Frumsýning á Melum
Fimmtudaginn 5. mars frumsýnir Leikfélag Hörgdæla gamanleikinn Stundum og stundum ekki á Melum í Hörgárdal. Sýningin hefst kl. 20:30. Gamanleikurinn er eftir Arnold og Bach og leikstjóri er Saga G. Jónsdóttir. Hann var fyrst sýndur á Íslandi í Iðnó árið 1940. Á þeim tíma þótti verkið fara langt út yfir velsæmismörk sökum fáklæddra leikara en ekki þótti við hæfi að sjá í bert hold á sviði. Verkið var meira að segja bannað um tíma. Rúmum þrjátíu árum síðar, árið 1972, var stykkið sýnt í eilítið breyttri útgáfu hjá Leikfélagi Akureyrar við góðan orðstír.
Stundum og stundum ekki er farsi í sinni bestu mynd. Misskilningur á misskilning ofan, skemmtilegir karakterar og hröð atburðarrás þar sem eitt leiðir af öðru þar til allt er orðið ein hringavitleysa. Svo er það spurningin, hvernig verður leyst úr allri flækjunni?
Sýnt verður á föstudags- og laugardagskvöldum í mars og apríl.
Miðapantanir eru í símum 862 6821 og 695 7185 kl. 17:00 - 19:00 á virkum dögum og kl. 13:00 - 17:00 um helgar.