Fundargerð - 15. ágúst 2007

Miðvikudaginn 15. ágúst 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 16. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Lækjarvellir, deiliskipulag

Bréf, dags. 5. júlí 2007, frá Skipulagsstofnun um deiliskipulag Lækjarvalla, með ábendingum um breytingar á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins. Sveitarstjóri lagði fram nýjan deiliskipulagsuppdrátt þar sem brugðist hefur verið við ábendingunum. Á nýjum uppdrætti hefur verið bætt inn leyfilegu nýtingarhlutfalli lóðanna.

Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsuppdráttinn með áorðnum breytingum.

 

2. RARIK, leyfi fyrir spennistöð

Bréf, dags. 18. júní 2007, frá 26 íbúum við Skógarhlíð þar sem mótmælt er fyrirhugaðri staðsetningu spennistöðvar, sbr. grenndarkynningu sem fram fór skv. fundargerð sveitarstjórnar 16. maí 2007 (13. mál), sjá líka fundargerð sveitarstjórnar 20. júní 2007 (30. mál). Í framhaldi af mótmælum íbúa á svæðinu leggur Skipulags- og umhverfisnefnd til á fundi sínum 8. ágúst 2007 að skoðaðir verði aðrir staðir fyrir umrædda spennistöð í samráði við RARIK og þá t.d. nær rotþróarsvæðinu. Sveitarstjórn leggur því til að spennistöðin verði færð sem næst rotþróarsvæðinu. Þá er sá möguleiki til í stöðinni til vara að spennistöðin verði á sama stað og hún er núna, en sá kostur hefur umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarfélagið. Nauðsynlegt er að koma núverandi spennistöð í þar til gert hús, þar sem núverandi frágangur spennistöðvarinnar er óásættanlegur. Þá mun RARIK með þessu, vera að bæta verulega dreifikerfið og þjónustu við íbúana á svæðinu, vegna viðvarandi spennufalls.

 

3. Samþykkt um gatnagerðargjald, drög

Lögð fram drög að samþykkt um gatnagerðargjald, sem byggir á nýjum lögum um gatnagerðargjald, sem gerð er eftir fyrirmynd frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Skipulags- og umhverfisnefnd afgreiddi samþykktina fyrir sitt leyti á fundi sínum 8. ágúst 2007. Síðan nefndin afgreiddi drögin hefur nýtingarhlutfall verið ákveðið fyrir lóðir við Lækjarvelli og er það heldur hærra en nefndin gerði ráð fyrir í tillögu sinni um gatnagerðargjald fyrir atvinnuhúsnæði. Sveitarstjórn samþykkti að lækka viðkomandi prósentu, úr 6% í framlögðum drögum í 5,5% og jafnframt að fella niður 8. gr., um áfangaskipti framkvæmda, þar sem álagning gatnagerðargjaldsins er ekki tengt framkvæmdastigi, heldur útgáfu lóðarleigusamnings og byggingarleyfis.

Með þessum breytingum samþykkti sveitarstjórn framlögð drög að samþykktum gatnagerðargjalds fyrir Hörgárbyggð.

 

4. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 8. ágúst 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Þrír þeirra voru til afgreiðslu fyrr á fundinum. Samþykkt var erindi frá Þresti Sigurðssyni f.h. AJ Byggis um að fá viðbótarbyggingafrest á lóð nr. 14 við Skógarhlíð til 15. nóvember 2007 sbr. 3. lið í fundargerð nefndarinnar. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd.

 

5. Fundargerð leikskólanefndar, 8. ágúst 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Ákveðið var að láta gera úttekt á klæðningunni á nýja hlutanum á leikskólanum þar sem skemmdir hafa komið fram og er klæðningin brotin á þrem stöðum. Klæðningin átti að vera viðhaldsfrí og er því óeðlilegt að hún þoli ekki eðlilegt álag. Fundargerðin rædd og var lið nr. 2. frestað til næsta fundar.  

 

6. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 14. ágúst 2007

Fundargerðin er í fimm liðum. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

7. Fundargerð Héraðsnefndar Eyjafjarðar 4. júní 2007

Fundargerðin er í fimmtán liðum. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

8. Fundargerð héraðsráðs Eyjafjarðar, 19. júní 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

9. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, 11. júní 2007

Fundargerðin er í níu liðum. Liður 8 h varðar Hlíðarskóla í Hörgárbyggð. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

10. Fundargerð skólanefndar Tónlistarskóla Eyjafjarðar, 19. júní 2007

Fundargerðin er í tveimur liðum. Henni fylgir kostnaðarskipting haustannar 2007. Kostnaður Hörgárbyggðar ágúst – desember er kr. 483.691 pr. mán. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

11. Fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulags Eyjafjarðar 1998-2018, 16. júlí 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Lögð fram til kynningar.

