Fífilbrekkuhátíð á Hrauni

 

 

 

Í gær, sunnudaginn 12. júní var haldin Fífilbrekkuhátið á Hrauni í Öxnadal.  Þetta er í annað sinn sem Fífilbrekkuhátið er haldin að Hrauni og var sú fyrri fyrir ári síðan.  Það er Menningarfélagið Hraun í Öxnadal sem stendur fyrir hátíðinni.

Hátíðin hófst um kl. 14:00.  Tryggvi Gíslason bauð gesti velkomna og sagði frá starfsseminni og endurbótum á Hrauni.  Þórir Haraldsson talaði um gróðurinn, en hann hefur skráð plöntutegundir í landareigninni og þær eru margar og fjölbreytilegar.  Gengið var um staðinn og framkvæmdir skoðaðar.  Verið er að endurbæta íbúðarhúsið að innan og er það verk langt komið.  Þá hafa verið rifnar nokkrar ónýtar byggingar og slétt úr grunnum.  Eftir að fólk hafði sopð kaffi  í boði Hörgárbyggðar, frambornu af Hannesi á Engimýri, gekk fólk til starfa og vann að jarðarbótum og ýmissi tiltekt fram undir kvöld.  En þá bauð menningarfélagið öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn til grillveislu.

Það er mikilsvert fyrir Hörgárbyggð, héraðið allt og raunar okkur öll að svo vel horfir með þetta verkefni á Hrauni.  Hér er verið að heiðra minningu listaskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sem einnig var svo margt annað; s.s.náttúrufræðingur og stjórnmálamaður.  Það er líka fengur í því að þær jarðir þar sem búskapur er ekki stundaður lengur fái nýtt hlutverk, ekki síst þegar verið er að hlú að menningu okkar á myndarlegan hátt.