslands þar sem gerð er grein fyrir stórauknum fjárframlögum til barna- og unglingastarfs til aðildarfélaga sambandsins um leið og sambandið hvetur sveitarfélögin til að eiga samráð með knattspyrnufélögum um aðgerðaráætlun til að auka enn frekar möguleika barna og unglinga á skipulögðu starfi knattspyrnuhreyfingarinnar.
Lagt fram til kynningar.
18. Ungmennafélag Íslands, ályktun
Bréf, dags. 29. okt. 2008, frá Ungmennafélagi Íslands með ályktun sambandsráðsfundar félagsins þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til að standa vörð um íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu á viðsjárverðum tímum.
Lagt fram til kynningar
19. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, tilmæli
Bréf, dags. 14. nóv. 2008, frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, þar sem biðlað er til sveitarfélaganna um að standa vörð um þá gríðarlegu miklu samfélagslegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í kringum sjálfboðaliðastarf íþróttafélaganna í ljósi efnahagshamfaranna sem gengið hafi yfir samfélagið.
Lagt fram til kynningar.
20. Fundargerð stjórnar Eyþings, 15. okt. 2008
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
21. Fundargerð héraðsnefndar, 22. okt. 2008
Fundargerðin er í sjö liðum.
Lögð fram til kynningar.
22. Landamerki Bakkasels og Egilsár, Flatatungu, Merkigils og Silfrastaðaafréttar
Fram kom á fundinum að landeigendur Egilsár, Flatatungu, Merkigils og Silfrastaðaafréttar óska eftir því að gefin verði út yfirlýsing um að vatnaskil ráði landamerkjum Bakkasels og Almennings í Hörgárbyggð annars vegar og Egilsár, Flatatungu, Merkigils og Silfrastaðaafréttar í Akrahreppi hins vegar, enda sé enga aðra lýsingu á merkjunum að finna í landamerkjabréfum þeirra.
Sveitarstjórnin samþykkti að veita sveitarstjóra umboð til að undirrita yfirlýsingu þar sem framangreindum landamerkjum er lýst sem að ofan greinir.
23. Fundargerð leikskólanefndar 17. nóv. 2008
Fundargerðin er í 4 liðum. Fundargerðin lögð fram og vísað til næsta fundar til afgreiðslu.