Aðventudagur í Gamla bænum Laufási
Aðventudagur í Gamla bænum Laufási er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi margra Eyfirðinga og gesta þeirra en hann verður haldinn sunnudaginn 8. desember kl 13:30-16. Þá gefst gestum tækifæri til að fylgjast með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla sveitasamfélaginu.
Undirbúningur jólanna hefst með jólastund fyrir alla fjölskylduna í Laufáskirkju kl 13:30 í umsjón sr. Bolla Péturs Bollasonar og kammerkórinn Hymnodia syngur jólalög.
Það logar kátt á hlóðum á meðan laufabrauðið er skorið. Stórir og smáir keppast við að vinna sína vinnu, tólgarkerti verða steypt og börn á öllum aldri geta gert jólaskraut og gripið verður í spil og tréð verður skreytt. Ilmur af nýreyktu hangikjöti læðist um híbýlin og kúmenkaffi kitlar bragðlaukana. Þetta mun án efa vekja athygli hrekkjóttra jólasveinana sem elska kerti og að skella hurðum.
Jólastemning verður í Kaffi Laufási þar sem gestir geta notið veitinga við jólalegan harmonikkuleik. Gestir mega ekki láta jólamarkað handverksfólks úr héraði með spennandi vöru fram hjá sér fara.
Það eru Þjóðháttafélagið Handraðinn og velunnarar Laufáss sem gera það mögulegt að hægt er að upplifa jólaundirbúning gamla sveitasamfélagsins á þennan hátt.
Aðgangseyrir kr. 900 fyrir fullorðna. Börn 17 ára yngri fá frítt inn.