Þelamörk

Þegar kemur á Moldhaugaháls opnast Hörgárdalur. Er hann mikill dalur, eigi allbreiður, en báðum megin hans rísa há og brött fjöll sem eru skörðum skorin, með afdölum, þverám og giljum. Vesturhlíð dalsins eru hvarvetna brött og hjallalaus, en að austanverðu gengur fram breiður hjalli, sem háfjöllin rísa upp af. Nær hann að mynni Öxnadals og er að nokkru leyti framhald hans. Brún hjalla þessa er nálægt 100 metrum á hæð, en dálítið misjöfn. Nyrsti hluti hans, vestan undir Hlíðarfjalli, kallast einu Laugalandsheiði. Víðast hvar er lítið undirlendi með ánni undir rótum hjalla þessa, enda standa flestir bæir í brúnum hans, þegar framar dregur.  Hlíð þessi frá Hörgárósum að mynni Öxnadals, eða nánar tiltekið að Bægisá, heitir Þelamörk. Nyrsti bær á Þelamörk er Skipalón eða Lón, sem það hét að fornu.

Í ósum Hörgár eru allmiklir hólmar, og er Lónseyja þeirra mest, en innan árósanna er Arnarhóll, allmikil eyja, og rís hann hátt úr sjó.

Þegar horft er inn eftir Hörgárdal frá ystu bæjunum, rís Moldhaugaháls eins og  breið bringa norðan og vestan yndir háfjallinu milli Eyjafjarðar og Hörgárdals. Brún hans að framan er allbrött, en upp frá honum rísa aflíðandi hlíðar upp að hnjúkunum, sem horfa til norðvesturs. Austasti hnjúkurinn er Stórihnjúkur, og skilur Krossastaðadalur hann frá nafnlausum fjallsrana, en sunnan við hann er Fossárdalur, en sunnan að honum liggur Vindheimaöxl; er hún allmiklu hæst þessara fjalla og mjög hömrum girt að vestanverðu. Dalirnir báðir eru grunnir og gróðurlitlir, enda liggja þeir hátt; mynni þeirra 6-700 metra yfir sjó. Í botni og suðurhlíð Fossárdals er jökulbreiða allmikil; er það Vindheimajökull, sem liggur þar á háfjallinu, en hnjúkar og röðlar teygja sig upp úr honum.   Stundum er allur þessi fjallabálkur við hann kenndur. Öll eru fjöll þessi há, 1100-1200 m, en einstakir hnjúkar rísa miklu hærra.  fyrir botni Fossárdals er Strýta, 1451 m, en Kista 1447 m litlu innar. Strýta líkist mjög píramída úr norðri séð, og setur hún furðumikinn svip á allt þetta fjalllendi, sem virðist skapað kringum hana á reglubundinn hátt. Strýta rís upp af fjallinu miðju, en Hlíðarfjall og Vindheimaöxl nokkru lægri, sitt til hvorrar handar, en Súlur og Landafjall fjærst  og lægst.  Fjallabálkur þessi er í senn fagur og tilkomumikill, og veldur þar miklu um, hversu fagurlega hin lægri fjöllin skipa sér um á tindinn í miðjunni, en öll hvíla þau á bungubreiðum fótstalli Laugalandsheiðar og Þelamerkurhjallans. Skiptir fjallabákn þetta mjög vel litum, með grænum gróðurgeirum, kolsvörtum hömrum, gráum skriðum og jökulfönnum.   En ekki njóta fjöll þess sín vel nema úr allmikilli fjarlægð, og fegurst eru þau utan af firði séð og norðan úr Höfðahverfi austan Eyjafjarðar.

Fjallið fram undir Vindheimaöxl heitir Bægisárfjall. Nær það fram að Bægisárdal. Hann er langur en þröngur. Þunnur kambur er milli hans og Glerárdalsbotns. Í botni Bægisárdals er allmikill jökull. Suður, eða öllu heldur vestur úr dalnum er dalverpi, er Lambárdalur heitir. Eftir dalnum fellur Bægisá; er hún allvatnsmikil, og fellur hún lengstum í gili, sem þó er hæst og klettamest niður í dalsmynninu. Oft er jökulkorgur í henni. Í  Bægisárfjalli er er allstórt skarð, er Húsárskarð heitir.  Nær það upp undir Vindheimajökul.  Húsáin, er úr því fellur, er vatnslítil, en að henni er hrikalegt hamragil, og fellur hún niður fjallið í mörgum fossum, enda er hlíðin snarbrött en klettalaus meðfram gilinu.

Úr Krossastaða- og  Fossárdal falla smáár samnefndar niður í Hörgá. Krossastaðaá hefur grafið sér mikið gil og djúpt gegnum hjallann niður á láglendið; við hana endar Laugalandsheiði.   Fossárgilið er miklu minna, en áin dregur nafn af fossum mörgum, sem í henni eru. Margir þeirra eru hinir snotrustu.

Eins og fyrr segir, er nyrsti hluti Moldhaugaháls mög lágur; er því tungan milli Eyjafjarðar og Hörgár raunverulega ásótt láglendi, þar sem skiptast á melahryggir, móar og mýrasund. Að ánni liggja brattir melbakkar, og skapast allbreið flatneskja meðfram ánni milli brekkna, og nær það nálægt 5 km frá Hörgárósum.

Ekki er jafnþéttbýlt á Þelamörk og Kræklingahlíð. Bæjaröð er ein fram að Fossá, auk þriggja bæja, sem liggja norðan í fláanum upp undir Laugarlandsheiði. Síðan er bæjaröð tvísett að Bægisá.

 

Heimild: Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, frá Hlöðum, fyrri hluti sem kom út 1949.



View Larger Map