Fundargerð - 16. október 2013
Miðvikudaginn 16. október 2013 kl. 14:15 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.
Þetta gerðist:
1. Fundargerðir heilbrigðisnefndar 5. júní 2013, 4. september 2013, 11. september 2013 og 2. október 2013
Fyrsta fundargerðin er í sjö liðum, auk tólf umsókna um starfsleyfi. Önnur fundargerðin er í sjö liðum. Þriðja fundargerðin eru í þremur liðum, auk fimmtán umsagna og þrjátíuogátta umsókna um starfsleyfi. Síðasta fundargerðin er í sex liðum, auk fimm umsagna og níu umsókna um starfsleyfi. Í öðrum lið hennar er afgreiðsla á fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2014. Hún hljóðar samtals upp á 53,3 millj. kr. Gert er ráð fyrir að hlutur sveitarfélagsins og rekstraraðila í Hörgársveit verði samtals 1,4 millj. kr. Fundargerðirnar varða ekki Hörgársveit með beinum hætti, að undanskildu umsókn um starfsleyfi fyrir skelfiskræktun við Dagverðareyri og Brávelli og fimmti liður síðustu fundargerðar, sem er umsögn um tillögu að deiliskipulagi Skúta.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fjárhagsáætlun Heilbrigðseftirlits Norðurlands eystra fyrir árið 2014. Að öðru leyti gefa fundargerðirnar ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
2. Fundargerð fræðslunefndar 26. september 2013
Fundargerðin er í sex liðum, þ.e. um skipulag yfirstandandi skólaára í Álfasteini og Þelamerkurskóla, afmæli Þelamerkurskóla, eldvarnaskýrslu Álfasteins, auk umræðna um skipulag skólamála og um fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir árið 2014.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
3. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 9. október 2013
Fundargerðin er í sex liðum. Í henni eru gerðar tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu á framkomnum athugasemdum við auglýsta tillögu að svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 og um framkvæmdaleyfi fyrir rofvörnum fyrir Hringveginn í Öxnadal. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um deiliskipulag á Akureyri, um könnun á vilja til að setja samræmdar reglur fyrir flokkun heimilisúrgangs og um ársfund Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga.
Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar, annars vegar um afgreiðslu á framkomnum athugasemdum við auglýsta tillögu að svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024 og hins vegar um framkvæmdaleyfi fyrir rofvörnum fyrir Hringveginn í Öxnadal. Í samræmi við tillögu svæðisskipulagsnefndarinnar og afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins á henni samþykkti sveitarstjórnin fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024.
Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
4. Endurbætur á húsnæði Þelamerkurskóla og skipulag skólamála
Fram kom að vinnuhópur um endurbætur á húsnæði Þelamerkurskóla og skipulag skólamála gerir þá tillögu að nú þegar verði hafin undirbúningur að því að láta gera útboðsgögn fyrir stækkun anddyris, uppsetningu lyftu og viðhald A-álmu Þelamerkurskóla. Þá kom fram að fræðslunefnd, ásamt þeim sem rétt eiga til setu á fundum nefndarinnar, og oddviti fóru nýlega í kynnisferð í Árskógarskóla vegna hugmynda sem fram hafa komið um að grunnskóli og leikskóli sveitarfélagsins verði sameinaðir í húsnæði Þelamerkurskóli.
Sveitarstjórn samþykkti að vinnuhópur um endurbætur á húsnæði Þelamerkurskóla og skipulag skólamála útfæri fyrirliggjandi tillögu um framkvæmdir í Þelamerkurskóla og jafnframt að vinnuhópurinn afli fjárhagslegra, arkitektúrískra og skólapólitískra upplýsinga um fýsileika þess að sameina grunnskóla og leikskóla sveitarfélagsins. Sveitarstjórnin samþykkti að heimila ráðningu starfsmanns til að hafa umsjón með verkefninu.
