Fundargerð - 08. nóvember 2007
Fimmtudagskvöldið 8. nóvember 2007 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson, Stefán L Karlsson og Helgi Steinsson oddviti.
Eftirfarandi bókað á fundinum:
1. Skrifað undir fundargerð síðasta fundar.
2. Almenn umræða um göngurnar á síðastliðnu hausti. Þær gengu víðast vel, nema þar sem verið var að ganga fyrstu göngur 12. 13. og 16. september, þá lentu menn í slyddu og snjókomu til fjalla, þannig að sýni var slæmt og því talsvert eftir af fé, en þar gekkst vel í seinni göngum. Þar sem átti að ganga aðrar göngur 23. september var þeim frestað vegna veðurs. Samvinna við Akrahrepp um göngur fremst í Öxnadal og á Hörgárdalsheiði gekk mjög vel.
3. Farið var yfir þann fjárfjölda sem kom fyrir utan heimasveitar í haust. Úr Akrahreppi komu fyrir í Öxnadal um 340 kindur og í Hörgárdal um 200 kindur. Þetta er fyrir utan það fé, sem rekið var vestur af Hörgárdalsheiði og fremstu svæðum Öxnadals. Úr Hörgárbyggð komu fyrir í Silfrastaðarétt 8 kindur. 5 úr Öxnadal og 3 kindur úr Hörgárdal. Úr Eyafjarðarsveit komu 24 kindur fyrir í Hörgárbyggð, en þaðan kom engin kind úr Hörgárbyggð.
4. Umræður um gangnarof. Fjallskilanefnd barst bréf dagsett 6. sept. undirritað af Þóroddi Sveinssyni f.h. umráðenda Möðruvalla 1 og 2. Þar sem tilkynnt er að þaðan verði ekki sendir menn í þau tvö gangnadagsverk sem á jarðirnar voru lögð, en þess farið á leit við nefndina að hún útvegi menn í göngurnar. Þá vantaði einn gangnamann frá Steinsstöðum 2 og annan frá Hrauni ehf. Ráðnir voru menn í öll þessi 4 dagsverk og búið er að greiða þeim úr sveitarsjóði.
5. Tekin var fyrir endurskoðun á vinnureglum fjallskilanefndar og ákveðið að leggja til breytingu í 1. lið. Fellt verði út upphaf greinarinnar aftur að þar sem segir... Brot úr milljón sem nýtist ekki En í staðinn komi: Haustið 2007 var lagt á 1 gangnadagsverk fyrir hverja milljón í fasteignamati óræktaðs lands, sem er í eigu og/eða leigu sama aðila. Upphæð þessi taki árlega breytingu í sama hlutfalli og fasteignamat óræktaðs lands.
6. Tekið var fyrir bréf frá Landbúnaðarstofnun, dagsett 22. október 2007. Gerð voru drög að svarbréfi, sem lagt verður fyrir næsta sveitarstjórnarfund.