Fundargerð - 18. september 2014
Fimmtudaginn 18. september 2014 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Jóhanna María Oddsdóttir, Jón Þór Benediktsson og María Albína Tryggvadóttir.
Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.
Þetta gerðist:
1. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, auglýsing tillögu
Á fundi sveitarstjórnar 29. júní 2014 var frestað afgreiðslu á tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um svar við bréfi, dags. 18. júní 2014, frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og um að fyrirliggjandi tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði auglýst. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn, sbr. fundargerð nefndarinnar 10. september 2014, að frestað verði að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi á meðan kannað verði hvort viðkomandi hagsmunaaðilar komist að niðurstöðu um málefni Blöndulínu 3 í tillögunni, þó ekki lengur en til 10. janúar 2015.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að beiðni um heimild ráðherra til að fresta ákvörðun um málefni Blöndulínu 3 í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði dregin til baka. Jafnframt samþykkti sveitarstjórnin tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að framkvæmd á samþykkt hennar frá 25. júní 2014 um auglýsingu á fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði frestað til 10. janúar 2015 og að tíminn verði nýttur til að ná niðurstöðu hagmunaaðila um framsetningu á flutningsleiðum raforku í tillögunni. Sveitarstjórn samþykkti að stefnt verði fyrsta fundi um málið fyrir 10. október 2014.
2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 10. september 2014
Fundargerðin er í átta liðum. Þar eru tvær tillögur til sveitarstjórnar, um stöðu skipulagsfulltrúa og um aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, sem var til afgreiðslu í fyrsta dagskrárlið þessa fundar. Ennfremur er í fundargerðinni fjallað um fjárhagsramma nefndarinnar vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2015, um lýsingu vegna deiliskipulags sem snýr að stækkun sláturhúss að Lóni, um deiliskipulag á Hjalteyri, um Flokkun Eyjafjörður ehf., um dag íslenskrar náttúru og um varðveislu landbúnaðarlands. Á fundinum var lagt fram bréf, dags. 4. september 2014 frá landeigendum á lagnaleið Blöndulínu 3 um Hörgársveit um tillögu að nýju aðalskipulagi vegna flutningsleiða raforku um Hörgársveit.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að áfram verði unnið að því að setja á fót embætti skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til annarrar ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar en þeirrar sem fram kemur í 1. lið þessarar fundargerðar.
3. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar 11. september 2014
Fundargerðin er í fjórum liðum, um bréf Jafnréttisstofu um skyldur sveitarfélaga skv. jafnréttislögum, um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi, um landsfund jafnréttisnefnda 2014 og um fjárhagsramma 2015.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
4. Fundargerð fræðslunefndar 15. september 2014
Fundargerðin er í tveimur liðum. Þar eru gerðar tillögur til sveitarstjórnar, annars vegar um breytingu á fjárhagsramma nefndarinnar fyrir árið 2015 og hins vegar um að ráðinn verði starfsmaður í leikskólann til viðbótar þeim starfsmönnum sem þar eru nú.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um að ráðinn verði starfsmaður í 100% starf í Álfasteini til loka skólaársins.
5. Fjárhagsrammar 2015, endurskoðun
Rætt um endurskoðun á fjárhagsrömmum vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2015, m.a. í ljósi samþykktar fræðslunefndar 15. september 2014 um að fyrirliggjandi fjárhagsrammi nefndarinnar rúmi ekki óbreytta starfsemi skólanna í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn samþykkti að endurskoða fyrirliggjandi fjárhagsramma félagsmála- og jafnréttisnefndar, fræðslunefndar og skipulags- og umhverfisnefndar fyrir árið 2015, þannig að þeir verði sem hér segir:
· Félagsmála- og jafnréttisnefnd 25,0 millj. kr.
· Fræðslunefnd 220,0 millj. kr.
· Skipulags- og umhverfisnefnd 17,0 millj. kr.
6. Heimavistarálma Þelamerkurskóla, ráðstöfun
Rætt um hugsanlega ráðstöfun á heimavistarálmu Þelamerkurskóla eftir að afnotum skólans á henni lýkur.
Sveitarstjórn samþykkti að auglýst verði eftir samstarfsaðila um breytta nýtingu á heimavistarálmu Þelamerkurskóla með breytt eignarhald á henni í huga, sbr. umræður á fundinum.
7. Fornhagi, landskipti
Lögð fram afstöðumynd sem sýnir afmörkun tveggja landspildna, hvor um sig 10.335 m2, sem fyrirhugað er að taka undan jörðinni Fornhaga. Óskað er eftir umsögn um landskiptin, sbr. 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti þau landskipti í Fornhaga sem lýst er í framlögðum gögnum.
8. Neðri-Rauðilækur, landskipti
Lögð fram afstöðumynd sem sýnir afmörkun á landspildu, 38,5 ha að stærð, sem fyrirhugað er að taka undan jörðinni Neðri-Rauðalæk. Óskað er eftir umsögn um landskiptin, sbr. 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti þau landskipti á Neðri-Rauðalæk, sem lýst er í framlögðum gögnum.
9. Hjalteyri ehf., samningur um framkvæmdastjórn og húsvörslu
Lögt fram drög að samningi milli sveitarfélagsins og Hjalteyrar ehf. um framkvæmdastjórn félagsins og húsvörslu vegna fasteigna þess.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framlögð drög að samningi milli sveitarfélagsins og Hjalteyrar ehf. um framkvæmdastjórn félagsins og húsvörslu vegna fasteigna þess.
10. Hjalteyri, aðstaða fyrir stýrishús
Lagt fram tölvubréf, dags. 27. ágúst 2014, frá Víði Björnssyni þar sem óskað er eftir breytingu á áður samþykkri tímabundinni staðsetningu stýrishúss á Hjalteyri.
Sveitarstjórn samþykkti að hafnað verði framkominni ósk um breytta staðsetningu stýrishús á Hjalteyri og jafnframt hafnaði sveitarstjórnin því sem landeigandi að stöðuleyfi fyrir stýrishúsið verði framlengt.
11. Arnarnes, umsögn um umsókn um breytingu á rekstrarleyfi
Lagt fram tölvubréf, dags. 28. ágúst 2014, frá Sýslumanninum á Akureyri þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn um breytingu á rekstrarleyfi skv. gististaðaflokki I í Arnarnesi.
Sveitarstjórn samþykkti að af hálfu sveitarfélagsins verði ekki gerð athugasemd við að rekstrarleyfi í gististaðaflokki I fyrir Arnarnes verði breytt skv. framlögðum gögnum.
12. Hraun í Öxnadal ehf., aðalfundarboð
Lagt fram aðalfundarboð Hrauns í Öxnadal ehf. Aðalfundurinn verður 23. október 2014.
Sveitarstjórn samþykkti að Axel Grettisson fari með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Hrauns í Öxnadal ehf. 23. október 2014.
13. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, drög að nýrri reglugerð um starfsemi slökkviliða
Lagt fram til kynningar bréf, dags. 1. september 2014, frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um drög að nýrri reglugerð um starfsemi slökkviliða.
14. Sókn lögmannsstofa, kynning
Lagt fram til kynningar bréf, dags. 2. september 2014, frá Sókn lögmannsstofu sem er kynning á innheimtustarfi lögmannsstofunnar.
15. Trúnaðarmál