Fundargerð - 06. október 2005

Fimmtudaginn  6. október 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 72. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

Eftirfarandi gerðist:

 

1.  Kjörskár – lagðar fram til samþykktar.   Í Hörgárbyggð eru 160 karlar og 133 konur á kjörskrá, þ.e. samtals 293 manns.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir framlagða kjörskrá.

 

2.  Staðardagskrá 21 – Ólafsvíkuryfirlýsingin.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir yfirlýsinguna og skrifar undir, vegna verkefnisins Staðardagskrá 21.

 

3.   Tilboð vegna flutnings á sorpi í Hörgárbyggð.

Lagt fram tilboð frá Gámaþjónustu Norðurlands í flutnings sorps úr Hörgárbyggð. Er það á sömu nótum og áður og var ákveðið að ganga að tilboðinu með fyrirvara um smávegis breytingarog uppsagnarákvæði. Einnig kom fram að gámur fyrir grófan úrgang verði settur niður við Mela. Sveitarstjóra og oddvita falið ganga frá samningnum.

 

4.    Skipulags- og byggingamál.

Teikningar húsanna við Skógarhlíð 12 og 14 hafa verið kynntar fyrir flestum nágrönnum og var sveitarstjóra falið að vinna áfram að kynningu á  íbúðafjölda í fyrirhuguðum húsum sem þarna er áætlað að rísi.

 

5.   Fræðslusetrið á Möðruvöllum

Lagt fram til kynningar. Hörgárbyggð býðst að gerast stofnaðili að fræðslusetrinu.  Málið verður skoðað við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

 

6.  Fundargerðir og erindi.

a.  Fundargerð skólanefndar ÞMS frá 13.sept. 2005 rædd og afgreidd án athugasemda.

b.  Ályktanir aðalfundar Eyþings frá 23. og 24. september 2005 lagðar fram til kynningar, ásamt skýrslu stjórnar Eyþings. Fram kemur að aðalfundurinn hvetur Greiða leið ehf. til að halda áfram vinnu við undirbúning Vaðlaheiðarganga svo framkvæmdir geti hafist sem fyrst og skorar fundurinn á aðildarsveitarfélögin að taka þátt í hlutafjáraukningu. Ákveðið að skoða málin við gerð fjárhagsáætlunar.

c.  Fundargerð bygginganefndar frá 4. október 2005,

Eftirfarandi er úr fundargerð byggingarnefndar:  ...„12.  liður fundar-gerðar bygginganefndar: Auðbjörn Kristinsson, Skógarhlíð 10, Hörgárbyggð, sækir um leyfi til að byggja þriggja íbúða hús á lóð nr. 12 við Skógarhlíð, samkvæmt teikningum frá H.S.Á. teiknistofu dags. 04.10. 2005, verk nr. 05-324, sbr. 12. tölulið 42. fundargerðar.

Byggingarnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti, en afgreiðsla sveitarstjórnar vegna grendarkynningar þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

13. liður.  Auðbjörn Kristinsson, Skógarhlíð 10, Hörgárbyggð, sækir um leyfi til að byggja þriggja íbúða hús á lóð nr. 14 við Skógarhlíð, samkvæmt teikningum frá H.S.Á. teiknistofu dags. 04.10. 2005, verk nr. 05-324, sbr. 12. tölulið 42. fundargerðar.

Byggingarnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti, en afgreiðsla sveitarstjórnar vegna grendarkynningar þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

14. liður: B. Jensen ehf, Lóni, Hörgárbyggð, sækir um leyfi til að auka við starfsmannaaðstöðu við sláturhús sitt á Lóni, samkvæmt teikningum frá Opus, teikni- & verkfræðistofu dags. 29.09. 2005, verk nr. 000103. Byggingarnefnd samþykkir erindið.

15. liður: Bréf frá Hörgárbyggð, dagsett 23. september 2005 þar sem sveitarstjórn fer þess á leit við byggingarnefnd að hún endurskoði afstöðu sína vegna afgreiðslu nefndarinnar, á erindi Kristins Björnssonar, þar sem hann sækir um leyfi til að byggja við og endurinnrétta gamalt íbúðarhús úr steinsteypu, sem byggt var 1930 á lögbýlinu Hraukbæ, sbr. 14. tölulið 41. fundar byggingarnefndar frá 18. ágúst 2005.

Byggingarnefnd telur að ekki hafi komið fram nein ný efnisatriði í þessu máli og þar af leiðandi séu engin rök fyrir breyttri afgreiðslu.  Hvað skriflegan rökstuðning snertir er vísað til fyrri bókunar þar sem segir:  “Byggingarnefnd vísar til fyrri afgreiðslu, enda hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga nefndarinnar, sem byggingarfulltrúa var falið að koma á framfæri við umsækjanda.  Í gr. 8.2 í byggingarreglugerð segir:  Byggingarnefnd skal m.a. meta útlitshönnun bygginga hvað varðar form, hlutföll, efni og næsta umhverfi.  Nefndin telur þau áform sem sýnd eru á teikningum ekki ásættanleg og bendir á að t.d. bygging vestan við núverandi hús með tengibyggingu á milli væri betri kostur en framlagðar teikningar gera ráð fyrir”.

Eins og þarna kemur fram er það skylda byggingarnefndar að meta tiltekin atriði og það hefur hún gert.  Jafnframt bendir nefndin á hugsanlega leið til úrlausnar á málinu og rökstyður hún ákvörðun sína með því að framlagðar tillögur séu ekki ásættanlegar.

Engu er við þetta að bæta öðru en því að samkvæmt 39. grein í skipulags- og byggingarlögum er ákvæði um heimild til að skjóta ágreiningsmálum til úrskurðarnefndar finnist einhverjum rétti sínum hallað, sbr. einnig 8. grein nefndra laga“.

Enginn nýr rökstuðningur kemur fram í fundargerð byggingarnefndar varðandi viðbyggingu í Hraukbæ, nema vísan í 39.gr. skipulags- og byggingalaga. Sveitarstjórn harmar að bygginganefnd hafi ekki farið að vilja sveitarstjórnar Hörgárbyggðar og bendir Kristni Björnssyni því á að leita réttar síns hjá úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála en samkvæmt 39. grein í skipulags- og byggingarlaga eru ákvæði um heimild til að leita réttar síns finnist einhverjum á rétti sínum brotið, sbr. einnig 8. grein nefndra laga.

 

6. Varðandi erindi Auðbjörns Kristinssonar er vísað í lið 4.

 

7.  Leikskóli: Búið er að tala við Teiknistofuna Opus um að skoða hver sé besta lausnin á stækkun á leikskólanum á Álfasteini og er málið í vinnslu.

 

8.  Ýmis mál.

Lagður fram samningur sem gerður hefur verið við Landssíma Íslands.

 

9.  Trúnaðarmál.  Fært í trúnaðarmálabók.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl: 23:15