Fundargerð - 19. maí 2010
Miðvikudaginn 19. apríl 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 54. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Kjörskrárstofn vegna sveitarstjórnarkosninga 29. maí 2010
Lagður var fram kjörskrárstofn vegna sveitarstjórnarkosninganna 29. maí nk.
Á kjörskrá eru 168 karlar og 142 konur. Kjörskráin yfirfarin og samþykkt.
2. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 6. maí 2010
Fundargerðin er í einum lið. Fundargerðin rædd og samþykkt.
3. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 6. maí 2010
Fundargerðin er í einum lið. Fundargerðin rædd og samþykkt.
4. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2009, seinni umræða
Frá fyrri umræðu um ársreikningana hafa framkvæmdanefnd Þelamerkurskóla og stjórn Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk staðfest ársreikninga stofnananna.
Ársreikningarnir voru staðfestir af sveitarstjórn, óbreyttir frá fyrri umræðu.
5. Yfirlit um rekstur og fjárhag
Lagt fram yfirlit um rekstur og fjárhag Hörgárbyggðar á 1. ársþriðjungi 2010. Þar kemur fram að rekstrarkostnaðurinn á tímabilinu er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Fjármunum sem ætlað var til framkvæmda, alls kr 2.500 þús. hefur þegar verið ráðstafað.
6. Staðartunga, deiliskipulag vegna íbúðarhúsbyggingar
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna íbúðarhúsbyggingar í Staðartungu. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998.
Sveitarstjórn samþykkti að tillagan verði auglýst eins og hún er lögð fram.
7. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 11. maí 2010
Fundargerðin er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn var afgreiddur í dagskrárliðnum hér á undan. Í seinni liðnum kemur fram að skipulagsráðgjafi vegna deiliskipulags fyrir Lónsbakka kom á fundinn og lagði fram fyrstu hugmyndir að vegtengingum íbúðabyggðar og fyrirtækja á Lónsbakka við Hringveginn og yfirlit yfir væntanleg næstu skref í deiliskipulagsvinnunni.
8. Fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð, drög
Lagt fram tölvubréf, dags. 12. maí 2010, frá Eyþingi um lokadrög að fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð, sem dagsett eru 23. apríl 2010, sbr. 5. lið í fundargerð sveitarstjórnar 17. mars 2010, 11. lið fundargerðar sveitarstjórnar 9. desember 2009 og 13. lið fundargerðar sveitarstjórnar 20. apríl 2009.
Til kynningar.
9. Starfsemi SÁÁ
Lagt fram tölvubréf, dags. 19. apríl 2010, frá bæjarstjóranum á Akureyri, þar sem sett er fram hugmynd um fjármögnun sem ætlað er að tryggja starfsemi SÁÁ á Akureyri út árið 2011. Þar er gert ráð fyrir að framlagi frá sameinuðu sveitarfélagi verði kr. 250.000 sem skiptist á næstu tvö ár.
Málinu frestað.
10. Landgræðsla ríkisins, beiðni um styrk
Bréf, dags. 4. maí 2010, frá héraðssetri Landgræðslu ríkisins, þar sem óskað er eftir framlagi að fjárhæð kr. 30.000 til verkefnisins Bændur græða landið.
Erindið samþykkt.
11. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, beiðni um fjárstuðning
Bréf, dags. 7. maí 2010, frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við útgáfu bókar með úrvali örnefna um land allt í tilefni af því að í haust verða liðin 100 ár frá því að skipuleg örnefnasöfnun hófst hér á landi.
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð kr. 5.000 til verkefnisins.
12. Skriða, afmörkun lóðar fyrir hest- og fjárhús
Lögð fram afstöðumynd, dags. 25. september 2009, sem sýnir fyrirhugaða afmörkun lóðar fyrir hest- og fjárhús í landi Skriðu.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða afmörkun lóðarinnar fyrir sitt leyti.
13. Velferðarvaktin, fjölbreytileg úrræði í barnavernd
Bréf, dags. 20. apríl 2010, frá velferðarvakt félags- og tryggingamálaráðuneytisins, þar sem hvatt er til aukinnar umræðu um fjölbreytileg úrræði til að koma til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna.
Til kynningar.
14. Ungmennafélag Íslands, ályktun ungmenna
Bréf, dags. 20. apríl 2010, frá Ungmennafélagi Íslands þar sem gerð er grein fyrir ályktun ungmenna frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði, sem haldin var fyrr í mánuðinum.
Til kynningar.
15. Fundargerð stjórnar Eyþings, 30. apríl 2010
Fundargerðin er í 15 liðum.
Til kynningar.
16. Trúnaðarmál
Þar sem þetta var síðasti fundur sveitarstjórnar Hörgárbyggðar á þessu kjörtímabili þökkuðu fundarmenn hvorum öðrum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum.