Fundargerð - 15. október 2008

Miðvikudaginn 15. október 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 31. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

               

1. Dysnes, umskipunarhöfn

Á fundinn kom Axel Grettisson, oddviti Arnarneshrepps, til að kynna framkomnar hugmyndir um stóra umskipunarhöfn við Dysnes.

 

2. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026, afgreiðsla

Tillaga að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026 var auglýst skv. 17. gr.  skipulags- og byggingarlaga þann 14. júlí 2008. Athugasemdafrestur rann út 8. sept. sl. Lögð voru fram sex bréf sem bárust með athugasemdum á auglýsingartímanum, auk bréfs Gígju Snædal o.fl., dags. 14. apríl 2008, sem sveitarstjórn samþykkti 14. maí 2008 að farið skyldi með sem athugasemd við aðalskipulagstillöguna. Skipulags- og umhverfisnefnd hefur fjallað um bréfin og gert tillögu um afgreiðslu þeirra.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulags- og umhverfisnefndar um afgreiðslu á framkomnum athugasemdum við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026.

Jafnframt samþykkir sveitarstjórn framlagða tillögu að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026 með þeim breytingum sem felast í ofangreindri afgreiðslu á framkomnum athugasemdum og felur sveitarstjóra að senda hana, með áorðnum breytingum, til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu, sbr. 5. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Jóhanna María Oddsdóttir tók ekki þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál.

 

3. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 29. sept. 2008

Fundargerðin er í þremur liðum. Í fyrsta lið fundargerðarinnar er tekið fyrir tölvubréf, dags. 26. sept. 2008, frá Ólafi Valssyni, þar sem óskað er eftir að á aðalskipulagstillögu verði gert ráð fyrir frístundabyggð með allt að 10 húsum í landi Hóla. Skipulags- og umhverfisnefnd taldi ekki fært að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu að svo stöddu. Annar liður fundargerðarinnar er afgreiddur í 2. dagskrárlið þessa fundar.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

4. Fundargerðir heilbrigðisnefndar, 10. og 30. sept. 2008

Fyrri fundargerðin er í þrettán liðum. Henni fylgir bréf, dags. 12. sept. 2008, frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, þar sem gerð er grein fyrir fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2009, þar kemur fram að áætlað framlag Hörgárbyggðar er kr. 897.190 á árinu 2009.

Seinni fundargerðin er í tíu liðum. Þar kemur fram að vatnsveitan Búðarnesi hefur fengið endurnýjun á starfsleyfi.

Fundargerðirnar ræddar og afgreiddar.

 

5. Fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulags 15. sept. 2008

Fundargerðin er í tveimur liðum. Fundargerðinni fylgir samantekt eftir skipulagsráðgjafa svæðisskipulagsins, þar sem m.a. er sérstaklega dregin fram fjögur atriði sem sveitarstjórnir þurfi að taka afstöðu til áður en vinnunni við gerð svæðisskipulagsins er framhaldið:

Hafnamál í víðu samhengi

Stóriðnaður, þ.e. hvort skipulag á Dysnesi á að vera óbreytt

Stefna um landbúnaðarland

Stefna um byggðaþróun.

Sveitarstjórn telur að best sé að halda óbreyttri stefnu SSE-98 um höfn á Dysnesi á meðan aðrir kostir eru óljósir eða lítt skilgreindir. Einnig telur sveitarstjórn að sameiginleg stefna um landbúnaðarland eigi heima í svæðisskipulaginu.

       

6. Fundargerð byggingarnefndar, 7. okt. 2008

Fundargerðin er í tíu liðum. Liður 8 varðar Skógarhlíð 12, sem er svar við bókun sveitarstjórnar 20. ágúst 2008.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir kröfu um að Skógarhlíð 12, Lónsbakka, verði gert fokhelt  skv. lýsingu ÍST 51:2001 innan þriggja mánaða, þ.e. í síðasta lagi 16. janúar 2009. Verði svo ekki munu verða lagðar dagsektir á byggjanda hússins, sbr. gr. 14.3 í byggingarreglugerð. Fjárhæð dagsektanna skulu nema 35.000 kr. á dag frá þeim fresti sem reglugerðin kveður á um.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

7. Fundargerð framkvæmdastjórnar byggingafulltrúaembættis, 8. okt. 2008

Fundargerðin er í fjórum liðum. 

