Allir í Laufás á sunnudaginn
Evrópski menningarminjadagurinn 2009 verður haldinn sunnudaginn 6. september. Þema dagsins að þessu sinni er torfhús í fortíð og nútíð. Af því tilefni verður boðið uppá forvitnilega dagskrá í Gamla bænum Laufási í Eyjafirði kl. 14 16. Minjavörður Fornleifaverndar Íslands á Norðurlandi eystra, Sigurður Bergsteinsson, verður með erindi í þjónustuhúsi Gamla bæjarins. Í því fjallar hann um íslenska torfbæinn, uppruna hans og þróun. Eftir fyrirlesturinn mun Ingibjörg Siglaugsdóttir, fyrrverandi staðarhaldari og umsjónarmaður Gamla bæjarins í Laufási, leiða gesti um bæinn og reyna að varpa ljósi á spurningar eins og hvað gerir umsjónarmaður torfbæjar? Þarf að halda torfbæ við eru þeir ekki sjálfbærir? Þegar þessum ásamt mörgum öðrum áhugaverðum spurningum er svarað mun sr. Bolli Pétur Bollason segja frá því hvernig var að alast upp við torfhúsið í Laufási.
Gamli bærinn í Laufási er hluti húsasafns Þjóðminjasafns Íslands en í umsjá Minjasafnsins á Akureyri. Í Laufási verður opið eins og endranær á sumrin milli 09:00 og 18:00. Það er enginn aðgangseyrir þennan dag.
Fornleifavernd ríkisins hefur umsjón með evrópska menningarminjadeginum á landsvísu. Heildardagskrá dagsins má nálgast á www.fornleifavernd.is. Tilgangur Evrópska menningarminjadagsins er að vekja athygli almennings á gildi menningararfsins. Um leið og verið er að reyna að skapa vettvang fyrir almenning til að efla grenndarvitund sína með því að sækja heim sögulega staði. Gildi dagsins hefur vaxið ár frá ári og fjöldi þátttakenda eykst frá ári til árs en 49 þjóðir taka þátt þennan dag í ár. Í fyrra komu 20 milljónir gesta til þeirra 32.000 menningarminjastaða sem kynntir voru almenningi og gaman væri ef enn fleiri kæmu í ár.
Látum ekki okkar eftir liggja og sækjum heim staði sem hafa frá svo mörgu að segja í túnfætinum heima!