Fundargerð - 12. júní 2008

Fimmtudaginn 12. júní 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 28. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Kjör oddvita og varaoddvita

Oddviti var kosinn  Helgi Steinsson og varaoddviti var kosinn  Árni Arnsteinsson 

                          

2. Fundargerð sameiginlegs fundar sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar og fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar báðar dags. 9. júní 2008.

Báðar fundargerðin er í einum lið. Í fundargerð sameiginlega fundarins kemur fram að ákveðið er að semja við lægstbjóðanda, B. Hreiðarsson ehf., um endurbætur á sundlaugarmannvirkjunum á Þelamörk. Fyrir liggur að endurbæturnar munu verða talsvert kostnaðarsamari en ráð var fyrir gert í fyrstu drögum og í fundargerðinni er gert ráð fyrir að leitað verði til Lánasjóðs sveitarfélaga um viðbótarlán frá því sem áður var búið að veita vilyrði fyrir. Áætluð hlutdeild Hörgárbyggðar í endurbótunum er 84,9 millj. kr.

Fundargerðirnar voru báðar afgreiddar án athugasemda.

Samþykkt var að óska eftir hækkun á því láni, sem áður var búið að fá hjá Lánasjóði sveitarfélaga til framkvæmdanna, upp í kr. 55 millj.

Þar sem áætlaður kostnaður við endurbæturnar er meiri en fjórðungur af áætluðum skatttekjum sveitarfélagsins (útsvar, fasteignaskattar og framlög úr Jöfnunarsjóði) á árinu ber skv. sveitarstjórnarlögum að leggja fram umsögn um kostnaðaráætlun framkvæmdarinnar, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á verktímanum og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, ef áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna. Slík umsögn var lögð fram. Í henni kemur m.a. fram að áætlaðar afborganir og vextir af láni frá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 55 millj. munu verða að meðaltali u.þ.b. kr. 7 millj. á ári í 10 ár, fyrir utan verðtryggingu.

 

3. Hlíðarbær, endurbætur á anddyri

Lagðar fram nokkrar útfærslur á endurbótum á anddyri Hlíðarbæjar, sem unnar eru af Ragnheiði Sverrisdóttur innanhúsarkitekt.

Ákveðið var að lokahönnun anddyrisins miðist við útfærslu sem er nr. 8.

 

4. Fundargerð leikskólanefndar, 11. júní 2008

Fundargerðin er í sjö liðum. Í 2. lið hennar er fjallað um hlutfall stjórnunar í starfshlutfalli leikskólastjóra. Sveitarstjórn frestaði að afgreiða 2. lið fundargerðarinnar, þar sem ekki er lokið athugun á því sem hann fjallar um. Sveitarstjóra falið að vinna greinargerð í samvinnu við leikskólastjóra  um málið og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund. Að öðru leyti var fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

5. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 14. maí 2008

Fundargerðin er í sextán liðum. Í 2. lið hennar er gerð grein fyrir ársreikningi Heilbrigðis-eftirlitsins. Í 16. lið fundargerðarinnar kemur fram að endurnýjuð hafa verið starfsleyfi fyrir einkavatnsveiturnar á Syðri-Bægisá, Þverá, Barká, Auðbrekku og Stóra-Dunhaga.

Ársreikningurinn og fundargerðin voru yfirfarin og afgreidd án athugasemda. Framlag Hörgárbyggðar til eftirlitsins var kr. 821.622 á árinu 2007.

 

6. Samþykkt um hesthús og önnur gripahús í skipulögðum búfjárhverfum

Bréf, dags. 22. maí 2008, frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, er einnig um drög að samþykkt um hesthús og önnur gripahús í skipulögðum búfjárhverfum á starfsvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra.

Samþykktardrögin varða ekki Hörgárbyggð beint þar sem ekki er skipulagt neitt búfjárhverfi og er ekki heldur á skipulagi. Sveitarstjórn telur samt rétt að samþykkta framlögð drög, fyrir sitt leyti.

 

7. Hraukbæjarkot, landspilda, boð um kaup

Bréf, dags. 22. maí 2008, frá Hermanni R. Jónssyni, Fasteignasölunni ehf., þar sem Hörgárbyggð er boðið að kaupa 1,5 ha landspildu úr landi Hraukbæjarkots, við þjóðveg 1.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hafnar erindinu.

