Dagur leikskólans
Dagur leikskólans 6. febrúar 2023
Í tilefni af árlegum degi leikskólans langar okkur starfsfólki leikskólans í Hörgársveit að segja frá vexti leikskólans og starfinu sem unnið er í Heilsuleikskólanum Álfasteini.
Leikskólinn opnaði í júlí 1995. Þá var Rannveig Oddsdóttir leikskólastjóri og Hugrún Ósk Hermannsdóttir deildarstjóri en hér voru fyrstu árin 16 börn, þrír starfsmenn og húsið 100 fm að stærð og aðeins ein deild og engin starfsmannaaðstaða. Síðan þá hefur runnið mikið vatn til sjávar enda mikil fjölgun íbúa átt sér stað í sveitarfélaginu. Nú er leikskólinn 3ja deilda, með fjölnota íþróttasal og starfsmannaðstöðu. Þar dvelja nú 70 börn á aldrinum eins árs til sex ára, 25 starfsmenn og húsið er 550 fm að stærð. Búið er að byggja við leikskólann þrisvar sinnum vegna fjölgunar og nú er verið að byggja við í fjórða sinn, þ.e. stærri starfsmannaaðstöðu og ungbarnadeild sem stefnt er að taka í gagnið á komandi vori. Leikskólinn verður þá 4ra deilda með aðstöðu fyrir 90 börn og tæpir 900 fm að stærð. Núverandi leikskólastjóri er Hugrún Ósk Hermannsdóttir og aðstoðarskólastjóri er Sigríður Gréta Þorsteinsdóttir.
Einkunnarorð Heilsuleikskólans Álfasteins eru ,,Með sól í hjarta”.
Mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu sem einstaklingi með réttindi og skyldur. Barnið á rétt á að þroskast í gegnum leik á eigin forsendum eins og frekast er unnt og velja sér viðfangsefni undir leiðsögn kennara. Í leikskólanum á að vera gaman að leika sér og vera til. Lögð er áhersla á virðingu og jákvæðni í samskiptum milli allra í leikskólanum. Með leikskólastarfinu er einnig miðað að því að sjá börnin þróa með sér sterka sjálfsmynd, lífsgleði og ánægju, ásamt því að þau verði sjálfsöguð og fær um að sýna virðingu og vináttu í samskiptum. Leitast er við að börnin læri að bera virðingu fyrir náttúrunni og njóta hennar.
Unnið er eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar og Jákvæðs aga auk þess að gera ýmis verkefni tengd Grænfána Landverndar.
Heilsustefnan leggur áhersla á hollt og fjölbreytt fæði þar sem markmiðið er að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu barna. Boðið er upp á ferskmeti þar sem allur matur er unninn á staðnum og lögð áhersla á að nota harða fitu, salt og sykur í hófi. Við samsetningu matseðla leikskólans er tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar.
Börn í heilsuleikskóla fá skipulagðar hreyfistundir 2 sinnum í viku. Þessar stundir eru skipulagðar fyrirfram þar sem markmiðið er að auka samhæfingu, jafnvægi, kraft og þor barnanna. Leitast er eftir að hreyfingin sé framkvæmd á sem fjölbreyttastan hátt við ólíkar aðstæður.
Lögð er áhersla á skapandi vinnu, þannig æfast þau í samhæfingu handa og augna, öðlast sjálfstraust og læra að nota eigið hugvit. Börnin öðlast færni í að koma hugmyndum sínum á framfæri í máli, myndum, söng og leikrænni tjáningu.
Við upphaf leikskólagöngu fær hvert barn Heilsubók barnsins, sem í er skráð þroski og færni barnsins í tengslum við markmið Heilsustefnunnar. Hún hefur að geyma útfærð skráningablöð varðandi t.d. heilsufar, hæð og þyngd, lífsleikni, úthald, þekkingu á litum og formum, hreyfifærni, næringu og svefn og færni í sköpun. Skráningin gerir kennurum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum.
Jákvæður agi er uppeldisstefna byggð á sjálfsstjórnarkenningum. Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni. Þegar barnið þroskast og eflir getu sína verður það þátttakandi í því ferli að finna lausnir og setja mörk. Meginreglur Jákvæðs aga hjálpa til við að byggja samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar. Jákvæður agi byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum en ekki refsingum.
Grunnhugtök í Jákvæðum aga eru: Virðing endurspeglast í þeirri kurteisi sem fólk sýnir hvert öðru, hvernig það talar við aðra og um það og hvernig það fer með eigur annarra. Tal og framkoma sem einkennist af virðingu veitir fólki þá reisn sem því ber. Góðvild er að sýna væntumþykju og hlýju í verki en ekki að skamma, niðurlægja eða lesa yfir öðrum. Festa er að meina það sem sagt er og sjá til þess að fyrirfram ákveðnum verkefnum sé lokið. Á þann hátt lærist að það sem sagt er stendur.
Grænfánaverkefni Landverndar er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem við á leikskólanum tökum þátt í og hafa börnin á Álfasteini í því tilefni gert með sér umhverfissáttmála sem er eftirfarandi: Við viljum hugsa vel um jörðina og hafa náttúruna fallega. Rusl á að fara í ruslið. Það má ekki fara í moldina, grasið, vatnið eða blómin. Við ætlum að endurvinna allt sem hægt er og skila jörðinni því sem við höfum tekið. Við viljum fræðast og fræða aðra um umhverfi okkar. Á þennan hátt sjáum við til þess að komandi kynslóðir njóti þess sem jörðin hefur upp á að bjóða.
“Lubbi finnur málbein” er efni sem við á Álfasteini leggjum mikla áherslu á að tileinka okkur í gegnum leikinn og er það hugsað til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn. Lagt er upp með fjölþætta skynjun sem líkja má við að börnin nemi málhljóðin í þrívídd. Með samþættingu heyrnar- og sjónskyns, ásamt hreyfi- og snertiskyni, verða hljóðin nánast áþreifanleg fyrir börnunum. Lubbi er íslenskur fjárhundur sem hjálpar börnunum að leita að málhljóðunum og er þetta gott veganesti þegar kemur að lestrarnámi síðar meir.
Með bestu kveðjum frá öllum á Álfasteini og til hamingju með dag leikskólans.