Fundargerð - 18. september 2002

Miðvikudaginn 18. september 2002 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

Mættir voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir og Sturla Eiðsson. Fjórir áheyrnarfulltrúar voru mættir.
Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

 

1. Skipulagsmál, Arngrímur Ævar Ármannsson frá VST kom og kynnti deiliskipulag á svæðinu austan Skógarhlíðar sunnan lækjar. Óskað er eftir að Ævar leggi fram kostnaðaráætlun vegna lagnavinnu áður en frekari áætlanir verði gerðar.

 

2. Fundargerðir sveitarstjórnar frá 21.08, 23.08, 26.08, 27.08, 05.09 og 14.09 samþykktar samhljóma. Fundargerðir skólanefndar 22.08 og 10.09 samþykktar samhljóma. Fundargerð fjallaskilanefndar frá 28.08 samþykkt samhljóma. Fundargerðir framkvæmdanefndar frá 11. og 14. sept. lagðar fram til kynningar.

 

3. Fundargerð húsanefndar frá 13.09 og 17.09 samþykkt samhljóma. Formaður húsnefndar Sverrir Haraldsson mætti á fundinn, þar sem lá fyrir fundinum kostnaðaráætlun á viðgerð á flötu suðurþaki Hlíðarbæjar, þannig að setja á það svokallað skúrþak. Kostnaðaráætlun hljóðaði uppá kr. 2.500.000. Sveitarstjórn samþykkti í skriflegri kosningu að láta gera við suðurþak Hlíðarbæjar samkvæmt fyrirliggjandi teikningu. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti einróma að taka 2 milljónir úr menningarsjóði sveitarfélagsins, ásamt vöxtum sem til þarf, til að gera við þakið á Hlíðabæ.

 

4. Bréf.
Til kynningar: Fjárlaganefnd Alþingis ráðgerir að gefa sveitarstjórnarmönnum tækifæri á að eiga fund með nefndinni vegna fjárlagaársins 2003.
Til kynningar: Svar frá Menntamálaráðuneytinu vegna bréfs oddvita Hörgárbyggðar sem sent var 29. ágúst sl. vegna sölu á Félagsheimilinu á Þverá til niðurrifs. Samkvæmt skráningu á Hörgárbyggð húsið og gerir ráðuneytið því enga athugasemd við að húsið sé rifið.
Lagt var fram til kynningar undirskrifað samkomulag vegna Samtúns milli leigutaka og Hörgárbyggðar vegna þökuskurðar leigutaka.
Til kynningar: Ályktanir aðalfundar Eyþings sem haldið var í Mývatnsveit 30. og 31. ágúst síðastliðin.
Til kynningar: Ráðstefna um umhverfismál sem verður haldin 11. október 2002 í Ketilhúsinu á Akureyri. Oddviti hvatti sveitarstjórnarmenn til að sækja ráðstefnuna ef þeir hafi áhuga.

 

5. Skipan í jafnréttisnefnd. Í fyrirspurn frá jafnréttisstofu kemur fram hvort starfandi sé jafnréttisnefnd í Hörgárbyggð eða hvort önnur nefnd hafi verið falið að taka að sér það hlutverk. Ákveðið var að skipa í jafnréttisnefnd þau Herborgu Sigfúsdóttur, Sigríði Svavarsdóttur og Baldvin Hallgrímsson. Herborgu falið að kalla nefndina saman.

 

6. Tilboð í garnaveikibólusetningu frá Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar. Þar kemur fram að komugjald pr. bæ er kr. 1.717, kr. 114 bólusetningargjald á hvert lamb og lyfjakostnaður sé kr. 90 pr. lamb. Einnig gera þau tilboð í hundahreinsun í Hörgárbyggð þ.e. hundahreinsun þar sem verið er að garnaveikisbólusetja lömbin þá kostar hundahreinsun kr. 1.600 og lyf kr. 357 pr. 10 kg hund en ef ekki er verið að bólusetja lömb þá kostar hundahreinsun kr. 2.255 + lyf. Aksturskostnaður deilist hlutfallslega milli bæja. Öll verð með vsk. Tilboðið var samþykkt samhljóma.

 

7. Samtök hernaðarandstæðinga sendi erindi þar sem óskað er eftir að Hörgárbyggð skrifi undir, eins og flest önnur sveitarfélög á landinu, yfirlýsingu um kjarnorkulaust sveitarfélag. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefði áður vísað samskonar erindi frá. Oddvita falið að skrifa undir f.h. Hörgárbyggðar yfirlýsingu um kjarnorkulaust sveitarfélag.

 

8. Styrkbeiðnir

Bílgreinasambandið vegna útgáfu á sögu bílsins – hafnað

Blindravinafélagið vegna fréttablaðsins Blindrasýn – hafnað

Námsmannahreyfingin útgáfa á blaði – hafnað

Geðhjálp ósk um styrk (óformlegt) – hafnað

Hestamannafélagið Framfari styrkbeiðni - samþykkt að veita kr. 15.000 í styrk vegna bæjarkeppni 31. ágúst sl.

