Fundargerð - 05. desember 2007

Miðvikudaginn 5. desember 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 21. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

                                                                                                                    

1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2007, endurskoðun

Lögð fram tillaga að endurskoðaðri fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og fráveitu Hörgárbyggðar fyrir árið 2007. Skv. henni er gert ráð fyrir að skatttekjur hækki um kr. 18.981.000 og heildarrekstrargjöld (nettó) hækki um kr. 12.270.000 frá gildandi áætlun ársins.

Sveitarstjórn samþykkti endurskoðaða tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2007.

 

2. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2008, fyrri umræða

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og fráveitu Hörgárbyggðar fyrir árið 2008.

 

3. Sparisjóður Norðlendinga, stofnfjárútboð

Lagt fram eyðublað fyrir áskrift að viðbótarstofnfé í Sparisjóði Norðlendinga að fjárhæð kr. 27.319.130, sbr. 19. lið fundargerðar sveitarstjórnar 21. nóv. 2007 og 9. lið fundargerðar 17. okt. 2007. Einnig voru lagðar fram upplýsingar um lánskjör sem Glitnir banki mun veita stofnfjáraðilum til að fjármagna umrætt viðbótarstofnfé.

Sveitarstjórn samþykkti að leggja fram viðbótarstofnfé í Sparisjóð Norðlendinga að fjárhæð kr. 27.319.130 að kaupverði, til að verja eign sveitarsjóðs í Sparisjóði Norðlendinga vegna samruna hans við Byr sparisjóð. Sveitarstjórn samþykkti að veita sveitarstjóra umboð til að taka lán 100% í erlendri mynt hjá Glitni banki hf. að fjárhæð allt að kr. 27.319.130 til að fjármagna viðbótarstofnféð, auk lántökukostnaðar.

 

4. Álfasteinn, starfshlutföll

Lögð fram greinargerð leikskólastjóra um starfsmannahald á Álfasteini, sbr. 2. lið í fundargerð leikskólanefndar 19. nóv. 2007. Skv. greinargerðinni eru þar nú 5,61 stöðugildi, en fram kom á fundinum að þau eru í raun 5,65.

Sveitarstjórn samþykkti að allar breytingar á heildarfjölda stöðugilda í Álfasteini skuli framvegis háðar afgreiðslu sveitarstjórnar. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að staða leikskólastjóra verði 75% frá 1. sept. 2007.

 

5. Álfasteinn, dvalarsamningseyðublað

Lögð fram drög að eyðublaði fyrir dvalarsamning á Álfasteini, sbr. 1. lið í fundargerð leikskólanefndar 19. nóv. 2007. Sveitarstjórn fór yfir drögin og voru þau síðan samþykkt með smávegis breytingum.

 

6. Aðalskipulagsgerð, fyrirspurn Skipulagsstofnunar

Bréf, dags. 15. nóv. 2007, frá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er  eftir upplýsingum um stöðu aðalskipulagsgerðar  fyrir Hörgárbyggð. Sveitarstjóra var falið að svara bréfritara um efnislega stöðu málsins.

 

7. Óbyggðanefnd, þjóðlendumál

Bréf, dags. 26. nóv. 2007, frá Óbyggðanefnd, þar sem greint er frá því að frestur fjármálaráðherra til að lýsa hugsanlegum þjóðlendukröfum á svæðinu frá Fnjóská að Blöndu renni út 31. des. nk. Í bréfinu kemur m.a. fram að viðkomandi sveitarfélög hafi aðstoðað við að samræma hagsmunagæslu vegna slíkra mála. Sveitarstjóra falið að fylgjast með málinu og eiga samstarf, eftir atvikum, við önnur sveitarfélög á svæðinu.

 

8. Stígamót, styrkbeiðni

Bréf, dags. 15. nóv. 2007, frá Stígamótum þar sem óskað eftir fjárstuðningi á árinu 2008.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Stígamótum kr.  25.000 í styrk.

 

9. UMFÍ, uppbygging íþróttamannvirkja

Bréf, dags. 14. nóv. 2007, frá Ungmennafélagi Íslands, þar sem gerð er grein fyrir samþykkt sambandsþings um mikla uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Lagt fram til kynningar.

 

10.  Þriggja fasa rafmagn, fyrirspurn

Bréf, dags. 20. nóv. 2007, frá iðnaðarráðuneytinu, þar sem óskað eftir upplýsingum um hvar sé brýnust þörf á tengingu við þriggja fasa rafmagn í sveitarfélaginu.

Sveitarstjóra falið að skoða þessi mál og svara bréfritara.

 

11. Samráðsvettvangur minni sveitarfélaga

Bréf, ódags., frá Grími Atlasyni og Ómari Jónssyni, þar sem boðað er til samráðsfundar framkvæmdastjóra minni sveitarfélaga þann 17. des. 2007.

Sveitarstjóra falið að sækja nefndan fund fyrir hönd Hörgárbyggðar.

 

12. Innkaupareglur Hörgárbyggðar

Tölvubréf, dags. 21. nóv. 2007, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um innkaupareglur sveitarfélaga og fyrirmynd að slíkum reglum. Í bréfinu kemur fram að sveitarfélög skulu hafa sett sér innkaupareglur fyrir lok ársins.

Sveitarstjóra falið að gera drög að innkaupareglum fyrir Hörgárbyggð og leggja fyrir næsta fund.

 

13. Eldvarnir á heimilum

Á síðasta fundi sveitarstjórnar (sjá 22. lið) var frestað afgreiðslu á tilboði frá Eldvarnamiðstöð Norðurlands ehf. á slökkvitækjum fyrir heimili.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn hvetur íbúa sveitarfélagsins til að hafa alltaf góðan eldvarnabúnað í híbýlum sínum og samþykkir 1.500 kr. niðurgreiðslu við kaup á einu léttvatnsslökkvitæki á hvert heimili í sveitarfélaginu miðað við kaup á þessu ári.

 

14. Lánasjóður sveitarfélaga, fasteignafélag sveitarfélaga

Bréf, dags. 28. nóv. 2007, frá Lánasjóði sveitarfélaga um kostnað við athugun á stofnun fasteignafélags um hönnun, byggingu og rekstur fasteigna sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

 

15. Sjúkrahúsið á Akureyri, ársfundur 2007

Bréf, dags. 30. nóv. 2007, frá Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem boðin er þátttaka á ársfund Sjúkrahússins, sem verður 14. desember 2007 kl. 13:30, en þar á að vígja þrjár nýjar hæðir að því tilefni.

Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að mæta á ársfund sjúkrahússins.

 

16. Fundargerð héraðsnefndar, 14. nóv. 2007

Fundargerðin er í ellefu liðum. Í 10. lið hennar koma fram samþykktir um stofnun tveggja nefnda, þ.e. framhaldsskólanefndar (vegna stofnunar framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð) og starfshóps um almenningssamgöngur. Að öðru leyti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð stjórnar Eyþings, 19. nóv. 2007

Fundargerðin er í átta liðum og er hún lögð fram til kynningar.

 

18. Hörgárdalsvegur, reiðleið

Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir því við Vegagerðina að gert verði ráð fyrir reiðleið meðfram nýjum Hörgárdalsvegi nr. 815.

 

19. Bréf Þórodds Sveinssonar dags. 6. sept. og tölvubréf dags 4. des. 2007

Sveitarstjórn samþykkir að ekki sé um gangnarof að ræða í þessu tilviki og fellst því á, að þessu sinni, að falla frá álagi á álögð dagsverk. Sveitarstjóra og fjallskilastjóra er falið að svara bréfritara.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl.  23:30