Fundargerð - 03. nóvember 2005

Fundur í skólanefnd Þelamerkurskóla haldinn í Þelamerkurskóla 3. nóvember 2005 kl. 16:30

 

Fundarmenn:

Sigurbjörg Jóhannesdóttir frá Hörgárbyggð, formaður

Sigrún Jónsdóttir frá Arnarneshreppi, varaformaður

Hanna Rósa Sveinsdóttir frá Hörgárbyggð, ritari

Ingibjörg Smáradóttir fulltrúi foreldraráðs

Anna Lilja Sigurðardóttir skólastjóri

Gunnlaugur Ólafsson fulltrúi kennara í fjarveru Jónínu Sverrisdóttur

Fjarverandi er Unnar Eiríksson.

 

Fundarefni:

 

1. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2006

Anna Lilja gerði lauslega grein fyrir stöðu fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2006. Hækkun verður á launalið vegna 3% kjarasamningsbundinnar launahækkunar kennara sem kemur til framkvæmda 1. jan. 2006. Skólaárið 2005-2006 fækkaði námshópum um einn, eru nú sex í stað sjö áður. Á skólaárinu 2006-2007 óskar skólastjóri eftir að fá að fjölga námshópum aftur upp í sjö með tilheyrandi fjölgun starfsmanna.

Gert er ráð fyrir að starfsemi skólaliða og mötuneytis verði með sama hætti og áður og aðrir rekstrarliðir verði nánast óbreyttir. Við eftirlit hafa komið fram ýmsir viðhaldsþættir á húsnæðinu, jafnt utanhúss og innanhúss sem flokkast undir reglubundið viðhald sem þarf að sinna. Nauðsynlegt er að endurnýja einhvern tækjakost m.a. símkerfi skólans sem er orðið mjög gamalt og óþægilegt í notkun og hefur skólastjóri hefur þegar leitað eftir tilboðum í nýtt símakerfi. Gert er ráð fyrir að þetta nýja kerfi nýtist einnig sem öryggiskerfi og kallkerfi fyrir húsið. Huga þarf að endurnýjun ýmissa kennslutækja, sérstaklega tölvubúnaði í tölvuveri enda þær sem fyrir eru, orðnar gamlar og hægvirkar en koma til með að nýtast áfram í kennslustofum.

Nokkrir framkvæmdaliðir þarfnast skoðunar og er leiksvæðið skólans þar efst á blaði. Vinnueftirlitið hefur gert athugasemd við undirlag á leiksvæðinu og ljóst er að ráðast þarf í jarðvegsskipti. Skólanefnd tekur undir með skólastjórnendum um mikilvægi þess að ráðast í endurbætur á skólalóðinni og ítrekar bókun sína frá 9.11.2004 þess efnis að keypt verði ný leiktæki á skólalóðina. Skólanefnd óskar jafnframt eftir því að við fyrirhugaðar endurbætur á skólalóðinni verði hugað vel að öryggi skólabarna á lóðinni og leitað verði leiða til að draga út hættu vegna mikillar nálægðar þjóðvegarins við skólann og leiksvæðið. Skólastjóri hefur þegar rætt við umdæmisstjóra Vegagerðinnar og er hann tilbúinn að mæta á fund til að fara yfir þessi mál. Stefnt er að því að sá fundur verði haldinn í lok nóvember. Gert er ráð fyrir að þann fund sitji fulltrúar kennara, foreldra, skólastjórnendur, skólanefnd, oddvitar Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps, einnig væri gott að fulltrúi frá lögreglu sæti fundinn. 

Skólanefnd lýsir yfir ánægju með forgangsatriði skólastjórnenda.

 

2. Önnur mál

Engin önnur mál voru á dagskrá.

 

Fundi slitið kl. 18:10

Fundaritari Hanna Rósa Sveinsdóttir