Fundargerð - 11. ágúst 2011

Fimmtudaginn 11. ágúst 2011 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1.  Yfirlit yfir rekstur skipulags- og umhverfismála janúar-júní 2011

Lagt fram yfirlit yfir kostnað við skipulags- og umhverfismál fyrstu sex mánuði ársins.

 

2.  Laugaland, deiliskipulag skólasvæðis

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands. Drög að tillögunni voru kynnt á fundi nefndarinnar 10. maí 2011. Lýsing á skipulagsverkefninu hefur verið kynnt, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeirri breytingu á lið 2.1.2. í skipulags- og byggingarskilmálum þess að þar verði ekki sérstaklega gert ráð fyrir gistiheimili.

 

3.  Garðshorn, Þelamörk, deiliskipulag vegna frístundahúss

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna frístundahúss á landspildu úr landi Garðshorns á Þelamörk. Lýsing á skipulagsverkefninu hefur verið kynnt, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna frístundahúss á landspildu úr landi Garðshorns á Þelamörk verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

4. Syðri-Reistará, deiliskipulag vegna íbúðarhúss

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna íbúðarhúss í landi Syðri-Reistarár. Lýsing á skipulagsverkefninu hefur verið kynnt, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna íbúðarhúss í landi Syðri-Reistarár verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

5. Um eyðingu skógarkerfils

Rætt um framhald á eyðingu skógarkerfils í sveitarfélaginu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja áherslu á að unnið verði áfram að eyðingu skógarkerfis í sveitarfélaginu og að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði viðbótarfjárframlag á árinu að fjárhæð a.m.k. kr. 300.000 til verksins, auk þess að sem landeigendum gefist kostur á að fá varnarefni þeim að kostnaðarlausu. Þá er það skoðun nefndarinnar að nauðsynlegt sé að eyðing skógarkerfils verði tekin upp á samstarfsvettvangi sveitarfélaganna.

 

6. Um gerð aðalskipulags

Rætt um gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Í gildi er aðalskipulag fyrir Hörgárbyggðar-hluta sveitarfélagsins, staðfest í febrúar 2009 og aðalskipulag fyrir Arnarneshrepps-hluta þess, staðfest í desember 1998.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að undirbúningur að gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið hefjist sem fyrst. Nefndin leggur til að fyrsta skrefið verði að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til vinna verkið.

 

7. Förgun dýrahræa og sláturúrgangs

Lagt fram til kynningar tölvubréf, dags. 8. júlí 2011, frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar með ályktun aðalfundar sambandsins 13. apríl 2011 þar sem því er beint til sveitarfélaga “að sem hagkvæmastar lausnir finnist á förgun hræa og sláturúrgangs”.

 

8. Leiðbeinendanámskeið Vistverndar í verki

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 11. júlí 2011, frá Landvernd með beiðni um að sveitarfélagið greiði götu íbúa sem kynnu að hafa áhuga á að sækja leiðbeinendanámskeið “Vistverndar í verki” 18.-20. ágúst 2011.

 

9. Umhverfisþing, þátttaka ungmenna

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 30. júní 2011, frá umhverfisráðuneytinu þar sem hvatt er til stuðnings við þátttöku ungmenna á umhverfisþingi sem verður 14. október 2011.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:10.