Fundargerð - 16. febrúar 2011

Miðvikudaginn 16. febrúar 2011 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jón Þór Benediktsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Menntamálaráðuneytið, lok afskriftartíma grunnskóla

Lagður fram texti bréfs mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þar sem gerð er grein fyrir því að 1. desember 2010 lauk afskriftartíma ríkissjóðs í grunnskólahúsnæði, þannig að frá þeim tíma eru sveitarfélögin 100% eigendur þeirra. Þá var lögð fram drög að yfirlýsingu til ráðuneytisins um að skólahúsnæði Þelamerkurskóla hafi frá byrjun verið í samfelldri nýtingu sem slíkt.

Sveitarstjórn samþykkti að gengið verði frá yfirlýsingu um samfellda nýtingu Þelamerkurskóla sem skólahúsnæðis í samræmi við drög þar að lútandi og að eftir atvikum fram fari viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um málið.

 

2. Þelamerkurskóli, húsnæðismál

Teknar fyrir að nýju hugmyndir um breytingar á húsnæði Þelamerkurskóla sem miða því að bæta gengi fatlaðra, færa starfsemi skóla úr heimavistarálmu, svo að hægt sé að nýta hana til annarrar starfsemi, o.fl., sjá 7. lið fundargerðar sveitarstjórnar 19. janúar 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að fram fari fullnaðarhönnun þeirra breytinga sem fyrirliggjandi hugmyndir um breytingar á húsnæði Þelamerkurskóla gera ráð fyrir og gerð útboðsgagna vegna framkvæmda við þær. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að hafin verði undirbúningur að gerð deiliskipulags fyrir skólasvæðið.

 

3. Þriggja ára áætlun sveitarsjóðs 2012-2014, síðari umræða

Fram fór síðari umræða um drög að þriggja ára áætlun sveitarsjóðs 2012-2014. Fyrri umræða fór fram 19. janúar 2011 (sjá 8. lið fundargerðar sveitarstjórnar). Skv. drögunum er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur sveitarsjóðs árið 2012 verði 17.200 þús. kr., árið 2013 16.100 þús. kr. og 14.900 þús. kr. árið 2014. Á þessum tíma er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 85 millj. kr., en að langtímalán verði ekki tekin á tímabilinu. Þá er gert ráð fyrir að handbært fé sveitarsjóðs í árslok 2014 verði 41.390 þús kr.

Sveitarstjórn samþykkti drög að þriggja ára áætlun sveitarsjóðs 2012-2014 eins og þau voru lögð fram.

 

4. Stofnun þjónustustöðvar

Umræður fóru fram um stofnun þjónustustöðvar fyrir sveitarfélagið, sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árið 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að hafinn verði undirbúningur að stofnun þjónustustöðvar fyrir sveitarfélagið í samræmi við umræður á fundinum.

 

5. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

Lögð fram umsókn, ódags., um námsvist á skólaárinu 2011-2012 í Giljaskóla fyrir nemanda úr sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti að orðið verði við erindinu.

 

6. Meðhöndlun dýrahræa og sláturúrgangs

Tekin fyrir að nýju meðhöndlun dýrahræa og sláturúrgangs, sem áður var á dagskrá sveitarstjórnar 15. desember 2010. Lagt fram tölvubréf, dags. 4. febrúar 2011, frá Flokkun Eyjafjörður ehf. þar sem gerð er grein fyrir tilboði sem borist hefur í söfnun og flutning dýrahræa og sláturúrgangs í áhættuflokki 1-2.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrir sitt leyti þátttöku í sameiginlegu verkefni sveitarfélaganna í Eyjafirði um söfnun og flutning á dýrahræum og sláturúrgangi í áhættuflokki 1-2 í samræmi við fyrirliggjandi tilboð þar að lútandi.

 

7. Grund, ósk um kaup

Lagt fram bréf, dags. 20. janúar 2011, frá Hans Pétri Kristjánssyni, f.h. landeiganda á Ytri-Reistará, þar sem óskað er eftir viðræðum um kaup á jörðinni Grund. Farið var yfir upplýsingar um hvernig farið er með samsvarandi mál.

