Fundargerð - 18. október 2006
Miðvikudaginn 18. október 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 6. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Aðalheiður Eiríksdóttir, Árni Arnsteinsson, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason
1. Gásaverkefnið, stjórnsýsla
Lögð fram drög að samkomulagi milli Hörgárbyggðar, Akureyrarbæjar og Minjasafnsins á Akureyri um Gásaverkefnið. Einnig voru lögð fram drög að erindisbréfi fyrir Gásanefnd, sem lagt er til að stofnuð verði. Þá voru lögð fram afrit af tveimur styrkbeiðnum vegna Gásaverkefnisins sem send hafa verið. Þær eru til fjárlaganefndar Alþingis og styrkvegasjóðs Vegagerðarinnar. Fram kom að fulltrúar Minjasafnsins muni sækja samráðsfund safna í Nyköbing í Danmörku í desember nk.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samkomulagi milli Hörgárbyggðar, Akureyrarbæjar og Minjasafnsins á Akureyri um Gásaverkefnið. Þá samþykkir sveitarstjórn að setja á fót Gásanefnd með aðild þessarar aðila til að hafa umsjón með Gásaverkefninu, þ.m.t. að finna því framtíðarrekstrarform. Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að erindisbréfi fyrir nefndina. Þá samþykkti sveitarstjórn að Jóhanna María Oddsdóttir tæki þátt í samráðsfundi um safnamál í Nyköbing fyrir hönd sveitarfélagsins.
2. Gáseyri, deiliskipulag
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 21. sept. 2006 fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi Gáseyrarinnar og leggur til við sveitarstjórn að staðfesta þá samþykkt.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu skipulags- og umhverfisnefndar að deiliskipulagi Gáseyrar.
3. Vegamál, endurbætur á vegum nr. 815 og 816
Lagt fram afrit úr Fjögurra ára samgönguáætlun 2005-2008, sem samþykkt var af Alþingi 11. maí 2005. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir framkvæmdum við Hörgárdalsveg (nr. 815) upp á 67 millj. kr. á árinu 2008 og framkvæmdum við Dagverðareyrarveg (nr. 816) upp á 11 millj. kr. á sama ári.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar leggur þunga áherslu á að ekki haggist ráðgerðar framkvæmdir á Hörgárdalsvegi (nr. 815) á árinu 2008 skv. gildandi fjögurra ára vegáætlun. Hún óskar eindregið eftir því að árið eftir verði gert ráð fyrir bundnu slitlagi á veginn frá Brakanda að Ólafsfjarðarvegi. Jafnframt leggur sveitarstjórnin mikla áherslu á að eftir áætlaðar upphafsframkvæmdir á Dagverðareyrarvegi (nr. 816) á árinu 2008 verði framkvæmdum þar haldið áfram árið eftir og þeim lokið, með bundnu slitlagi, í síðasta lagi árið 2010. Um Dagverðareyrarveg fara miklir þungaflutningar og síaukinn ferðamannastraumur. Þá bendir sveitarstjórnin á að uppbygging annarra tengivega í sveitarfélaginu sé mjög brýn.
4. Fráveita Lónsbakka, samningur við VST hf. um tækniráðgjöf
Lögð fram drög að samningi um tækniráðgjöf milli Akureyrarbæjar og Hörgárbyggðar annars vegar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. (VST hf.) hins vegar um að finna sameiginlega lausn á frárennslismálum fyrir Grænhólssvæði og Skógarhlíðarsvæði, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 20. sept. 2006 (13. liður).
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samningi um tækniráðgjöf vegna frárennslismála á Grænhólssvæði og Skógarhlíðarsvæði. Sveitarstjóra falið að skrifa undir samninginn.
5. Skólaakstur, Skógarhlíð-Þelamerkurskóli, fjölgun nemenda
Viðkomandi verktaki óskar eftir að samningsupphæðin fyrir þessa leið verði endurskoðuð þar sem fjölgað hafi um einn nemenda á akstursleiðinni.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn telur ekki rök fyrir að breyta samningsupphæðinni á skólaakstursleiðinni milli Skógarhlíðar og Þelamerkurskóla vegna eins viðbótarnemanda.
6. Búgarður, ráðning starfsmanns til skipulagsmála
Á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 13. des. 2005 var ályktað um þörf á ráðningu á viðbótarstarfsmanni við embætti byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, sem mundi aðallega sinna skipulagsmálum. Málið var rætt á samráðsfundi aðildarsveitarfélaganna sl. vor, án niðurstöðu. Búgarður óskar eftir að málið verði afgreitt af hálfu sveitarfélaganna.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur ekki ástæðu til að ráða viðbótarstarfsmann til byggingarfulltrúaembættisins vegna skipulagsmála, að svo stöddu. Sveitarstjóra falið að fylgjast með framvindu málsins.