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

8. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 10. okt. 2008

Fundargerðin er í sex liðum. Í 4. lið fundargerðarinnar er tekið fyrir bréf, dags. 8. okt. 2008, frá verktaka endurbóta á sundlauginni, þar sem óskað er eftir að greiddar verði verðbætur á eftirstöðvar samningsupphæðarinnar, þrátt fyrir annað í verksamningi.

Fundargerðin rædd og afgreidd, fyrir utan 4. lið sem eftir umræður var vísað aftur til stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar, til efnislegrar skoðunar.

 

9. Yfirlit um rekstur og efnahag

Lagt fram yfirlit um rekstur sveitarsjóðs fyrstu tvo ársþriðjunga ársins 2008 og um fjárhag hans þann 31. ágúst 2008.

 

10. Álfasteinn, starfsmannahald

Lagt fram minnisblað, dags. 10. okt. 2008, um þörf á hækkun á heimiluðum stöðugildum á Álfasteini vegna fjölgunar barna, en fjöldi þeirra er kominn í 30 börn.

Sveitarstjórn samþykkir að stöðugildum fjölgi um 0,25% frá og með 16. október 2008.

 

11. Menningar- og sögutengd starfsemi

Lagt fram minnisblað, dags. 14. sept. 2008, þar sem m.a. er gerð grein fyrir tillögu um að efna til samstarfs um rekstur menningar- og sögutengdra “fyrirtækja” í Hörgárbyggð og nágrenni.

Sveitarstjórn samþykkti að boða til undirbúningsfundar um hugsanlegt samstarfs um rekstur menningar- og sögutengdrar starfsemi. Þ.e. Amtmannssetrið ses, Arnarneshreppur, Gásakaupstaður og Hraun í Öxnadal. Gefi slíkur fundur tilefni til að halda málinu áfram verði boðaður fundur allra aðila sem það varðar með það í huga að þá verði formlega stofnað til samstarfsvettvangs um rekstur menningar- og sögu tengdrar starsemi í Arnarneshreppi og Hörgárbyggð.

 

12. Garnaveikibólusetning 2008, tilboð

Lagt fram tilboð, dags. 7. okt. 2008, frá Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar ehf. í garnaveikibólusetningu á líflömbum og hundahreinsun 2008. Tilboðið gerir ráð fyrir að komugjald verði kr. 2.200 lyf kr. 98 og bólusetningargjald pr. lamb kr. 145. Hundahreinsun er kr. 2.500 þar sem verið er að bólusetja, annars kr. 3.000.

Sveitarstjórn samþykkti tilboðið. Þ.e. sveitarsjóður greiðir komugjald og lyf fyrir garnaveikisbólusetningu.

 

13. Lækjarvellir 1, frestun framkvæmda

Lagt fram tölvubréf, dags. 29. sept. 2008, frá Vélaveri hf., þar sem óskað er eftir að byggingarfrestur í lóðarsamningi Lækjarvalla 1 verði framlengdur um 24 mánuði.

Sveitarstjórn samþykkir að veita umbeðinn frest að teknu tilliti til aðstæðna í þjóðfélaginu.

 

14. Lækjarvellir 6, skil á lóð

Bréf, ódags., frá Jónasi Steingrímssyni og Stefán Jóhannessyni, þar sem þeir óska eftir að skila lóðinni Lækjarvelli 6 og fá endurgreiddan þann hluta gatnagerðargjalds sem greiddur hefur verið. Skv. lögum um gatnagerðargjald ber sveitarfélagi að endurgreiða gatnagerðargjald með verðbótum, ef lóð er skilað. Greitt hafði verið alls kr. 2.220.834.

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

 

15. Skútar/Moldhaugar, rannsóknaleyfi

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. okt. 2008, frá Margréti A. R. Konráðsdóttur, f.h. Þórs Konráðssonar, þar sem óskað er eftir “ótímabundnu rannsóknaleyfi v. námuvinnslu og umhverfismats að Skútum”.

