Dagur íslenskrar tungu
Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi tungumálsins, gleðjast og fagna sögu þess, samtíð og framtíð. Í tilefni dagsins unnu nemendur í Þelamerkurskóla fjölbreytt verkefni í tengslum við Jónas sem prýða veggi skólans og einnig sundlaugarinnar á Þelamörk sem heitir Jónasarlaug. Íbúar eru hvattir til þess að fara í sund og sjá verk barnanna.
Stjórnaráð Íslands gaf jafnframt út tilkynningu um fyrirhugaða er uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal sem hefur það markmið að heiðra minningu þjóðskáldsins, í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2017. Frá 1996 hefur fæðingardagur Jónasar, 16. nóvember, verið tileinkaður íslenskri tungu og minningu hans verið haldið á lofti með ýmsum hætti.
„Framlag Jónasar Hallgrímssonar til íslenskrar menningar verður seint metið að verðleikum. Þrátt fyrir að Jónas hafi aðeins náð 38 ára aldri er ævistarf hans viðamikið og mikilvægt fyrir sögu og menningu þjóðarinnar. Rannsóknir hans m.a. á jarðfræði Íslands og landakortagerð voru frumkvöðlastarf sem skerptu sýn og efldu skilning fólks á náttúru landsins. Það sama má segja um nýyrðasmíði hans. Þá eru ótalin hin fjölmörgu kvæði og ljóð sem Jónas orti og skipa sérstakan sess í huga þjóðarinnar. Með uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal mun gefast einstakt tækifæri til að tengja saman náttúru staðarins og arfleifð þjóðskáldsins“, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Lesa má greinina í heild sinni HÉR