Sveitarstjórn samþykkti að gengið verði til viðræðna við ábúendur á Ytri-Reistará um kaup á hluta af jörðinni Grund, í samræmi við umræður á fundinum.

 

8. Samþykkt um hundahald, fyrri umræða

Lögð fram til fyrri umræðu drög að samþykkt um hundahald í Hörgársveit, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að gerðar verði tilteknar breytingar á fyrirliggjandi drögum að samþykkt um hundahald í Hörgársveit og þeim þannig vísað til síðari umræðu.

 

9. Umhverfisráðuneytið, gildistaka mannvirkjalaga

Lagt fram bréf, dags. 31. janúar 2011, frá umhverfisráðuneytinu þar sem vakin er athygli á ákvæðum nýrra laga um mannvirki, sem að nokkru leysa af hólmi skipulags- og byggingarlög frá 1997, varðandi störf byggingarfulltrúa og byggingarnefnda. Meginatriðið í því sambandi er að skipan byggingarnefnda skv. eldri lögum er úr gildi fallin.

Lögð fram drög að breyttum samningi um rekstur byggingafulltrúaembættis fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp, þar sem tekið er tillit til hinna nýju lagaákvæða. Þar er gert ráð fyrir að áfram sé til staðar byggingarnefnd fyrir sveitarfélögin, en í stað afgreiðsluhlutverks hafi hún eftirlits- og stuðningshlutverk.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti breyttan samning um rekstur byggingafulltrúaembættis fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp í samræmi við fyrirliggjandi drög þar að lútandi.

 

10. Skógarhlíð 27, umsögn um umsókn um rekstrarleyfi

Lagt fram bréf, dags. 1. febrúar 2011, frá Sýslumanninum á Akureyri þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn um rekstrarleyfi skv. gististaðaflokki I fyrir íbúð í Skógarhlíð 27.

Sveitarstjórn samþykkti að hennar hálfu verði ekki gerð athugasemd við rekstrarleyfis I í Skógarhlíð 27.

 

11. Amtmannssetrið, framtíð Möðruvalla

Lagt fram bréf, dags. 7. febrúar 2011, frá Amtmannssetrinu á Möðruvöllum þar sem óskað er eftir að kannaður verði áhugi á að aðsetur sveitarstjórnar verði á Möðruvöllum og að skipuð verði nefnd til að fjalla um framtíðaráform uppbyggingar á Möðruvallastað.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að ræða við bréfritara um erindi bréfsins.

 

12. Efri-Rauðilækur, umsókn um heimreiðarlýsingu

Lagt fram bréf, dags. 11. febrúar 2011, frá Baldvin Ara Guðlaugssyni, þar sem óskað er eftir uppsetningu heimreiðarlýsingar fyrir Efri-Rauðalæk.

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði hafnað.

 

13. “Góðverk dagsins”, umsókn um styrk

Lagt fram bréf, dags. 11. febrúar 2011, frá Bandalagi íslenskra skáta þar sem sótt er um styrk til að halda Góðverkadaga 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði hafnað.

 

14. UMFÍ, unglingalandsmót 2013 og 2014

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 28. janúar 2011, frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) þar sem gerð er grein fyrir því að ákveðið hafi verið að auglýsa eftir umsóknum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd unglingalandsmóta 2013 og 2014. Einnig lagt fram til kynningar bréf, dags. 15. febrúar 2011, frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) þar sem gerð er grein fyrir því að ákveðið hafi verið að auglýsa eftir umsóknum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd landsmóts 50+ árið 2011.

 

15. Fundargerð stjórnar Eyþings, 31. janúar 2011

Fundargerðin er í ellefu liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

16. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 3. febrúar 2011

Fundargerðin er í 22 liðum. Í 10. lið hennar er gerð grein fyrir umsögn um tillögu að gjaldskrá fyrir sorphirðu og förgun úrgangs í Hörgársveit.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

17. UMSE, styrkumsókn vegna ársþings

Lagt fram bréf, dags. 14. febrúar 2011, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) þar sem óskað er eftir styrk til að halda 90. ársþing UMSE þann 5. mars 2011 í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn samþykkti að ársþingi UMSE 2011 verði lagt til húsnæði, sambandinu að kostnaðarlausu, og að þinggestum verði boðið upp á veitingar.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:45.