Fundargerð - 18. desember 2014

Fimmtudaginn 18. desember 2014 kl. 16:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Sveitarstjóri, uppsögn starfs

Lagt fram bréf, dags. 4. desember 2014, frá Guðmundi Sigvaldasyni þar sem hann segir lausu starfi sínu sem sveitarstjóri.

Sveitarstjórn samþykkti að veita oddvita umboð til undirbúa ráðningu eftirmanns Guðmundar.

 

2. Gjaldskrár 2015

Rætt um gjaldskrár leikskólagjalda og mötuneytisgjalds fyrir árið 2015.

Sveitarstjórn samþykkti að frá 1. janúar 2015 kosti hver klst. í vistun í Álfasteini 3.295 kr. á mánuði, að fullt fæði í leikskóla kosti 7.280 kr. á mánuði og að mötuneytisgjald í Þelamerkurskóla verði 600 kr. á dag.

 

3. FabLab á Akureyri, stofnun

Lagt fram tölvubréf, dags. 18. nóvember 2014, frá Akureyrarbæ um stofnun svonefnds „FabLab“ á Akureyri. Um er að ræða samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA), Nýsköpunarmiðstöðvar og Símenntunarstöðvar Eyjafjarðar (SÍMEY).

Sveitarstjórn samþykkti að viðræður fari fram um hugsanlega aðild sveitarfélagsins að „FabLab“ á Akureyri.

 

4. Fjárframlög til stjórnmálasamtaka

Lagt fram tölvubréf, dags. 26. nóvember 2014, frá Ríkisendurskoðun, þar sem gerð er grein fyrir því að sveitarfélaginu er skylt að veita fjárframlög til stjórnmálasamtaka sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn samþykkti að veitt verði samtals kr. 25.000 á ári til þeirra lista sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn frá og með árinu 2014.

 

5. Reiðleið, beiðni um styrk

Lagt fram bréf, dags. 28. nóvember 2014, frá Ólafi Aðalgeirssyni o.fl., þar sem óskað er eftir styrk til efniskaupa til lagningar reiðleiðar frá Dagverðareyri áleiðis að Gásum.

Sveitarstjórn samþykkti að veittur verði styrkur að fjárhæð kr. 250.000 til lagningar reiðleiða á árinu 2015.

 

6. Fjárhagsáætlun fyrir árin 2015-2018, seinni umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2015-2018 var tekin til síðari umræðu. Fyrir lá endurskoðuð tillaga með breytingum á þeirri tillögu sem var til fyrri umræðu, í samræmi við nýjar upplýsingar.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2015-2018 með þeim breytingum sem gerðar voru á henni á fundinum. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2015 verði skatttekjur 371.919 þús. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta (nettó) verði 360.434 þús. kr. og að rekstrarhalli veitna verði 2.934 þús. kr, þannig að rekstrarafgangur verði 8.551 þús. kr., að veltufé frá rekstri verði 36.208 þús. kr., að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 45 millj. kr. og að lántaka verði að fjárhæð 50 millj. kr. Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2015 verði 13,8 millj. kr. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 9,5 millj. kr., á árinu 2017 verði hann 18,8 millj. kr. og 17,7 millj. kr. á árinu 2018. Þá er gert ráð fyrir að fjárfestingar verði 10 millj. kr. á ári árin 2016, 2017 og 2018, og að lántökur verði 10 millj. kr. á ári árin 2016, 2017 og 2018.

 

7. Ós, sala landspildu

Tekin fyrir að nýju niðurstaða útboðs á landspildu úr jörðinni Ós, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 20. október 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að landspilda merkt B í landi Óss verði seld hæstbjóðanda, Agli Snæ Þorsteinssyni.

 

8. Dysnesspilda, leiga

Rætt um leigu og/eða sölu á svonefndri Dysnesspildu til Hafnasamlags Norðurlands bs.

Sveitarstjórn samþykkti að viðræður eigi sér við Hafnasamlag Norðurlands um sölu og/eða leigu á svonefndri Dysnesspildu og að oddviti og sveitarstjóri hafi umboð til að gera samning um málið í samræmi við umræðum á fundinum.

