Boranir hafnar
18.11.2011
Í dag hófust jarðhitarannsóknir í Hörgárdal og Öxnadal á vegum Hörgársveitar og Norðurorku hf. með stuðningi Orkusjóðs. Fræðileg umsjón með verkefninu er í höndum Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Áætlað er að bora 15-20 svonefndar hitastigulsholur víðs vegar um svæðið. Markmiðið með þeim er að leita að hitastigulshámarki, sem síðar væri hægt að skoða nánar með það í huga að staðsetja djúpa holu.
Verktaki er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki fyrir áramót, en hugsanlegt er að boranir standi yfir fram í janúar. Það vill svo skemmtilega til að í þessari viku, þegar fyrsta holan var boruð, eru liðin nákvæmlega þrjú ár frá því að viðræður hófust við Norðurorku um stækkun hitaveitukerfisins á þessu svæði.