7. Neytendasamtökin, beiðni um styrk
Lögð fram beiðni frá Neytendasamtökunum, dags. 3. okt. 2006, um styrk að upphæð kr. 7.146 á árinu 2007.
Samþykkt.
8. Umhverfismat Samgönguáætlunar 2007-2018
Lagt fram bréf samgönguráðuneytis, dags. 5. október 2006, um umhverfismat Samgönguáætlunar 2007-2018 og lögð fram samantekt á viðkomandi skýrslu.
Lagt fram til kynningar.
9. Landamerkjagirðing Barkár og Öxnhóls, tilnefning til að skera úr um ágreining
Lagt fram bréf Hermanns Jónssonar, dags. 12. okt. 2006, þar sem óskað er eftir tilnefningu aðila til að skera úr um ágreining um landamerkjagirðingu Barkár og Öxnhóls, sbr. 7. gr. laga nr. 135/2001.
Tilnefndur var Guðmundur Víkingsson.
10. Hreyfing fyrir alla tilraunaverkefni
Lagt fram bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 11. okt. 2006, þar sem óskað er eftir umsóknum um þátttöku í verkefni með ofangreindu heiti.
Lagt fram til kynningar.
11. Sorpeyðing Eyjafjarðar bs., úrsögn Akureyrarbæjar
Ekki liggur fyrir hvernig stjórn úrgangsmála verður háttað í héraðinu eftir áramótin, þar sem Akureyrarbær hefur tilkynnt um úrsögn úr Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. um næstu áramót, þó hefur formleg staðfesting á því ekki borist..
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar skorar á bæjarstjórn Akureyrar að endurskoða ákvörðun sína um úrsögn úr Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. um næstu áramót. Sveitarstjórnin bendir á að fyrirhuguð bygging jarðgerðarstöðvar fyrir lífrænan úrgang muni gjörbreyta forsendum fyrir framtíðarfyrirkomulag á förgun úrgangs í héraðinu. Ennfremur bendir hún á að endurvinnsla umbúða sem kveðið á um í nýsamþykktri Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020 í Eyjafirði muni einnig hafa jákvæð áhrif á úrgangsstjórnunina á svæðinu.
Það er skoðun sveitarstjórnarinnar að náin samstarf allra sveitarfélaganna í héraðinu sé ein af forsendunum fyrir því að viðunandi árangur náist á þessu sviði.
12. Fundargerðir stjórnar Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs., 14. sept. og 5. okt. 2006
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. frá 14. sept.. og 5. okt. 2006. Fundargerðin frá 14. sept. er í átta liðum, fundargerðinni 5. okt. er ekki skipt í töluliði.
Lagðar fram til kynningar.
13. Fundargerðir stjórnar Minjasafnsins á Akureyri, 20. sept. og 4. okt. 2006
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Minjasafnsins á Akureyri frá 20. sept. og 4. okt. 2006. Fundargerðin frá 20. sept. er í fimm liðum og fundargerðin 4. okt. er í tveimur liðum.
Lagðar fram til kynningar.
14. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 21. sept. 2006
Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 21. sept. 2006. Hún er í tveimur liðum. Bókað var um fyrri liðinn undir 2. dagskrárlið. Síðari liðurinn gefur ekki tilefni til ályktunar.
15. Fundargerð aðalfundar Eyþings, 22.-23. sept. 2006
Lögð fram fundargerð aðalfundar Eyþings, sem haldinn var í Valsárskóla á Svalbarðseyri 22.-23 sept. 2006.
Lagt fram til kynningar.
16. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 22. sept. og 9. okt. 2006
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Eyþings frá 22. sept. og 9. okt. 2006. Fundargerðin frá 22. sept. er í fimm liðum, fundargerðin frá 9. okt. er í 9 liðum.
Lagðar fram til kynningar.
17. Fundargerðir húsnefndar félagsheimilanna, 4. og 11. okt. 2006
Lagðar fram fundargerðir húsnefndar félagsheimilanna frá 4. og 11. okt. 2006. Fundargerðin 4. okt. er í fimm liðum og fundargerðin 11. okt. er einn liður.
Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir viðræðum sínum frá síðari fundinum við Ragnheiði Sverrisdóttur, arkitekt, um hönnun loftsins í aðalsal Hlíðarbæjar.
Fundargerðirnar voru afgreiddar án athugasemda.
18. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 16. okt. 2006
Lögð fram fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla frá 16. okt. 2006. Fundargerðin er í 4 liðum.
Fundargerðin var afgreidd án athugasemda.
19. Trúnaðarmál
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:20