 

9. Laugaland, breyting á eignarhaldi

Lögð fram álitsgerð frá Stefáni Ólafssyni hrl. um atriði sem tengjast breyttu eignarhaldi á jörðinni Laugalandi, sbr. fundargerðir sveitarstjórnar 16. apríl 2014 og 20. október 2014.

Sveitarstjórn samþykkti aðfela oddvita og sveitarstjóra að eiga viðræður við þá aðila sem tengjast breyttu eignarhaldi um málið.

 

10. Kosning í skipulags- og umhverfisnefnd

Tekið fyrir að nýju bréf, dags. 12. nóvember 2014, frá Róbert Fanndal þar sem hann segir sig úr skipulags- og umhverfisnefnd.

Sveitarstjórn samþykkti að kjósa Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd.

 

11. Auðnir I, umsögn um umsókn um rekstrarleyfi

Lagt fram tölvubréf, dags. 26. nóvember 2014, frá Sýslumanninum á Akureyri, þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn um rekstrarleyfi skv. gististaðaflokki I að Auðnum I.

Sveitarstjórn samþykkti að af hálfu sveitarfélagsins verði ekki gerð athugasemd við útgáfu rekstrarleyfis skv. gististaðaflokki I að Auðnum I.

 

12. Minjasafnið á Akureyri ses., aðalfundarboð

Lagt fram bréf, dags. 3. desember 2014, frá Minjasafninu á Akureyri, þar sem boðað er til aðalfundar sjálfseignarstofnunarinnar þann 18. desember 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Jóhanna María Oddsdóttir fari með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Minjasafnsins á Akureyri ses. árið 2014.

 

13. Greið leið, hlutafjáraukning

Lagt fram bréf, dags. 3. desember 2014, frá Greiðri leið ehf. um árlega hlutafjáraukningu félagsins skv. lánasamningi Vaðlaheiðarganga hf. og ríkisins. Lánasamningurinn kveður á um að hlutafé Greiðrar leiðar ehf. í Vaðlaheiðargöngum hf. hækki um 40 millj. kr. á ári á árabilinu 2013-2017. Í bréfinu kemur fram að Höldur ehf. er reiðubúið að leggja fram 1 millj. kr. á árinu þannig að gert er ráð fyrir að núverandi hluthafar Greiðrar leiðar ehf. leggi að þessu sinni samtals fram 39 millj. kr. Hlutur Hörgársveitar í þeirri fjárhæð er 292.462 kr.

Sveitarstjórn samþykkti að fallið verði frá hlutfallslegum forkaupsrétti sveitarfélagsins að fyrirhugaðri sölu á hlutafé að fjárhæð 1 millj. kr. í Greiðri leið ehf. til Hölds ehf. og jafnframt að hlutafé sveitarfélagsins í félaginu verði aukið um 292.462 kr., sem komi til greiðslu á árinu 2014.

 

14. Fólkvangurinn Hrauni, tilnefning í umsjónarnefnd

Lagt fram bréf, dags. 12. desember 2014, frá Umhverfisstofnun, þar sem óskað er eftir tilnefningu eins manns af hálfu sveitarfélagsins í umsjónarnefnd fyrir fólkvanginn Hraun í Öxnadal.

Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna Ásrún Árnadóttir í umsjónarnefnd fyrir fólkvanginn Hraun í Öxnadal.

 

15. Jónasarlundur, kosning í stjórn

Rætt um kosningu í stjórn Jónasarlundar.

Sveitarstjórn samþykkti að skipa Þorstein Rútsson, Sigríði Svavarsdóttur og Sigurð B. Gíslason í stjórn Jónasarlundar.

 

16. Lónsbakki (152555), endurmat fasteignar

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 9. desember 2014, frá Þjóðskrá Íslands um framkomna beiðni um endurmat á fasteigninni Lónsbakki (152555), sem hýsir hluta af starfsemi Húsasmiðjunnar hf.

 

17. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:20.