5. Fjárhagsáætlun fyrir árin 2014-2017, fyrri umræða
Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun fyrir árin 2014-2017. Tillagan gerir ráð fyrir að á árinu 2014 verði rekstrarafgangur 12,6 millj. kr. og að veltufé frá rekstri á árinu verði 37,5 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun áranna 2014-2017 til síðari umræðu.
6. Fagravík, leyfislaus gámur
Rætt um gám í frístundabyggð í Fögruvík sem er án byggingarleyfis og hefur verið breytt í íbúðargám, sem nýttur er til útleigu. Fram kom að komið hafa fram ítrekaðar kvartanir um ónæði af veru fólks í honum.
Sveitarstjórn samþykkti að veita umráðamanni gáms í Fögruvík, sem veitt var stöðuleyfi fyrir í eitt ár þann 6. júlí 2010, frest til 31. janúar 2014 til að fjarlægja hann.
7. Hjalteyri ehf., beiðni um viðræður um endurskoðun á skuldabréfi
Lagt fram tölvubréf, dags. 26. september 2013, frá Hjalteyri ehf., þar sem óskað er eftir viðræðum um endurskoðun á skilmálum skuldabréfs, sem gefið var út vegna kaupa á verksmiðjubyggingunum á Hjalteyri.
Sveitarstjórn samþykkti að verða ósk Hjalteyrar ehf. um viðræður um endurskoðun á skilmálum skuldabréfs.
8. Hjalteyri, aðstaða fyrir stýrishús
Lagt fram tölvubréf, dags. 7. október 2013, frá Víði Björnssyni, þar sem óskað er eftir aðstöðu á Hjalteyri fyrir stýrishús sem verið er að endurbæta og breyta.
Sveitarstjórn samþykkti, sem umráðandi lands, að stýrishús báts verði sett niður tímabundið fyrir austan verksmiðjubyggingarnar á Hjalteyri, með fyrirvara um samþykki byggingarnefndar.
9. Staðartunga, umsókn um ljósastaura við heimreið
Lögð fram umsókn, dags. 4. september 2013, um ljósastaura við heimreið að nýju íbúðarhúsi í Staðartungu.
Sveitarstjórn samþykkti að ljósastaurar verði settir við heimreið að nýju íbúðarhúsi í Staðartungu í samræmi við reglur sveitarfélagsins um ljósastaura við heimreiðar.
10. Sameining heilbrigðisstofnana
Lagt fram bréf, dags. 25. september 2013, frá velferðarráðuneytinu þar sem gerð er grein fyrir því að ráðherra stefni að sameiningu tiltekinna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þar á meðal að í heilbrigðisumdæmi Norðurlands verði eftirtaldar stofnanir sameinaðar: Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilsgæslustöðin Dalvík og Heilsugæslustöðin á Akureyri.
Sveitarstjórn gerði eftirfarandi samþykkt:
Sveitarstjórn Hörgársveitar er mótfallin því að Heilsugæslustöðin á Akureyri verði sameinuð stofnunum utan héraðs. Stofnunin gegnir afar mikilvægri grunnþjónustu við íbúana, sem ætíð verður að vera tryggð, og leita verður annara leiða við framkvæmd hennar.
11. Laugareyri, skýrsla um jarðhita
Lögð fram skýrsla sem gerð er af Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), dags. í október 2013, um jarðhita og berglög í Laugareyri í Hörgárdal, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. apríl 2012. Niðurstaða skýrslunnar er að æskilegt sé að bæta við segulmælingum sunnan og austan við Laugareyri og að stækka svæðið sem hitamælingar í jarðvegi ná yfir. Þá kemur fram að áður en til þess kemur að staðsetja djúpa rannsóknarholu, sem gæti jafnframt orðið vinnsluhola ef hún heppnast, þarf að bora nokkrar könnunarholur í innanverðum Hörgárdal m.a. til að kanna nákvæmlega hitadreifingu í berggrunninum.
