Enn eru "Klerkar í klípu" í Hörgárdal.
Leikfélag Hörgdæla æfir nú af fullum krafti gamanleikinn Klerkar í klípu eftir Philip King, í leikstjórn Sögu Jónsdóttur. Þetta er önnur uppfærslan sem hún stjórnar hjá félaginu, árið 2002 leikstýrði hún uppsetningunni á Þrek og tár sem var sýnt 22. sinnum og sáu um 1.550 manns þá sýningu.
Stefnt er að frumsýningu undir lok febrúar og verður sýnt á föstudags- og laugardagskvöldum fram eftir vetri.
Þetta er fyrsta sýning leikfélagsins á Melum í Hörgárdal, eftir að miklum endurbótum á félagsheimilinu lauk sem hafa bætt aðbúnað til leiksýninga til muna. Bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig til tekst.
Gamanleikur þessi er nokkurskonar sjálfstætt framhald af leikritinu Getraunagróði eftir sama höfund en það var sýnt á Melum árið 1982 við góðar undirtektir.
Níu leikendur eru í þessari uppfærslu, en auk þeirra vinna 20-30 manns við undirbúning sýningarinnar; við smíðar, leikskrá, búninga, leikmuni, kynningu og svo framvegis.