Fundargerð - 15. september 2004
Miðvikudaginn 15. september 2004 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 56. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. Engir áheyrnarfulltrúar mættu.
Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Óskaði fundarstjóri eftir að bæta á dagskrá undir 1. lið fundargerðum frá skólanefnd, fjallskilanefnd, framkvæmdanefnd, stjórn Íþróttamiðstöðvarinnar og byggingarnefndar. Einnig að undir 9. lið verði bætt við til kynningar bréfi frá nefnd um framtíð Gása og minnispunktar um breytingar á barnaverndarreglum.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Fundargerðir
a. Fundargerð skipulagsnefndar frá 25.08.2004
Upplýsingar hafa komið frá Skipulagsstofnun um að gera þarf deiliskipulag í Fögruvík áður en umbeðið byggingaleyfi verði veitt fyrir tveim sumarhúsum. Fundargerðin afgreidd að öðru leyti án athugasemda
b. Fundargerð skólanefndar frá 9. september 2004.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
c. Fundargerð fjallskilanefndar frá 8. september 2004. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
d. Fundargerð framkvæmdanefndar skólans frá 31. ágúst 2004.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir þá kröfu að gengið verði frá rekstrarsamningi milli sveitarfélaganna sem fyrst og er æskilegt að samningurinn liggi fyrir áður en endanlega verður gengið frá fjárhagsáætlun fyrir Þelamerkurskóla. Fundargerðin var að öðru leyti samþykkt.
e. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar frá 8. september 2004
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
f. Fundargerð bygginganefndar frá 14. september 2004.
Erindi úr Hörgárbyggð er frá Lovísu Snorradóttur um að byggja sumarhús úr timbri á lóð B á jörðinni Skipalóni. Leyfið var samþykkt með fyrirvara um samþykki skipulagsstofnunar. Fundargerðin var síðan afgreidd án athugasemda.
2. Erindi frá Eyjafjarðarsveit um breytingu á svæðisskipulagi þ.e. um breytingu á reiðvegi og breytingu á landnotkun. Einnig breyting á deiliskipulag um Djúpadalsvirkjun.
Þar kemur fram að umferð ríðandi manna og hesta flytjist eftir því sem frekast er kostur af þjóðvegum og öðrum fjölförnum akvegum á sérstaka reiðvegi og að umferðaröryggissjónarmið ráði mestu um val á leiðum fyrir hestaumferð um leið og þess sé gætt að skerða ekki til muna þýðingarmikil nytjalönd bænda og aðgengi þeirra að eignarlöndum sínum. Erindið Eyjafjarðarsveitar um breytingar á svæðisskipulagi var samþykkt.
3. Frá félagsmálaráðuneytinu reglur um gjaldskrá um félagslega heimaþjónustu, dags. 18. ágúst 2004. Sveitarstjóra falið að svara ráðuneytinu.
4. Stöðuleyfi á húsi í Mið-Samtúni.
Erindi frá Brynjólfi Snorrasyni um að setja niður límtréhús í M-Samtúni sem notað verður til að smíða á frumgerðum á rafmagnsbúnaði og til mælinga á rafmagni. Stöðuleyfið var samþykkt til þriggja mánaða til loka nóvember.
5. Leigusamningur um land fyrir íbúðarhús í landi Einarsstaða.
Sveitarstjórn samþykkti að staðfesta leigusamning um 2.771 fm. lóð í landi Einarsstaða.
6. Meindýr og meindýraeyðing.
a) Afrit af bréfi til Félags meindýraeyða frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.
Þar kemur fram að kvörtunum, vegna aðila sem auglýsa garðaúðun og meindýraeyðingu án þess að þeir hafi til þess tilskilin leyfi og séu oft á tíðum að stunda svokallaða svarta starfsemi, skuli beint til hlutaðeigandi skattstjóra.
b) Bréf frá UST um skil á skýrslum um refa- og minkaveiðar.
Þar kemur fram að uppgjörstímabil vegna refa- og minkaveiða er frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta árs. Skylt er forsvarsmönnum sveitarfélaga er sjá um framkvæmd refa- og minkaveiða, að senda veiðistjóra skýrslu um veiðina ásamt grenjaskrá, upplýsingum um ný greni og reikningsyfirlit innan sex vikna frá lokum uppgjörsveiðitímabils. Sveitarstjóra falið að senda veiðistjóra viðeigandi skýrslu.
7. Bréf frá fjárlaganefnd Alþingis um viðtalstíma við nefndina.
Þar er sveitarstjórnarmönnum gefin kostur á viðtalstíma við nefndina í gegn um fjarfundabúnað miðvikudaginn 29. september nk. Sveitarstjóra falið að hafa samráð við sveitarfélögin hér á svæðinu og leggja áherslu á málefni jöfnuarsjóðs og rekstrarafkomu grunnskólanna og leggja fyrir nefndina.
8. Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, tilkynning varðandi fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem haldin verður 1.- 2 nóvember 2004 á Nordica Hotel. Ráðstefnan er opin öllum sveitarstjórnarmönnum. Sveitarstjóri mun að óbreyttu sækja ráðstefnuna.
9. Efni lagt fram til kynningar.
a. Greinargerð frá Hrauni ehf. um endurbætur og breytingar. Lagt
fram til kynningar.
b. Gásir starfshópur um uppbyggingu þjónustu- og kynningar-
aðstöðu á svæðinu. Lagt fram til kynningar.
c. Puntar um breytingar á barnaverndarreglum.
10. Styrkbeiðnir.
a. Frá Einari Mána Friðrikssyni.
Þar sem hann óskar eftir styrk til að sækja 10 vikna námskeið í
hljóðtækni í Danmörku á hausti komanda. Erindinu hafnað.
b. Frá framkvæmdasjóðs Skrúðs.
Vegna útgáfu bókar um skrúðgarðinn á Núpi í Dýrafirði. Erindinu
hafnað.
11. Bréf frá UMFÍ um rekstur Ungmenna- og tómstundabúða að Laugum í Dalasýslu.
Til kynningar.
12. Kynning í riti um Norðurland.
Samþykkt að kaupa heilsíðuauglýsingu í ritið og endurselja til þeirra aðila sem hafa áhuga á að auglýsa starfsemi sína hér á svæðinu. Sveitarstjóra falin að umsjón verkefnisins.
13. Endurskoðun fjárhagsáætlunar og starfssemi á skrifstofu.
Sveitarstjóri greindi frá því að gæta þyrfti aðhalds í rekstri og enn væri óljóst hvort áætlun um tekjur myndu standa, þar sem framlög Jöfnunarsjóðs vega þar svo þungt. Þá lagði sveitarstjóri fram tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun ársins. Ljóst er að hækka þarf rekstrargjöld (vegna fræðslumála, félagslegrar þjónustu, sameiginlegs kostnaðar, atvinnumála o.fl. Ákveðið að færa hluta af áætluðu framkvæmdafé til reksturs og eins að færa á fjármagn á milli liða. Þá þarf að áætla meira fé í afskriftir og fjármagngjöld ). Endanlega verður gengið frá endurskoðaðri áætlun á næsta fundi.
14. Bréf frá Eyþingi um stjórnunarnám.
Til kynningar
15. Skýrsla Eyþings um sameiningarmál, til nefndar um sameiningu sveitarfélaga.
Til kynningar
16. Trúnaðarmál.
Ekkert bókað.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23.45