Fundargerð - 16. mars 2010
Þriðjudaginn 16. mars 2010 kl. 13:00 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á skrifstofu Hörgárbyggðar í Þelamerkurskóla. Allir fjallskilanefndarmennirnir mættir og að auki Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri og Árni Arnsteinsson varaoddviti.
Eftirfarandi bókað á fundinum:
1. Borist hefur bréf frá nefnd þeirri, sem falið var af Eyþingi að endurskoða fjallskilasamþykkt fjallskilaumdæmisins, bréfinu fylgja drög að nýrri fjallskilasamþykkt. Óskað eftir umsögn sveitarstjórna um þau.
2. Farið var yfir drögin grein fyrir grein og gerðar eftirfarandi tillögur að breytingum:
· Við 3. gr. í stað ,,Þá skal kjósa fjallskilastjóra í hverri fjallskiladeild, sem er framkvæmdastjóri fjallskilanefndar, eða sveitarstjórnar eftir því sem við á, varðandi fjallskilamál komi ,,Í hverri fjallskiladeild skal vera fjallskilastjóri sem hefur yfirumsjón með öllum fjallskilamálum deildarinnar
· Við 14. gr. í stað svohljóðandi upphafs greinarinnar ,,Í síðasta lagi viku fyrir göngur skal tilkynning um gangnaskyldu manna send út. Sveitarstjórn hefur þá ásamt fjallskilastjóra lokið við að raða gangnadagsverkum og öðrum áætluðum fjallskilakostnaði niður á fjáreigendur í fjallskiladeildinni og aðra þá er nota þar upprekstrarland á því ári komi eftirfarandi nýtt upphaf greinarinnar ,,Eigi síðar en 15. júlí ár hvert skal auglýsa dagsetningu gangna komandi hausts. Fjallskilastjóri skal raða gangnadagsverkum og öðrum áætluðum fjallskilakostnaði niður á fjáreigendur í fjallskiladeildinni og aðra þá er nota þar upprekstrarland á því ári og skal tilkynning um gangnaskyldu manna send út í síðasta lagi 10 dögum fyrir gangnadag Greinin helst svo óbreytt til loka frá og með,, Raða skal dagsverkum niður
· Varðandi 26. gr. vísar fjallskilanefnd því til sveitarstjórnar hvort Gloppurétt skuli áfram tilgreind í fjallskilasamþykkt sem aukarétt.
· Við 30. gr. er lagt til að í eftirfarandi tilvitnun í drögin verði orðinu sveitarfélags breytt í fjallskiladeildar ,,Heimilt er að brennimerkja númer lögbýlis eða eiganda, sýslutákn og númer sveitarfélags á horn
Fleiri athugasemdir ekki bókaðar og fundi slitið kl. 16:20.