Fundargerð - 08. ágúst 2007
Mættir voru Bernharð Arnarson, Líney Diðriksdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Hugrún Ósk Hermannsdóttir og Stella Sverrisdóttir.
Dagskrá:
1. Úttekt á garði. 2. Starfsmannamál. 3. Gamli hluti, utanhússviðhald. 4. Utanhússklæðning á nýja hluta.
4. Utanhússklæðning á nýja hluta. Þessi liður er tekinn fyrstur meðan birtu nýtur. Skemmdir eru komnar á klæðninguna, brot á plötum á þremur stöðum og ekki ljóst hver er valdur að tveimur þeirra, eitt brot kom þegar börnin hjóluðu á vegginn. Vísað til sveitarstjórnar að fyrirbyggja frekari skemmdir á húsinu.
1.Úttekt á garði. Heilbrigðiseftirlitið fer fram á úttekt á lóð, skipta þarf um rennibraut fyrir 31. Des. 2010. Rólur eru nýlegar og standast vottun en líklegt að verði sett út á smárann þar sem gormurinn er farinn að halla. Sandkassinn er farinn að gliðna á samskeytum og komin klemmuhætta. Þetta er hægt að laga, fá Úlfar smið til að setja vinkiljárn á hornin. Spurning hvort er hægt að nýta ódýrari starfskraft í svona smærri viðgerðir. Netgirðingu sunnan við hús þarf að hækka og eins er hætta á að börnin renni sér á nýja húsið í vetur. Kannski væri hægt að stækka lóðina að hluta til suðurs til að fá stærri grasflöt. Það vantar líka jarðveg í suðausturhornið til að fá flötina slétta. Líklega þarf að taka af hólnum vestan við nýbyggingu, kemur betur í ljós eftir veturinn. Eftirlit á lóð, daglegt yfirlit og rekstrar/aðalskoðun á 3-4 mánaða festi. Hana þarf einhver á vegum rekstraraðila að framkvæma. Það þarf að finna einhvern hæfan og samþykktan aðila til að annast þessar reglubundnu skoðanir. Hugrún athugar hvernig þessu er háttað í nágrannasveitarfélögum. Reglugerðin er frá 2002 en nú er heilbrigðiseftirlitið búið að koma tvisvar í ár.
3. Gamli hluti, utanhússviðhald. Líklega er best að bíða með að klæða meira með efninu sem er á nýbyggingunni þangað til einhver reynsla er komin á endinguna. Bagalegur gólfkuldi er í gamla húsinu og mætti setja minni ofn í stóra rýmið til að fá meira og heitara vatn undir gólfið. Móða er milli glerja í nokkrum gluggum. Hurðina út í garð þarf að þétta eða skipta henni út.
2. Starfsmannamál. Starfsmaður í afleysingum í 5 tíma stöðu hættir störfum fljótlega. Þar þarf líklega ekki starfsmann í staðinn eins og er. Einn heilsdagsmaður fer í orlof í haust en aðrir starfsmenn halda sínu starfshlutfalli. Aukning í sérkennslu er fyrirséð með haustinu og best væri að nýta það reynda starfsfólk sem fyrir er til að sinna því frekar en fá inn nýjan starfsmann. Iðjuþjálfi er á staðnum sem sjálfsagt er að nýta sem best. Á móti er dottinn út afleysing fyrir undirbúning og erfiðara að sinna erindum í eldhúsi, innkaupum og þvottum. Best væri að fá matráð í hálfa stöðu sem myndi þá létta eldhúsvinnu af starfsfólki á deild. Það yrði líka mikill munur á hollustu og gæðum matarins. Leikskólanefnd vill því leggja fyrir sveitarstjórn að ráða matráð í hálfa stöðu í haust.