Fjárhagsáætlun afgreidd
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar afgreiddi í síðustu viku fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Áætlunin gerir ráð fyrir að skatttekjur verði 192,5 millj. kr., sem er 5,5% lækkun frá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2008.
Áætlað er að rekstrargjöld (að frádregnum þjónustutekjum) verði samtals sama fjárhæð. Fræðslu- og uppeldismál er langfjárfrekasti málaflokkurinn, eins og áður. Alls er gert ráð fyrir að til hans renni 145,5 millj. kr., sem er um 75% af skatttekjunum. Til að ná rekstrargjöldum niður fyrir áætlaðar tekjur var m.a. ákveðið að lækka framlag til tónlistarskóla frá og með næsta skólaári og að lækka laun sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarfólks. Stefnt er að því að fjárhagsáætlunin verði endurskoðuð á vordögum, þar sem óvenjumörg atriði í efnahagslífi þjóðarinnar voru óljós á vinnslutíma hennar.
Nær engar framkvæmdir verða á vegum sveitarfélagsins á árinu 2009, þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum rekstrarafgangi hjá því. Yfirlit yfir niðurstöðutölur málaflokka má sjá hér og sundurliðun aðalsjóðs er hér.