 

8. Þór hf., lóðarmál

Lagt fram minnisblað um stöðu lóðarmála Þórs ehf., Lónsbakka. Málið var síðast á dagskrá sveitarstjórnar 21. mars 2007 (1. mál). Þór hf. hefur nú keypt allt húsið á Lónsbakka og hefur í hyggju að hafa þar framtíðar athafnasvæði sitt. Þór hf. óskar eftir að lækur sem liggur um norðurhluta lóðarinnar verði færður út fyrir lóðarmörk, sbr. fund um lóðamál 23. apríl 2002.

Ákveðið var að færa lækinn út á lóðamörk.

 

9. Úrgangur fyrirtækja, fyrirkomulag gjaldtöku

Fram kom að Flokkun ehf. er reiðubúin að taka að sér alla umsýslu á gjaldtöku fyrir förgun úrgangs frá fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Akureyrarbær hefur sami við félagið um málið og gert er ráð fyrir að fleiri aðildarsveitarfélög þess geri það einnig.

Sveitarstjórn ákvað að semja við Flokkun ehf. um slíka þjónustu vegna Hörgárbyggðar.

 

10. Flokkun ehf., hlutafjáraukning

Bréf, ódags., frá Flokkun ehf. um samþykkt aðalfundar félagsins um aukningu á hlutfé þess, vegna hlutafjáraukningar í Moltu ehf. Eignahlutur Hörgárbyggðar er 1,86% og koma því 558.491 í hlut Hörgárbyggðar. Sveitarstjórn samþykkti hlutafjáraukninguna.

 

11. Rekstur byggingarfulltrúaembættis

Lagt fram minnisblað frá fundi um breytingar á stjórnsýslu byggingarnefndar og embætti byggingarfulltrúa, sem haldinn var 6. maí 2008, og afrit af samstarfssamningi um málið sem undirritaður var á fundinum. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti samninginn fyrir sitt leyti 20. febrúar 2008 (8. mál).

Lagt fram til kynningar.

 

12. Mið-Samtún, afmörkun lóðar

Lögð fram afstöðumynd, dags. 2. júní 2008, þar sem sýnd er fyrirhuguð afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús í Mið-Samtúni. Óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar fyrir afmörkuninni.

Sveitarstjórn samþykkti framkomið erindi fyrir sitt leyti.

 

13. Lónsbakki, hraðahindranir og umferðarréttur

Bréf, ódags., frá Önnu Dóru Gunnarsdóttur um hraðahindranir á Lónsvegi og umferðarrétt gagnvart veginum. Hraðahindranir á Lónsbakka hafa áður verið ræddar á fundum í sveitarstjórn, ásamt umferð stórra flutningatækja sem eiga erindi innst í Skógarhlíðina.

Samþykkt var að umferð á Lónsvegi hefði forgang á umferð frá Skógarhlíð og Birkihlíð og að rætt verði við Vegagerðina um  að setja upp hraðahindranir. Einnig að hámarkshraðinn verði 30 km. í Skógarhlíð og Birkihlíð en á Lónsvegi 50. km.

 

14. Myndatilboð fyrir sveitarfélagið

Bréf, dags. 25. maí 2008, frá Helgu Kvam og Völundi Jónssyni, þar sem sveitarfélaginu er gert tilboð í myndatökur fyrir sveitarfélagið.

Ákveðið var að kaupa 75 myndir á kr. 100.000 skv. tilboðinu, en myndirnar eiga að geta nýst til frjálsar afnota í allt útgefið myndefni til framtíðar fyrir sveitarfélagið.

 

15. Hjartaheill, styrkbeiðni

Bréf, dags. 28. maí 2008, frá Hjartaheill, þar sem óskað er eftir stuðningi við kaup á hjartaþræðingartæki fyrir Landspítala-háskólasjúkrahús.

Samþykkt að veita kr. 25.000 til verkefnisins.

 

16. Fundargerð veganefndar, 7. maí 2008

Fundargerðin er í fimm liðum. Þar kemur fram að á árinu 2007 var sett styrking að Hraukbæjarkoti og var kostnaður kr. 534.000. Á árinu 2008 er fyrirhugað að fara í nýbygging/endurbætur á Blómsturvalla og Fornhagavegi og er framlag til vega í Hörgárbyggð áætlað kr. 1.668.000 á árinu 2008.

Lagt fram til kynningar.

 

17. Fundargerðir héraðsnefndar, 13. og 28. maí 2008

Fyrri fundargerðin er í fimm liðum og sú síðari í tveimur liðum. Lagðar fram til kynningar.

 

18. Trúnaðarmál

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið 23:05