Fundargerð - 10. maí 2011

Þriðjudaginn 10. maí 2011 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Laugaland, drög að tillögu að deiliskipulagi

Lögð fram drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands, sjá 8. lið fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar 6. apríl 2011. Á fundinn kom Ómar Ívarsson, skipulagsráðgjafi, og skýrði drögin.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að framlögð drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands verði unnin áfram í samræmi við umræður á fundinum.

 

2. Björg II, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lögð fram umsókn frá GV-Gröfum ehf. um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bjarga II. Áætlað heildarmagn á svæðinu er 3 millj. m3, þar af er búið af taka um 0,8 millj. m3. Efnistakan er háð umhverfismati, sbr. 21. tl. í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Fram kom á fundinum að umhverfismatið er í vinnslu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bjarga II í samræmi við framlagða umsókn, þegar umhverfismat framkvæmdarinnar liggur fyrir.

 

3. Hlaðir, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lögð fram umsókn, dags. 12. apríl 2011, frá Skútabergi ehf. og landeigendum á Hlöðum um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Hlaða. Áætlað er að efnistakan muni nema 149.900 m3 á 5-6 árum. Skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 er framkvæmdaaðila skylt að tilkynna til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, sbr. tl. 2a í 2. viðauka laganna.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Hlaða í samræmi við framlagða umsókn, þegar framkvæmdaaðili hefur tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og umhverfismati lokið, ef þess verður krafist.

 

4. Fyrirkomulag á söfnun timburúrgangs, járnaúrgangs o.þ.h.

Rætt um fyrirkomulag á umhverfisviku ársins, sem fælist í söfnun timburúrgangs, járnaúrgangs, garðaúrgangs og hjólbarða, málningu húsa, fræðslu o.fl.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fela menningar- og atvinnumálafulltrúa að annast undirbúning umhverfisviku sem verði 2.-10. júní.

 

5. Samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna

Lögð fram til kynningu dagskrá samráðsfundar Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna sem haldinn verður í Reykjavík 19.-20. maí 2011.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:30.