Sveitarstjórn samþykkir að framlengja rannsóknaleyfið til 1. júní 2009.

               

16. Hörgá, efnistaka í landi Steðja og Skriðu

Gerð var grein fyrir fundi fulltrúa Hörgárbyggðar, Veiðifélags Hörgár, landeigenda og verktaka um frágang efnistökusvæðisins við Hörgá í landi Steðja og Skriðu. Fundurinn var 22. sept. 2008.

Framkvæmdaleyfið rennur út  31. desember 2008. Sveitarstjórn samþykktir að þá skuli allt haugsett efni vera burtu ekið og frágangur allur og efnistöku lokið.

 

17. Hraun, umsjónarnefnd fólksvangs

Lagt fram afrit af yfirlýsingu, dags. 10. maí 2007, um stofnun fólkvangs í landi Hrauns. Skv. 4. gr. yfirlýsingarinnar skal umsjón hennar vera í höndum þriggja manna umsjónarnefndar. Hörgárbyggð skipar einn, landeigandi einn og Umhverfisstofnun einn. Óska þarf eftir skipunum landeiganda og Umhverfisstofnunar, samtímis því að Hörgárbyggð skipar sinn fulltrúa. Sveitarstjóra var falið að vera fulltrúi Hörgárbyggðar í nefndinni.

 

18. Strætó bs., nemakort

Bréf, dags. 17. sept. 2008, frá Strætó bs., þar sem sveitarstjórnum er boðið að kaupa nemakort í strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Erindinu hafnað.

 

19. Umboðsmaður barna, ungmennaráð

Bréf, dags. 20. sept. 2008, frá Umboðsmanni barna, þar sem óskað er eftir að svarað sé spurningalista, sem fylgir bréfinu, um ungmennaráð í sveitarfélaginu, sbr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 2007.

Sveitarstjóra falið að svara bréfritara í samstarfi við yfirmenn ÞMS.

 

20. Alþjóðahús á Norðurlandi, beiðni um þjónustusamning

Bréf, dags. 23. sept. 2008, frá Alþjóðahúsi á Norðurlandi ehf., þar sem óskað er eftir að gerður verði þjónustusamningur við Hörgárbyggð. Til kynningar er lagður fram þjónustusamningur Alþjóðahússins við Akureyrarbæ.

Sveitarstjórn samþykkir að gera sambærilegan samning við Alþjóðahús og felur sveitarstjóra að ganga frá slíkum samningi.

 

21. Brunamálastofnun, brunavarnaáætlun

Bréf, dags. 23. sept. 2008, frá Brunamálastofnun, þar sem fram kemur að ekki liggi fyrir brunavarnaáætlun fyrir sveitarfélagið eins og kveðið er á um í 13. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 nr. 2007. Fram kom á fundinum að drög að slíkri áætlun liggja fyrir bæjarstjórn Akureyrar til afgreiðslu.

 

22. Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2008

Bréf, dags. 22. sept. 2008, frá samgönguráðuneytinu, þar sem gerð er grein fyrir fyrsta ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem verður haldinn 17. okt. 2008.

Einnig lagður fram tölvupóstur, dags. 10. okt. 2008, um samráðsfund um áhrif fjármálakreppunnar á sveitarfélögin. Fundurinn verður í Reykjavík sama dag og ársfundurinn.

Lagt fram til kynningar.

 

23. Fundargerð stjórnar Minjasafnsins á Akureyri, 16. sept. 2008

Fundargerðin er í tveimur liðum.

Lögð fram til kynningar

 

24. Fundargerð héraðsráðs, 24. sept. 2008

Fundargerðin er í fimm liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

25. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 8. sept. og 2. okt. 2008

Fyrri fundargerðin er í ellefu liðum. Í fjórða lið hennar kemur fram að lögð hefur verið fram áfangaskýrsla um yfirfærslu á ábyrgð á félagsþjónustu fyrir fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Áfangaskýrslan fylgdi fundargerðinni og stjórnin hvetur sveitarstjórnir til umræðu um hana. Síðari fundargerðin er í níu liðum.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:30.