Fundargerð - 06. febrúar 2012

Mánudaginn 6. febrúar 2012 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Halldóra Vébjörnsdóttir og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Auk þess voru á fundinum Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, Lárus Orri Sigurðsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Yfirlit yfir rekstur menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála 2011

Lagt fram yfirlit yfir rekstur menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála á árinu 2011.

 

2. Íþróttamiðstöðin á Þelamörk, samningur um viðgerð á sundlaugarbakka

Lagður fram samningur milli Hörgársveitar og Ossa ehf. um viðgerð á sundlaugarbakka, sem nauðsynleg er vegna galla sem komið hefur fram í efni sem notað var við endurbætur á sundlauginni á árinu 2008. Samningurinn gerir ráð fyrir að kostnaður við viðgerðina sé Hörgársveit óviðkomandi að öðru leyti en því að tekjutap vegna lokunar verði ekki bætt.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi samningur um viðgerð á sundlaugarbakka Íþróttamiðstöðvarinnar verði samþykktur.

 

3. Þorrablót Hörgársveitar 2013

Lagt fram bréf, ódags., frá þorrablótsnefnd Hörgársveitar 2013 þar sem óskað er eftir að nefndin fái afnot af Íþróttamiðstöðinni á Þelamörk fyrir þorrablót Hörgársveitar árið 2013.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að taka fyrir sitt leyti jákvætt í að þorrablót Hörgársveitar 2013 verði haldið í Íþróttamiðstöðinni á Þelamörk, en telur nauðsynlegt að athugun fari fram á þeim kostnaði sem því mundi fylgja.

 

4. Amtsmannssetrið á Möðruvöllum ses., samningur

Lögð fram drög að samningi milli Amtsmannssetursins á Möðruvöllum ses. og Hörgársveitar um fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi drög að samnngi um rekstrarframlag til Amtsmannssetursins á Möðruvöllum ses. verði samþykkt.

 

5. UMSE, rekstrarstyrkur 2012

Lagt fram bréf, dags. 16. desember 2011, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) þar sem sótt er um áframhaldandi rekstrarstyrk vegna ársins 2012 og jafnframt að hann verði hækkaður frá síðasta ári. Fram kom á fundinum að í fjárhagsáætlun ársins 2012 sé gert ráð fyrir rekstrarstyrk til UMSE að fjárhæð kr. 300.000.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framlag til UMSE á árinu 2012 verði samkvæmt afgreiddri fjárhagsáætlun.

 

6. Íbúafundur um menningarmál og tómstundamál

Grein grein fyrir hugmynd um íbúafund um menningarmál og æskulýðs- og íþróttamál.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að halda íbúafund um menningarmál og æskulýðs- og íþróttamál í mars-mánuði og var menningar- og atvinnumálafulltrúa falið að undirbúa hann.

 

7. Tómstundastarf aldraða

Menningar- og tómstundanefnd lýsti ánægju sinni með það framtak Kvenfélags Hörgdæla við að koma á fót tómstundastarfi fyrir aldraðra í sveitarfélaginu.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:30