Frumsýning á fimmtudaginn
Á fimmtudaginn, 4. mars, frumsýnir Leikfélag Hörgdæla grafalvarlega skrifstofufarsann Lífið liggur við á Melum í Hörgárdal. Sýningin hefst kl. 20:30. Verkið er eftir Hlín Agnarsdóttur og leikstjóri er Saga G. Jónsdóttir. Þetta er nýlegt leikrit og var fyrst sýnt hjá Stúdentaleikhúsinu árið 2007 í leikstjórn höfundar.
Hér er á ferðinni gamanleikur, þó með alvarlegum undirtóni, sem gerist á Íslandi í dag og á vel við, einkum eins og aðstæður eru í þjóðfélaginu.
Það eru krepputímar í fyrirtækinu Mannleg samskipti Group þar sem forstjórinn, Guðmundur, stendur á krossgötum. Eiginkonan er að yfirgefa hann og sumir starfsmenn fyrirtækisins kunna ekki almenna mannasiði. Á nokkrum fundum í fyrirtækinu sjáum við hvernig Guðmundi gengur að fást við undirmennina.
Í þetta skipti er leikið niðri á gólfinu en ekki á hefðbundnu sviði, eins og venja hefur verið á Melum. Áhorfendur sitja á þrjá vegu og því nær leikurunum en fólk á að venjast.
Sýnt verður um helgar í mars og apríl. Miðapantanir eru í símum 847 9309 (Sirrý) og 865 8114 (Axel) milli kl. 16:00 - 18:00 virka daga og eftir kl. 16:00 sýningardaga.