 

12. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, 17. júlí 2007

Fundargerðin er í ellefu liðum. 10. liður varðar byggingu vélageymslu á Þverá og 11. liður varðar byggingu fjárhúss og hesthúss á Skriðu. Erindin voru samþykkt. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

13. Lausaganga búfjár við veg nr. 818

Lagt fram minnisblað, dags. 30. júlí 2007, um könnun á fjallgirðingum í Kræklingahlíð, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 5. sept. 2006 (3. mál).

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Að gefnu tilefni mun sveitarstjórn benda tveim tilgreindum landeigendum í Kræklingahlíð á ákvæði fjallskilasamþykktar um að fjallgirðingar skulu vera fjárheldar. Einnig hafa borist kvartanir um lélegar fjallsgirðingar víðar í sveitarfélaginu og er viðkomandi landeigendum einnig bent á sama ákvæði fjallskilasamþykktar.

 

14. Ástand vegar nr. 818

Bréf, dags. 20. júní 2007, frá 16 manns sem eiga heimili við veg nr. 818, Hlíðarveg, þar sem vakin er athygli á ástandi vegarins.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn telur mikilvægt að ráðist verði í endurbætur á vegi nr.  818 sem fyrst og að við þær verði haft í huga að hlutverk hans hefur breyst mjög á síðustu árum. Rætt hefur verið við Vegagerðina um veginn í tengslum við gerð aðalskipulags fyrir Hörgárbyggð.

 

15. Sparisjóður Norðlendinga, möguleg sameining við Byr-sparisjóð

Bréf, dags. 30. júlí 2007, frá formanni stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, þar sem gerð er grein fyrir viðræðum um mögulega sameiningu Byrs-sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga. Lagt fram til kynningar.

 

16. Snjómokstur í Skógarhlíðarhverfi

Ákveðið var að bjóða út snjómokstur í Skógarhlíðarhverfi fyrir næsta vetur.

 

17. Almenningssamgöngur í Eyjafirði

Bréf, dags. 26. júní 2007, frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar, þar sem óskað er eftir að almenningssamgöngur í Eyjafirði verði teknar til umræðu þannig að fram komi hver afstaða hverrar sveitarstjórnar í héraðinu er til þeirra.

Sveitarstjórn vísar til bókunar um frá 16. maí 2007 (16. mál), þar sem sveitarstjórn tekur mjög jákvætt í þátttöku í allri samvinnu sveitarfélaga í Eyjafirði.

 

18. Húsasmiðjan, Lónsbakka, umgengni o.fl.

Bréf, dags. 13. ágúst 2007, frá Jóni Björgvinssyni, þar sem hann kemur fram með nokkrar ábendingar varðandi umgengni á lóð Húsasmiðjunnar. Búið er að koma afriti af bréfinu  til stjórnenda Húsasmiðjunnar.

 

19. Eyþing, ályktun um niðurskurð á aflaheimildum

Bréf, dags. 12. júlí 2007, frá Eyþingi, þar sem fram kemur ályktun stjórnar Eyþings í tilefni af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á aflaheimildum á bolfiski. Sveitarstjórn tekur eindregið undir ályktanir Eyþings um málið.

 

20. Ísland 2010, atvinnulíf og menning

Bréf, dags. 4. júlí 2007, frá Tryggva Gíslasyni, þar sem lýst er fyrirhugaðri útgáfu á ritverkinu Ísland 2010, atvinnulíf og menning. Fram kom á fundinum að óskað er eftir að greitt verði fyrir umfjöllun um sveitarfélagið í ritverkinu. Heilsíða kostar kr. 189.000.  Lagt fram til kynningar.

 

21. Ný lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald

Lagt fram tölvubréf, dags. 4. júlí 2007, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem greint er frá gildistöku nýrra laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Meðal þess sem breytist með lögunum er að útgáfa sveitarfélaga á vínveitingaleyfum hættir. Lagt fram til kynningar.

 

22. Umhverfisþing 2007

Bréf, dags. 29. júní 2007, frá umhverfisráðuneytinu þar sem vakin er athygli á fimmta Umhverfisþingi sem verður haldið 12.-13. okt. 2007. Lagt fram til kynningar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl.  00:04