Fundargerð - 18. janúar 2006
Miðvikudaginn 18. janúar 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 77. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. Engir áheyrnarfulltrúar mættu.
Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Leikskólamál.
Þröstur Sigurðsson hjá Opus teiknistofu er að endurgera teikningu að viðbótarbyggingu við leikskólann á Álfasteini. Kostnaður pr. fm er áætlaður allt að kr. 200.000 pr. fm. Sveitarstjóri leggur til að sveitarstjórn og leikskólanefnd skoði t.d. leikskólann á Svalbarðseyri þar sem um sambærilega stærðareiningu er að ræða. Þröstur Sigurðsson frá Opus mætti á fundinn og kynnti teikningu að 140 fm leikskóla fyrir allt að 30 börn. Ef byggð yrði 160 fm bygging þá mætti ætla að hún yrði það rúmgóð að auðvelt yrði að stækka leikskólann án þess að þurfa að gera breytingar á vinnurými starfsfólks. Ákveðið var að Þröstur fái Guðmund Helga Gunnarsson hjá BSE til að mæla út lóðina til að sjá hvernig byggingin rúmist á landinu. Lagt var fyrir Þröst að leggja fram nýja teikningu að 160 fm byggingu svo hægt sé að sjá hvort sú stærðareining væri heppilegri.
2. Launamál
Bréf frá Félagi leikskólakennara við Eyjafjörð um kjaramál leikskólakennara. Þar kemur fram að þeir fagna því að laun ófaglærðrar starfsmanna á leikskólum hafi hækkað hjá Reykjavíkurborg. En jafnframt vekja þeir athygli á því að með þeirri hækkun fari ófaglærðir upp fyrir suma leikskólakennara í launum og skora leikskólakennarar á sveitarfélögin að fjalla um þessi mál af einurð og festu og finna ásættanlega lausn á kjaramálum leiskólakennara á launamálaráðstefnu Sveitarfélaga þann 20. janúar nk. Einnig hefur borist bréf frá Birni Snæbjörnssyni formanni Einingar-Iðju þar sem hann óskar eftir fundi með sveitarstjórn til að ræða hvernig skuli bregðast við þessari stöðu því það geti varla verið vilji sveitarstjórnar Hörgárbyggðar að ófaglærðir starfsmenn sveitarfélagsins hafi allt önnur og lakari kjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar er aðili að Launanefnd sveitarfélaga og vonar að framangreind mál leysist á þeim vettvangi.
3. Sameiningarmál.
Meirihluti sveitarstjórnar leggur til að tekin verði afstaða til þeirrar hugmyndar að gerð verði skoðanankönnun á vilja íbúa Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps hvort vilji sé til sameiningar, jafnhliða sveitarstjórnar-kostningum á vori komanda, ef samstaða næst um það í sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna. Meirihluti sveitarstjórnar Hörgárbyggðar er samþykkur því að slík skoðanakönnun verði gerð samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2006 að því gefnu að Arnarneshreppur geri slíkt hið sama.
4. Skipulagsmál, fundargerð, lóðir og byggingaland.
a) Fundargerð skipulagsnefndar frá 12 janúar 2006 rædd og afgreidd án athugasemda. Þar kemur fram að skipulagsnefnd hefur farið yfir endurskoðað aðalskipulag Akureyrarbæjar og aðalskipulag Skagafjarðar og gerir ekki athugasemdir við innsend gögn nefndra sveitarfélaga og vísar málinu til sveitarstjórnar til afgreiðslu. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við endurskoðað aðalskipulag Akureyrarbæjar og aðalskipulag Skagafjarðar og felur sveitarstjóra að afgreiða erindin.
b) Umsókn um iðnaðarlóð frá Gámaþjónustu Norðurlands. Lóðin þurfi að vera u.þ.b. 3-5 hektarar og þarf að rúma höfuðstöðvar Gámaþjónustu Norðurlands ehf. Með skrifstofu, umhleðslustöð, geymsluaðstöðu og fl. sem tengist starfsemi fyrirtækisins.
Sveitarstjóra falið að óska eftir fresti til að skoða málið og jafnframt að Gámaþjónustan leggi fram frumteikningu hvernig þeir sjá fyrir sér slíka framkvæmd.
c. Fyrirspurn frá Sævari Sverrissyni um sama efni. Sveitarstjóra falið að hafa samband við Sævar og kann hvaða hann er að leita eftir og fyrir hvaða starfsemi lóðin eigi að vera.
5. Breyting á 1. gr. samþykktar Hörgárbyggðar.
Tillaga lögð fram um breytingu á samþykktum sveitarfélagsins: Í stað 7 í 1. gr. komi 5 , þ.e. að sveitarstjórnarmönnum fækki um tvo í næstu sveitarstjórnarkosningum. Fyrri umræða.
