Fundargerð - 15. nóvember 2004
Mánudagskvöldið 15. nóvember 2004 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson, Stefán L Karlsson og Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar.
Eftirfarandi bókað á fundinum:
1. Fundargerð síðasta fundar undirrituð.
2. Almennar umræður um framkvæmd fjallskila í haust. Ekki er vitað annað en göngur hafi gengið vel allavega hafa ekki borist teljandi kvartanir til fjallskilanefndar. Nokkuð var um að útigengið fé kæmi af fjalli í haust og merki um að sumt væri búið að ganga úti í tvo vetur þar sem komu ómarkaðar veturgamlar kindur af fjalli nú. Þetta útigengna fé skiptist þannig á milli gangnasvæða: 2 kindur komu af Barkárdal, 2 af Flögu- eða Myrkárdal, 4 af Vatnsdalssvæði, 5 af Gloppusvæði og 9 af Þverárdal. Alls eru þetta 22 kindur, 12 hrútar og 10 ær og voru sumar þeirra með lömbum, alls 11 lömb.
3. Farið var yfir þann fjárfjölda sem kom fyrir í Hörgárbyggð úr öðrum sveitarfélögum í haust. Úr Akrahreppi komu um 320 kindur í Gilsrétt, 140 í Þverárrétt og 65 í Hörgárdal. Komu því til rétta í Hörgárbyggð 520 530 kindur úr Akrahreppi. Úr Eyjafjarðarsveit komu 23 kindur til rétta í Hörgárbyggð. Í þessum sveitum kom engin kind fyrir í haust úr Hörgárbyggð.
4. Borist hafa tilkynningar frá gangnastjórum um gangnarof frá eftirtöldum bæjum: Ásláksstöðum 1 dagsverk, Blómsturvöllum 1 dagsverk, Sílastöðum 1 dagsverk og Brakanda 5 dagsverk. Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að þessi gangnadagsverk verði innheimt, samkvæmt a.m. 20 gr. fjallskilasamþykktar. Hluta af þessum dagsverkum tókst að manna og þarf að greiða fyrir þau úr sveitarsjóði. Forsvarsmaður Hrauns í Öxnadal ehf óskaði eftir því við gangnastjóra á Vatnsdal að hann útvegaði mann fyrir félagið í göngurnar og var það gert, því þarf sveitarsjóður að innheimta hjá Hrauni í Öxnadal ehf kr. 9.000 og borga þeim sem gekk þetta dagsverk. Einnig hefur borist tilkynning frá gangnastjóra á Seldal um að frá Akrahreppi hafi vantað þrjá menn í 1. göngur, fyrir það ætti því að innheimta samkvæmt a.m. 20 gr. fjallskilasamþykktar. Fjallskilanefnd vill þó benda á, að samkvæmt beiðni í símaviðtali við fjallskilastjóra Akrahrepps sáu þeir um að sækja það fé sem sást í eftirleitarflugi á Seldal og Almenningi. Fjallskilanefnd leggur því til við sveitarstjórn, að það verði látið mæta gangnarofinu í 1. göngum.
5. Oddviti óskaði eftir að bókað yrði þakklæti hans til fjallskilanefndar fyrir vel unnin störf á árinu.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 00:28.