Frumsýning í kvöld
Í kvöld frumsýnir Leikfélag Hörgdæla á Melum leikritið Síldin kemur og síldin fer eftir systurnar Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Þetta er gamanleikur með söngvum og lifandi tónlist og fjallar um farandverkafólk á síldarárunum, sorgir þeirra og gleði, ástir, afbrýði og samskipti við heimafólk.
Rauði þráðurinn er togstreitan milli síldarspekúlantsins og erfingja landsins sem planið stendur á en sá er ekki hrifinn af lýðnum og ólifnaðinum sem síldarævintýrinu fylgir. Um er að ræða viðamikið verkefni hjá Leikfélaginu, t.d. koma að því milli 50 og 60 manns, þar af 19 leikarar. Sunna Borg leikstýrir en hljóðfæraleikur er í höndum þeirra Snorra Guðvarðssonar og Jóns Hrólfssonar. Leikmynd gerir Hallmundur Kristinsson og ljósameistari er Ingvar Björnsson.
Sýnt verður að jafnaði á föstudögum og laugardögum kl. 20:30. Miðapantanir eru í símum 864 7686 og 862 6821 milli kl. 17:00 og 19:00.