Sveitarstjórn samþykkti að óskað verði eftir viðræðum við ÍSOR, Norðurorku og Orkusjóð um viðbótarathuganir á möguleikum þess að vinnanlegur jarðhiti finnist í framanverðum Hörgárdal.
12. Alþingi, fundur með fjárlaganefnd
Lagt fram bréf, dags. 26. september 2013, frá Alþingi þar sem boðið upp á fund með fjárlaganefnd.
Sveitarstjórn samþykkti að þiggja framlagt boð um fund með fjárlaganefnd Alþingis og að hann verði með fjarfundarfyrirkomulagi.
13. Dysnesspilda, umsókn um framlengingu samnings um beitarafnot
Lagt fram tölvubréf, dags. 4. október 2013, frá Freydís Dönu Sigurðardóttur o.fl. þar sem óskað er eftir að gildandi samningur um beitarafnot á Dysnesspildu verði framlengdur til næsta sumars.
Sveitarstjórn samþykkti að að gildandi samningur um beitarafnot á Dysnesspildu verði framlengdur til 1. júní 2014.
14. Æðarvarp Ósi, umsókn til að nota hljóðdeyfi á byssu
Lagt fram bréf, ódags., frá Sigurði Pálssyni þar sem óskað eftir staðfestingu, vegna umsóknar til sýslumanns, á nauðsyn fyrir að nota hljóðdeyfi á byssu í æðarvarpinu á Ósi, sbr. 38. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Sveitarstjórn samþykkti að staðfest yrði að ekkert sé því til fyrirstöðu að hljóðdeyfir á byssu sé notaður í æðarvarpinu í Ósi.
15. Varpholt-Dagverðareyri, reiðleið, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 13. október 2013, frá Ólafi Aðalgeirssyni o.fl. þar sem óskað er eftir styrk til efniskaupa til lagfæringa á reiðleið frá Varpholti að Dagverðareyri.
Sveitarstjórn samþykkti að veittur verði 200 þús. kr. styrkur til lagfæringa á reiðleiðinni Varpholt-Dagverðareyri, sem komi til greiðslu á árinu 2014.
16. Bifreiðamál
Fram kom að verulegt viðhald á bifreið sveitarfélagsins er fyrirsjáanlegt á næstunni. Fram kom að samskonar bifreið af yngri árgerð og mun minna ekinn er fáanleg fyrir ásættanlegt verð.
Sveitarstjórn samþykkti að heimila, í samræmi við umræður á fundinum, að keypt verði bifreið fyrir þjónustustöð.
17. Landbyggðin lifi, styrkbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 2. október 2013, frá samtökunum Landsbyggðin lifi þar sem sótt er um styrk vegna starfsemi samtakanna.
Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.
18. Vinstri Hægri Vinstri, styrkbeiðni
Lagt fram tölvubréf, dags. 10. október 2013, frá leikhópi sem óskar eftir styrk að til að sýna leikritið Vinstri Hægri Vinstri í Þelamerkurskóla.
Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.
19. Menningarfélagið Hof, aðalfundarboð
Lagt fram bréf, dags. 1. október 2013, frá Menningarfélaginu Hofi, þar sem boðað er til aðalfundar félagsins.
Sveitarstjórn samþykkti að oddviti og sveitarstjóri fari með atkvæði sveitarfélagsins á fundinum.
20. Hólahólar og Hóladalur, friðlýsing
Lögð fram drög að auglýsingu um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals, dags. 14. október 2013. Fram kom að viðræður sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar hafa farið fram um efni auglýsingarinnar, sbr. 2. tl. í fundargerð sveitarstjórnar 18. september 2013.
Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu málsins.
21. Þrastarhóll, breyting á bæjarnafni
Lagt fram bréf, dags. 11. október 2013, frá Vilborgu Pedersen, þar sem óskað er eftir samþykki fyrir því að bæjarnafni Þrastarhóls I verði breytt í Þrastarhól 2.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að bæjarnafni Þrastarhóls I verði breytt í Þrastarhól 2.
22. Trúnaðarmál