Fundargerð - 17. desember 2008

Miðvikudaginn 17. desember 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 34. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Stígamót, styrkbeiðni

Bréf, dags. 28. nóv. 2008, frá Stígamótum, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við starfsemina.

Samþykkt að veita styrk kr. 25.000.

 

2. Fundargerðir búfjáreftirlitsnefndar á svæði 18, 4. júní og 26. nóv. 2008

Báðar fundargerðirnar eru í þremur liðum. Í síðari fundargerðinni er fjárhagsáætlun búfjáreftirlitsins fyrir árið 2009 afgreidd til sveitarfélaganna. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að hlutur Hörgárbyggðar á árinu verði kr. 527.000.

Fundargerðirnar og fjárhagsáætlunin voru ræddar og afgreiddar.

 

3. Fundargerð framkvæmdastjórnarfundar byggingafulltrúaembættis, 3. des. 2008

Fundargerðin er í þremur liðum. Henni fylgir fjárhagsáætlun embættisins fyrir árið 2009. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að hlutur Hörgárbyggðar á árinu verði 1.439 þús. kr.

Fundargerðin og fjárhagsáætlunin voru ræddar og afgreiddar.

 

4. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2009

Málið er tekið hér á dagskrá að nýju. Það var á dagskrá á fundi sveitarstjórnar 3. des. 2008 (5. mál), en síðan hefur komið fram á Alþingi frumvarp sem heimilar að útsvarsprósenta geti verið allt að 13,28% í stað 13,03% eins og nú er, sbr. bréf, dags. 17. des. 2008, frá samgönguráðuneytinu.

Sveitarstjórn samþykkti að breyta fyrri ákvörðun. Útsvarsprósenta í Hörgárbyggð fyrir árið 2009 verður því 13,28%.

 

5. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009, síðari umræða

Lagður fram listi yfir breytingar sem gerðar hafa verið á þeim drögum að fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og fráveitu Hörgárbyggðar fyrir árið 2009, sem lögð voru fram á fundi sveitarstjórnar 3. des. 2008. Áætlunin gerir ráð fyrir að skatttekjur og heildarrekstrargjöld (nettó) verði 192,5 millj. kr. og að handbært fé á árinu hækki um kr. 1.143 þús.

Endurskoðuð drög að fjárhagsáætlununum Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvar frá fyrri umræðu voru lögð fram.

Sveitarstjórn samþykkti framkomnar breytingar frá fyrri umræðu á drögum að fjárhagsáætlunum Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvar og þannig breyttar voru fjárhagsáætlanirnar samþykktar.

 

6. Yrkjusjóður, kynning

Bréf, ódags., frá stjórn Yrkju þar sem gerð er stutt grein fyrir starfi Yrkjusjóðs.

Lagt fram til kynningar. Ákveðið að bréfið verði kynnt skólastjórnendum sérstaklega.

 

7. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting

Bréf, dags. 10. des. 2008, frá skipulagsdeild Akureyrarbæjar þar sem kynnt er tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. Breytingin gengur út á landfyllingu í Sandgerðisbót.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemd við framkomna breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar.

 

8. Fundargerð stjórnar Eyþings, 8. des. 2008

Fundargerðin er í tíu liðum. Lögð fram til kynningar.

 

9. Trúnaðarmál

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 21:40.