Áramótapistill Önnu Dóru
Kæru sveitungar. Það er við hæfi að byrja nýtt ár í bjartsýniskasti og það er einmitt það sem er að sækja á mig þessa dagana.
Þar sem ég er starfsmaður á Álfasteini, verð ég að fá þessari bjartsýnisútrás fullnægt með því að fjalla um þann ágæta stað.
Á síðasta ári var hafist handa við stækkun leikskólans.
Byggingarfyrirtækið Katla á Árskógsströnd fer þar með aðalhlutverk og er verkið nú langt á veg komið. Það hófst reyndar föstudagsmorgun einn í fyrra, þegar sveitarstjórn Hörgárbyggðar fjárfesti í fallegum og gljáandi stunguspaða og kom með hann til að taka fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu skólans.
Með í för var byggingaverktakinn okkar, Jón Ingi Sveinsson frá Kötlu, en hann og Helgi á Bægisá, urðu þess heiðurs aðnjótandi að taka fyrstu skóflustunguna.
Athöfnin var hátíðleg og skemmtileg (eins og reyndar allt sem á Álfasteini er gert) og þegar fyrsta skóflustungan hafði verið tekin, fengu aðrir sveitarstjórnarmenn að stinga hnaus úr jörðu. Að því loknu tók Hugga leikskólakennari eina stungu og síðan Hugrún leikskólastjóri og Sigga Gréta og að lokum munduðu börnin svo sínar skóflur, minni og léttari, og héldu verkinu áfram.
Að þessari athöfn lokinni, var öllum boðið upp á snakk og drykki. Börnin fengu safa og fullorðna fólkinu stóð til boða hressandi kaffisopi eftir útiveruna í rigningu, en afskaplega góðu veðri.
Þegar gestirnir voru farnir, drifum við okkur aftur út og héldum verkinu áfram og nú með stórvirkari vinnutækjum.
Sóttist það að vonum vel, en þvert á spár okkar um morguninn, tókst börnunum ekki að ljúka við að taka grunninn þann daginn. Eins og litlu skóflurnar höfðu nú lofað góðu.
Litlu álfarnir okkar sýndu frábæra takta við moksturinn og við erum stolt af framlagi okkar til nýbyggingar Álfasteins.
Þegar verkinu lýkur og við fáum bygginguna til afnota mun ýmislegt breytast og sumt verður beinlínis til þess að við fáum víðáttubrjálæði til að byrja með. En vonandi komumst við fljótt niður á jörðina aftur, því að þar niðri bíða okkar frábærir litlir skjólstæðingar og ekki dugar að vanrækja þá.
Ég veit ekki hvort komin er dagsetning á verklok eða hvenær við megum vænta þess að geta breitt úr okkur eins og við höfum svo lengi þráð, en víst er að við hlökkum öll til, bæði stór og smá.
Ég vil að lokum óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir það gamla.