 

9. Girðingarmál

Bréf hefur borist frá Valdísi Jónsdóttur þar sem hún ítrekar kvörtun sína vegna lausagöngu kinda á veginum suður Kræklingahlíðina þ.e. frá þjóðvegi að Ásláksstöðum. Valdís leggur til að ábúendum í Kræklingahlíð sé gert að koma fjallsgirðingum sínum í lag innan ákveðins frests eða að öðrum kosti verði gert við þær á kostnað eigenda. Þessu væri svo framhaldið árlega eftir það.

 

Til kynningar var samkomulag um friðun þjóðvegar, þar kemur fram að Vegagerðin tekur að sér að girða af þjóðveg 1. En á móti kemur að sveitarstjórn bannar lausagöngu búfjár í sveitarfélaginu. Málinu frestað til næsta fundar.

 

10. Hraun í Öxnadal

Þjóðgarður/Friðland/Fólksvangur/Fræðslumiðstöð

Bréf frá Bjarna Guðleifssyni þar sem hann rekur aðdragandi þess að Hraun í Öxnadal verði friðlýst svæði. Unnið sé að því að ríkið kaupi jörðina og því sé fyrirhugað að stofna “Hraunsráð” til að vinna að framgangi málsins og óskað eftir að Hörgárbyggð tilnefni fulltrúa í ráðið. Fundur er fyrirhugaður kl. 15,00 fimmtudaginn 19.09.2002.

Oddviti Helgi Steinsson fer á fundinn án allra skuldbindinga.

 

11. Bréf frá Sigfúsi Karlssyni þar sem óskað er eftir rökstuðningi vegna ráðningar sveitarstjóra með vísan til 21. grein stjórnsýslulaga nr. 37 30.04/1993 með áorðnum breytingum. Lagt var fram drög að svarbréfi til Sigfúsar og eftir breytingar á drögunum var oddvita falið að skrifa Sigfúsi bréf til samræmis við frumdrög bréfsins.

Oddviti Helgi Steinsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

12. Önnur mál

Ósk um húsaleigubætur nemanda á heimavist Hvanneyrar, Hjalta Steinþórssyni Stóra-Dunhaga. Erindinu var hafnað þar sem nemandinn er einungis 4 mánuði í skólanum en lágmarksleigutími er 6 mánuðir samkvæmt húsleigubótalögum.

 

Bréf frá eigendum Krossastaða og Vaskárdals þar sem þau neita alfarið að leggja til mann í göngur þar sem þau uppfylli ekki eignamörk þau sem þarf til að skila dagsverki skv. 15. gr. fjallskilalaga Eyjafjarðar. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar fellst ekki á skýringar landeigenda. Sveitarstjórn ákvað að ef þau skila ekki álögðu gangnadagsverki þá muni sveitarstjórn beita álögum skv. 44. gr. fjallskilalaga þ.e. að þeir sem ekki skili álögðu dagsverki vegna fjallskila skuli greiða fyrir það 1½ gangnadagsverk.

 

Kvörtun frá Ólafi Ólafssyni í Garðshorni vegna smölunar til réttar í Þórustaðarétt utan auglýsts réttardags. Fjallskilastjóri hafði veitt leyfi til að reka til réttar það fé sem komið var niður. Fjallskilastjóri mátti ekki gefa leyfi til að reka til réttar nema að fengu leyfi allra landeigenda sem ættu þar fjárvon.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar ákvað að senda fjallskilastjóra áminningu fyrir að veita leyfi til samanrekstrar án þess að hafa gefið leyfi frá öllum þeim sem áttu þar fjárvon.

 

Bréf frá Sturlu Eiðssyni þar sem hann fer fram á að Hörgárbyggð greiði sér fyrir uppsetningu á tveimur staurum sem hann setti niður fyrir nokkrum árum, til samræmis við ákvörðun sveitarstjórnar um greiðslu slíkra staura á heimreiðum.

Sveitarstjórn ákvað að greiða Sturlu fyrir tvo staura skv. þeim reikningum sem eru til frá þeim tíma óframreiknuðum. Ákveðið er að móta skýrari stefnu vegna ljósastaura á heimreiðum. Sturla sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

Munnleg kvörtun frá Guðmundi Jósavinssyni vegna mismunandi gangnaþunga á bæjum að teknu tilliti til fjölda kinda á bæjunum. Ekki sé rétt að miða við þau 200 þ. kr. eignamörk sem búið var að samþykkja hjá sveitarstjórn að tillögu fjallskilanefndar. Málið verði skoðað.

 

Oddviti lagði fram skuldastöðu íbúa Hörgárbyggðar, við sveitarsjóð, skuld vegna húsaleigu kr. 220.00. Skuldir vegna gamalla mötuneytisreikninga 265.449. Skuldir vegna rotþróa kr. 391.000, vegna gjaldfallinna leikskólagjalda rúmlega kr. 600.000 og vangreidd fasteignagjöld eru yfir kr. 1.0000.000.

 

Helga falið að láta Sigfús senda út innheimtubréf til allra þeirra sem eru í skuld við Hörgárbyggð eldri en tveggja mánaða.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 1.05

 

Birna Jóhannesdóttir, fundarritari