6. Fasteignamat.
Lagt fram; a) Bréf frá yfirfasteignamatsnefnd dags. 15. des. 2005 um framreikning fasteignamats. b) Bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 27. des. 2005 um endurútgefna reglugerð um fasteignaskatt ásamt reglugerðinni. c) Greinargerð félagsmálaráðuneytisins um sama efni, sem send var í tölvupósti, dags. 28. des.2005.
Ljóst er að í gamla Glæsibæjarhreppi hefur fasteignamat hækkað umtalsvert eða u.þ.b. 30% frá fyrra ári. Einnig þarf skv. lögum að leggja á fasteignagjöld á skóla og íþróttahús. Í 2.gr. reglugerðar um fasteignaskatt kemur fram að hann sé almennt 0,5% af fasteignamati. Álagning fasteignagjalda hefur verið 0,4 hér í Hörgárbyggð. Málið rætt og ákveðið að endurskoða álagninguna, sveitarstjóra falið að koma með tillögu að fasteignagjaldaprósentu á næsta fund.
7. Ljósastaurar.
Erindi Viðars Þorsteinssonar v/ljósastaura sem frestað var á síðasta fundi tekið til afgreiðslu. Ákveðið var að standa við þá ákvörðun að tveir staurar séu lagðir til frá sveitarfélaginu fyrir hverja íbúð sem sannanlega er búseta í.
8. Fundargerðir.
a) Nefndar um Staðardagskrá 21. frá 1. desember 2005. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.
b) Heilbrigðisnefndar nr. 86 og 87, lagðar fram til kynningar. Einnig er verið að innheimta v/ tveggja úttekta á vatnsveitum í Hörgárbyggð á árinu 2005, kr. 22.225 fyrir hvora fyrir sig, þ.e. v/vatnsveita á Auðnum og á Bakka.
Einnig kemur fram að í þeim sveitarfélögum sem ekki eru til samþykktir um hundahald í sveitarfélögum virðist sem skráning hunda sé afar takmörkuð og fer Heilbriðiseftilitið fram á úrbætur, því óviðunandi sé að vera í óvissu um hvort hundar séu ormahreinsaðir eða ekki.
c) Bygginganefnd frá 13. des. 2005. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
d) Fundargerð Tónlistarskóla Eyjafjarðar frá 10. janúar 2006, ásamt skiptingu á áætluðum launakostnaði á vorönn 2006. Þar kemur fram að áætlaður kostnaður Hörgárbyggðar á vorönn sé kr. 540.152 pr. mánuð tímabilið jan. júlí. Ekki eru gerðar athugasemdir við fundargerðina.
9. Bréf frá grenjaskyttum og minkaveiðimönnum.
Bréf frá Hannesi Haraldssyni og Helga Jóhannessyni þar sem þeir óska eftir að taka að sér grenjavinnslu fyrir Hörgárbyggð næstu fimm árin og óska eftir skriflegum samningi þar um. Ekki verður gerður samningur um refaveiðar á þessu kjörtímabili þar sem í gildi er samningu við þann aðila sem er með refaveiðarnar
Jafnframt fara þeir fram á kauptryggingu kr. 120.000 utan vsk. pr. mann á ári, við minkaveiðarnar, sem greiddar væru fyrirfram. Hugsunin er sú að þegar minkaskott eru lögð inn þá greiðist ekkert fyrir þau fyrr en heildarverðmæti þeirra fer yfir framangreindar fjárhæðir. Samþykkt að greiða umbeðna kauptryggingu en ekki verður gerður samningur að svo stöddu nema til eins árs í senn.
10. Opinn skógur, erindi frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga.
Jón Arnarsson frá Skógræktarfélaginu óskar eftir að Hörgárbyggð heimili fyrir sitt leyti að skógurinn fyrir ofan Laugaland verði gerður að Opnum skógi. Sem þýðir að hann verði opnaður meira fyrir almenning og þar verði lagðir stígar og settir upp bekkir og bílastæði. Þannig gerður að eftirsóttu útivistarsvæði. Sveitarstjórn tekur mjög jákvætt í erindið.
11. Ýmis mál.
Erindi frá verkefnisstjóra Gásaverkefnisins um að fá gistirými í Þelamerkurskóla fyrir erlenda gesti u.þ.b. 10 manns með aðgang að eldhúsi í fjóra daga sumarið 2006 þ.e. dagana 20. 24 júlí og með því móti verið styrktaraðili Miðaldardaganna á Gásum þetta sumar. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og er framkvæmdarnefnd falið að vinna að framgangi málsins.
12. Trúnaðarmál. Fært í trúnaðarmálabók
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 24:03